Categories
Greinar

Sameinum krafta og tryggjum öllum öruggt húsnæði

Deila grein

26/08/2013

Sameinum krafta og tryggjum öllum öruggt húsnæði

Fjöldi þeirra sem vilja leigja íbúðarhúsnæði fremur en kaupa hefur tvöfaldast á síðustu sex árum. Ungt fólk og tekjulágt á erfitt með að fjármagna íbúðakaup, eldra fólk vill síður festa fé í fasteignum og margir forðast áhættuna sem felst í því að kaupa og reka húsnæði. Þúsundir íbúða vantar á leigumarkaðinn til að anna eftirspurn.Það er augljóst að við þurfum fleiri valkosti í húsnæðismálum þannig að allir eigi kost á húsnæði sem hentar þörfum þeirra á viðráðanlegum kjörum. Verkalýðshreyfingin talar fyrir umbótum í húsnæðismálum og BSRB vill að almennu leigukerfi að norrænni fyrirmynd verði komið á í þessu skyni. ASÍ vill beita sér fyrir því að komið verði á fót varanlegu og traustu húsnæðiskerfi og að samtökin eigi frumkvæði að mótun og endurreisn félagslegs íbúðakerfis.

Vilji er fyrir hendi – nú þurfa verkin að tala

Ég fagna frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar og hvet til þess að við tökum höndum saman og látum verkin tala. Gott samfélag byggist á samvinnu. Í húsnæðismálum sýnir reynslan að markaðurinn tryggir ekki sjálfkrafa hæfilegt framboð leiguíbúða. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar þurfa að leggja sitt af mörkum.Í kjölfar seinni heimsstyrjaldar var mikill húsnæðisskortur hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð og Noregi byggðu þúsundir íbúða til að bregðast við vandanum. Leiðarljósið var staðlað, vel skipulagt húsnæði á hagstæðu verði.

Í júlí 1965 náðist samkomulag hér á landi milli verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og borgar um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Samkomulagið var liður í lausn á erfiðri vinnudeilu. Í stað launahækkana var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík. Þetta varð fyrirmynd að seinni tíma samningum um þjóðarsátt þar sem samið var um fleira en kaup og kjör.

Örugg búseta í leiguhúsnæði

Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis hér á landi hefur ekki staðið undir nafni. Framboð er lítið, leiguverð hátt og húsnæði sjaldnast leigt út nema til skamms tíma í senn. Við þessar aðstæður býr fólk ekki við það húsnæðisöryggi sem er svo mikilvægt öllum. Þessi staða er þó ekkert náttúrulögmál, með réttum aðgerðum getum við breytt þessu og gert húsaleigu að raunhæfum valkosti.Á síðasta ári var gerð breyting á lögum um húsnæðismál sem setur skýr skilyrði fyrir lánveitingum vegna uppbyggingar leiguhúsnæðis. Íbúðalánasjóði er heimilt að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða að því tilskildu að félögin séu ekki rekin í hagnaðarskyni og hafi útleigu húsnæðis að langtímamarkiði. Lán getur numið allt að 90% af matsverði íbúðar. Ef um er að ræða félagslegar leiguíbúðir sem uppfylla tiltekin skilyrði, meðal annars um að leigjendur séu innan ákveðinna tekju- og eignamarka, eru lánin veitt á niðurgreiddum vöxtum.

Aðkoma verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða

Markmið þeirra sem eiga og reka leigufélög verður að snúast um aukið framboð hagkvæmra leiguíbúða til langtíma. Mér sýnist verkalýðsfélögin öðrum betur fallin til þess að sinna þessu hlutverki. Þau bera hagsmuni félagsmanna sinna fyrir brjósti, eru ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa traustan rekstrargrundvöll. Öflug verkalýðsfélög byggjast á því að félagsmenn þeirra hafi á þeim traust og trú og sjái að markvisst sé unnið með hagsmuni þeirra í fyrirrúmi. Verkalýðsfélögin myndu því án efa styrkjast og eflast með því að tryggja félagsmönnum sínum leiguhúsnæði á góðum kjörum. Ný lagaákvæði um lán til uppbyggingar leiguhúsnæðis setja skynsamlegan ramma um uppbyggingu leigumarkaðar til langtíma á réttum forsendum. Áhugi og vilji verkalýðsfélaganna liggur fyrir og lífeyrissjóðir hafa verið með til skoðunar að undanförnu hvort þeir geti fjárfest með aðkomu að uppbyggingu leigumarkaðar fyrir íbúðarhúsnæði.

Ríki og sveitarfélög mega ekki láta sitt eftir liggja til að liðka fyrir þessu máli. Ég tel vel koma til greina að bjóða leigufélögum sem byggja án hagnaðarsjónarmiða byggingarlóðir á kostnaðarverði. Nauðsynlegt er að endurskoða nýju byggingarreglugerðina ef auka má sveigjanleika og draga úr byggingarkostnaði. Eins er mögulegt að bæta skattaumhverfi leigufélaga, til dæmis gæti ríkið fellt niður stimpilgjöld af skuldabréfum þeirra og fleiri leiðir kunna að vera færar.

Ég er þegar byrjuð að funda með verkalýðsfélögum, sveitarfélögum, lífeyrissjóðum og öðrum áhugasömum um þessi mál, auk þess að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Ef við horfum til baka og skoðum árangurinn af júlísamkomulaginu frá árinu 1965 tel ég ljóst að við höfum allar forsendur til að ráðast í slíkt átak ef allir aðilar leggjast á eitt með samvinnu og skýr markmið að leiðarljósi.

Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra

birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2013