Í upphafi nýs árs ber að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum fyrir land og þjóð. Hún tekur við góðu búi á marga mælikvarða sem mikilvægt er að grafa ekki undan og rýra. Við lestur stefnuyfirlýsingar og kynningar á þeim verkefnum sem ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hyggst ráðast í vakna ýmsar spurningar, enda er yfirlýsingin rýr í roðinu miðað við ríkisstjórnarsáttmála fyrri kjörtímabila. Svör um hvert planið er í ýmsum málaflokkum eru óskýr eða engin. Það voru boðaðar breytingar án þess að tiltaka á skynsamlegan hátt í hverju þær ættu að felast og endurspeglar stefnuyfirlýsingin það í veigamiklum atriðum.
Ný ríkisstjórn boðar auðlindagjöld á okkar stærstu atvinnugreinar án þess að hafa mörg svör um hvað á að felast í þeim. Þessar atvinnugreinar hafa drifið áfram hagvöxt í landinu og skapað verðmætar útflutningstekjur í þeirri hörðu alþjóðlegu samkeppni sem þær búa við. Sporin hræða vissulega þegar kemur að þessum málaflokkum, en síðasta vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna kjörtímabilið 2009-2013 hóf þá vegferð að ætla að umturna sjávarútvegskerfinu með innköllum aflaheimilda. Sú vegferð varð til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi fóru að halda að sér höndum, frost varð í fjárfestingum og óvissa skapaðist meðal þeirra þúsunda sem starfa í greininni.
Viðreisn hefur áður boðað markaðsleið í sjávarútvegi sem fól í sér uppboð á aflaheimildum. Hún var sama marki brennd og sú sem Samfylking og Vinstri-græn börðust fyrir; umlukt óvissu. Svo virðist sem Viðreisn hafi stungið þeirri hugmynd ofan í skúffu, áhugavert væri að vita af hverju það er. Það verður að vanda til verka þegar gjaldheimta er boðuð af atvinnulífinu, en hin óljósa stefna nýrrar ríkisstjórnar verður til þess að fyrirtæki í greininni halda að sér höndum í fjárfestingum. Það þjónar ekki hagsmunum samfélagsins.
Það gleymist oft að íslenskur sjávarútvegur er hátækniiðnaður sem hefur borið íslenskt hagkerfi uppi í logni og stormi í gegnum tíðina. Hann er arðbær og án ríkisstyrkja, ólíkt því sem tíðkast í hinu fyrirheitna landi ríkisstjórnarinnar, Evrópusambandinu. Þá er umgengni við nytjastofna sjávar til fyrirmyndar og greinin skilar miklu í ríkissjóð, meðal annars í formi veiðigjalda. Það fylgir því ábyrgð að stjórna landi. Óvissa sem skapast með algjörlega óútfærðum hugmyndum til gjaldtöku af atvinnulífinu í landinu gagnast engum.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2025.