Categories
Greinar

Óvissa sem gagnast engum

Deila grein

02/01/2025

Óvissa sem gagnast engum

Í upp­hafi nýs árs ber að óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um fyr­ir land og þjóð. Hún tek­ur við góðu búi á marga mæli­kv­arða sem mik­il­vægt er að grafa ekki und­an og rýra. Við lest­ur stefnu­yf­ir­lýs­ing­ar og kynn­ing­ar á þeim verk­efn­um sem rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins hyggst ráðast í vakna ýms­ar spurn­ing­ar, enda er yf­ir­lýs­ing­in rýr í roðinu miðað við rík­is­stjórn­arsátt­mála fyrri kjör­tíma­bila. Svör um hvert planið er í ýms­um mála­flokk­um eru óskýr eða eng­in. Það voru boðaðar breyt­ing­ar án þess að til­taka á skyn­sam­leg­an hátt í hverju þær ættu að fel­ast og end­ur­spegl­ar stefnu­yf­ir­lýs­ing­in það í veiga­mikl­um atriðum.

Ný rík­is­stjórn boðar auðlinda­gjöld á okk­ar stærstu at­vinnu­grein­ar án þess að hafa mörg svör um hvað á að fel­ast í þeim. Þess­ar at­vinnu­grein­ar hafa drifið áfram hag­vöxt í land­inu og skapað verðmæt­ar út­flutn­ings­tekj­ur í þeirri hörðu alþjóðlegu sam­keppni sem þær búa við. Spor­in hræða vissu­lega þegar kem­ur að þess­um mála­flokk­um, en síðasta vinstri­stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri-grænna kjör­tíma­bilið 2009-2013 hóf þá veg­ferð að ætla að um­turna sjáv­ar­út­vegs­kerf­inu með inn­köll­um afla­heim­ilda. Sú veg­ferð varð til þess að fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi fóru að halda að sér hönd­um, frost varð í fjár­fest­ing­um og óvissa skapaðist meðal þeirra þúsunda sem starfa í grein­inni.

Viðreisn hef­ur áður boðað markaðsleið í sjáv­ar­út­vegi sem fól í sér upp­boð á afla­heim­ild­um. Hún var sama marki brennd og sú sem Sam­fylk­ing og Vinstri-græn börðust fyr­ir; um­lukt óvissu. Svo virðist sem Viðreisn hafi stungið þeirri hug­mynd ofan í skúffu, áhuga­vert væri að vita af hverju það er. Það verður að vanda til verka þegar gjald­heimta er boðuð af at­vinnu­líf­inu, en hin óljósa stefna nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður til þess að fyr­ir­tæki í grein­inni halda að sér hönd­um í fjár­fest­ing­um. Það þjón­ar ekki hags­mun­um sam­fé­lags­ins.

Það gleym­ist oft að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er há­tækniiðnaður sem hef­ur borið ís­lenskt hag­kerfi uppi í logni og stormi í gegn­um tíðina. Hann er arðbær og án rík­is­styrkja, ólíkt því sem tíðkast í hinu fyr­ir­heitna landi rík­is­stjórn­ar­inn­ar, Evr­ópu­sam­band­inu. Þá er um­gengni við nytja­stofna sjáv­ar til fyr­ir­mynd­ar og grein­in skil­ar miklu í rík­is­sjóð, meðal ann­ars í formi veiðigjalda. Það fylg­ir því ábyrgð að stjórna landi. Óvissa sem skap­ast með al­gjör­lega óút­færðum hug­mynd­um til gjald­töku af at­vinnu­líf­inu í land­inu gagn­ast eng­um.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2025.