Categories
Greinar

Pútín-efnahagskreppan! Hversu stór?

Deila grein

27/03/2022

Pútín-efnahagskreppan! Hversu stór?

Stríðið í Úkraínu hef­ur varað í rúm­an mánuð. Af­leiðing­arn­ar birt­ast okk­ur á degi hverj­um, með mynd­um af mann­falli al­mennra borg­ara. Millj­ón­ir flótta­manna eru á ver­gangi, heilu íbúðahverf­in hafa verið jöfnuð við jörðu, ung­ar fjöl­skyld­ur eru aðskild­ar – allt eru þetta birt­ing­ar­mynd­ir mis­kunn­ar­lauss stríðs í Evr­ópu, sem flest okk­ar þekkja ein­ung­is úr sögu­bók­um. Við finn­um fyr­ir af­leiðing­um stríðsins á hverj­um degi; verð á bens­ín, mat, kambstáli og nikk­el hef­ur hækkað veru­lega. Þess­ar hækk­an­ir þýða að verðbólga eykst og neysla og hag­vöxt­ur munu minnka. Lífs­kjör á heimsvísu rýrna! Þess má geta að Rúss­land og Úkraína fram­leiða 26% af hveiti, 16% af korni, 30% af byggi og 80% af sól­blóma­ol­íu. Ljóst er hag­kerfi ver­ald­ar­inn­ar munu finna fyr­ir mikl­um skorti á fram­leiðslu á þess­um afurðum og því miður munu fá­tæk­ustu lönd heims­ins lík­lega finna enn meira fyr­ir þessu.

Þörf á sam­stillt­um aðgerðum á heimsvísu

Það eru blik­ur á lofti og eft­ir­spurn­ar­kreppa gæti mynd­ast vegna verðhækk­ana. Þessi þróun þarf ekki að raun­ger­ast ef efna­hags­stjórn­in er skyn­söm. Til að kljást við Kreml­ar-ógn­ina verða leiðandi hag­kerfi heims­ins að stilla sam­an aðgerðir sín­ar sem miða að því að vera minna háð orku­fram­leiðslu Rúss­lands. Í hag­sög­unni eru dæmi eru mikl­ar hækk­an­ir á olíu, til dæm­is eft­ir Yom Kipp­ur-stríðið 1973 og ír­önsku bylt­ing­una 1979 og svo þær hækk­an­ir olíu­verðs sem áttu sér stað 2010-2011 eft­ir fjár­málakrepp­una 2008. Áhrif þess­ara hækk­ana á heims­hag­kerfið voru þó gjör­ólík. Fyrri hækk­an­ir höfðu mik­il áhrif og urðu til þess að veru­lega hægðist á alþjóðahag­kerf­inu en þær seinni gerðu það ekki. Hver er þá mun­ur­inn?

Tíma­mót­a­rann­sókn Bernan­kes, Gertlers og Wat­sons

Árið 1997 birtu Bernan­ke, Gertler og Wat­son tíma­móta­hagrann­sókn sem fjallaði um áhrif hækk­un­ar olíu­verðs á banda­ríska hag­kerfið. Niðurstaða þeirra var að efna­hagskreppa raun­gerðist ekki vegna þess að olíu­verð væri að hækka, held­ur vegna þess að seðlabank­inn hefði áhyggj­ur af víxl­verk­un launa og verðlags, og hækkuðu því stýri­vexti mikið sem viðbrögð við hækk­un olíu­verðs. Paul Krugman hef­ur ný­lega bent á mun­inn á því hvað gerðist eft­ir ol­íu­áfallið á 8. ára­tugn­um ann­ars veg­ar og hins veg­ar eft­ir fjár­málakrepp­una 2008 þegar Bernan­ke var við stjórn­völ­inn hjá banda­ríska seðlabank­an­um og hélt aft­ur af vaxta­hækk­un­um þrátt fyr­ir áköll um annað. Það ber þó að hafa bak við eyrað að aðstæður á hag­kerf­um heims­ins eru ólík­ar á hverj­um tíma og þurfa viðbrögð stjórn­valda að taka mið af því. Við höf­um lært af reynsl­unni að birt­ing­ar­mynd­ir efna­hags­áfalla eru ólík­ar. Það er ljóst að verðbólga er stórskaðleg öll­um hag­kerf­um og í ljósi verðhækk­ana und­an­far­inna mánaða er ekki að undra að vaxta­hækk­un­ar­ferlið sé hafið víða um heim. Það er þó afar brýnt að þær efna­hagsþreng­ing­ar sem eru í vænd­um verði ekki of mikl­ar og seðlabank­ar bregðist ekki of hart við. Í því sam­bandi er mik­il­vægt að sam­ræm­is sé gætt í stefnu­mörk­un hins op­in­bera. Af þeim sök­um er mik­il­vægt að hið op­in­bera gangi í takt og styðji við pen­inga­stefn­una, t.d. í rík­is­fjár­mál­um.

Horf­urn­ar á Íslandi

Hnökr­ar í alþjóðaviðskipt­um hafa hægt á end­ur­reisn­inni í kjöl­far Covid. Óverj­an­leg inn­rás Rússa í Úkraínu eyk­ur enn á lík­ur þess að það hægi á hag­vexti. Hrávöru­verð hækk­ar mikið á alþjóðamörkuðum og því mun verðbólga aukast í kjöl­farið. Það verður áfram óvissa um þró­un­ina meðan stríðið var­ir. Óljóst er þó hvaða áhrif stríðið hef­ur á greiðslu­jöfnuð þjóðarbús­ins, þ.e. lík­legt er að viðskipta­kjör rýrni vegna hækk­andi verðbólgu en á móti kem­ur að ferðaþjón­ust­an virðist enn standa sterkt. Því ætti gengi krón­unn­ar að hald­ast stöðugt að öllu öðru óbreyttu. Íslend­ing­ar þurfa ekki að leita í sögu­bæk­urn­ar til að kynna sér áhrif verðbólgu á heim­il­in. Stóra málið í efna­hags­stjórn­inni hér á landi er að halda verðbólg­unni í skefj­um. Það er mjög sorg­legt að horfa upp á að helm­ing­ur­inn af 6,2% verðbólg­unni á Íslandi er vegna mik­ill­ar hækk­un­ar hús­næðis­verðs á höfuðborg­ar­svæðinu. 22,4% hækk­un mæl­ist nú á höfuðborg­ar­svæðinu! Hér er ekki gengið í takt til stuðnings bar­átt­unni gegn verðbólg­unni! Það verður að auka fram­boð hag­kvæmra lóða og fara í stór­átak í hús­næðismál­um ef þetta á ekki að enda með efna­hags­legu stór­slysi, því er afar gott að skipu­lags­mál­in séu kom­in í innviðaráðuneyti Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar!

Það hafa orðið ótrú­leg­ar breyt­ing­ar í heim­in­um á ein­um mánuði og óviss­an verður áfram ríkj­andi á meðan stríðið var­ir og jafn­vel leng­ur. Það er auðvitað hrylli­leg til­hugs­un að heim­ur­inn sé jafn­brot­hætt­ur og raun ber vitni. Brýn­ast fyr­ir hag­stjórn­ina bæði á heimsvísu og hér inn­an­lands er að fara í aðgerðir sem miða að því að draga úr verðbólguþrýst­ingi og styðja Seðlabanka Íslands í sinni veg­ferð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.