Categories
Greinar

Sælustund á aðfangadagskvöld

Íslend­ing­ar búa að ríku­legri menn­ingu sem hef­ur fylgt okk­ur um alda­bil. Þjóðlög og rím­ur hafa ómað síðan á 12. öld og hug­vit þjóðar­inn­ar á sviði tón­list­ar er botn­laust. Tón­list­in vek­ur at­hygli um víða ver­öld, safn­ar verðlaun­um og viður­kenn­ing­um. Þátta- og kvik­mynda­fram­leiðend­ur flykkj­ast til lands­ins og all­ir vilja upp­lifa andagift­ina sem Íslandi fylg­ir. Með mik­illi fag­mennsku hef­ur tón­list­ar­mönn­um tek­ist að koma Íslandi á kortið sem tón­list­ar­landi – eitt­hvað sem við Íslend­ing­ar viss­um auðvitað fyr­ir löngu.

Deila grein

15/12/2020

Sælustund á aðfangadagskvöld

Íslend­ing­ar búa að ríku­legri menn­ingu sem hef­ur fylgt okk­ur um alda­bil. Þjóðlög og rím­ur hafa ómað síðan á 12. öld og hug­vit þjóðar­inn­ar á sviði tón­list­ar er botn­laust. Tón­list­in vek­ur at­hygli um víða ver­öld, safn­ar verðlaun­um og viður­kenn­ing­um. Þátta- og kvik­mynda­fram­leiðend­ur flykkj­ast til lands­ins og all­ir vilja upp­lifa andagift­ina sem Íslandi fylg­ir. Með mik­illi fag­mennsku hef­ur tón­list­ar­mönn­um tek­ist að koma Íslandi á kortið sem tón­list­ar­landi – eitt­hvað sem við Íslend­ing­ar viss­um auðvitað fyr­ir löngu.

Við erum einnig mik­il bóka- og sagnaþjóð. Íslend­inga­sög­urn­ar, Hall­dór Lax­ness og hið ár­lega jóla­bóka­flóð er ein­stakt fyr­ir­bæri og raun­ar hef­ur jóla­bóka­flóðið aldrei verið stærra en nú! Ef­laust eru marg­ir sem finna fyr­ir val­kvíða enda munu jól­in ekki duga til að lesa allt sem okk­ur lang­ar. Fyr­ir tveim­ur árum samþykkti Alþingi frum­varp mitt um stuðnings­kerfi við út­gáfu bóka á ís­lensku. Ákvörðunin markaði þátta­skil í ís­lenskri bók­mennta­sögu og töl­urn­ar tala sínu máli. Útgefn­um titl­um fjölg­ar – sér­stak­lega í flokki barna­bóka – og bók­sala fyr­ir jól­in er um 30% meiri en á sama tíma í fyrra.

Á ár­inu hafa marg­ir lista­menn orðið fyr­ir miklu tekjutapi, enda listviðburðir bannaðir meira og minna síðan í mars. Stjórn­völd hafa stutt við lista­fólk með ýms­um hætti, t.d. með 10 stuðningsaðgerðum sem kynnt­ar voru í októ­ber. Ein þeirra var vit­und­ar­vakn­ing um mik­il­vægi menn­ing­ar og lista og um helg­ina var kynnt áhuga­vert verk­efni í þá veru, sem miðar að því færa þjóðinni listviðburði heim að dyr­um!

Al­menn­ingi um allt land býðst að senda vina­fólki eða ætt­ingj­um sín­um landsþekkt lista­fólk, sem bank­ar upp á 19. og 20. des­em­ber til að skemmta þeim opn­ar. Alls verða heim­sókn­irn­ar 750 tals­ins og yfir 100 lista­menn taka þátt í verk­efn­inu. Það er unnið í sam­starfi við Lista­hátíð í Reykja­vík og ég vona að sem flest­ir fái notið þess­ar­ar glæsi­legu gjaf­ar.

Við erum lukku­leg þjóð. Við meg­um ekki gleyma því að við eig­um of­gnótt af bók­um, hríf­andi tónlist, mynd­list og hönn­un sem hlýj­ar þegar frostið bít­ur í kinn­ar. Við eig­um að standa vörð um ís­lenska menn­ingu og list­ir, styðja við lista­menn­ina okk­ar og setja ís­lenska list í jólapakk­ana. Miðstöð hönn­un­ar og arki­tekt­úrs hef­ur birt yf­ir­lit á vefsíðu sinni yfir versl­an­ir sem selja ís­lenska hönn­un, og þar er sko af nægu að taka. Bæk­ur og leik­húsmiðar eru ekki ama­leg gjöf held­ur, ekki síst þegar viðburðaþyrst þjóðin losn­ar úr Covid-klón­um!

Það bær­ist eitt­hvað innra með manni þegar ró leggst yfir heim­ilið á aðfanga­dags­kvöld, allt heim­il­is­fólk satt og sælt, ljúf­ir jólatón­ar óma og maður kúr­ir með jóla­bók í hönd. Þessi stund ramm­ar inn ham­ingj­una hjá mér um jól­in. Ég segi því hik­laust – ís­lensk menn­ing og list­ir eru jóla­gjöf­in í ár!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember 2020.