Categories
Greinar

Saman gegn sóun

Deila grein

24/03/2016

Saman gegn sóun

sigrunmagnusdottir-vefmyndBetri nýtni og góð umgengni eru kjörorð mín sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Með hliðsjón af þeim hefur matarsóun verið rauður þráður í starfi ráðuneytisins síðustu mánuði. Matarsóun veldur álagi á umhverfið og er áætlað að um 5% heildarlosunar Íslendinga á kolefni eigi rætur að rekja til matarsóunar. Því er eðlilegt að matarsóun sé liður í Sóknaráætlun í loftslagsmálum og er ráðgert að Umhverfisstofnun hafi fjórar milljónir á ári næstu þrjú árin til að vinna að þessum þætti.

En sóun á öðrum sviðum er jafnframt vandamál hér á landi. Á dögunum kynnti ég stefnuna Saman gegn sóun, sem fjallar um hvernig við getum bætt auðlindanýtingu og spornað gegn sóun. Um tímamót er að ræða því í fyrsta skipti er slík stefna sett fram af hálfu stjórnvalda.

Hlutir endast betur og lengur ef dagleg umgengni um þá er góð. Við jarðarbúar berum mikla ábyrgð. Hófsöm nýting auðlinda þarf að vera í fyrirrúmi til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Með réttu hugarfari og væntumþykju fyrir náttúrunni þurfum við að sporna gegn sóun á öllum sviðum og virkja ímyndunaraflið í þágu nýrra hugmynda sem geta leitt til framleiðslu á öðrum og nýjum hlutum úr þeim gömlu. Mikilvægt að hafa í huga að hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum. Mögulegt verður að sækja um styrki sem tengjast markmiðum stefnunnar í verkefnasjóð ráðuneytisins.

Lítum okkur nær 
Við getum breytt ýmsu í daglegu lífi okkar í því skyni að draga úr sóun. Sem dæmi má nefna endurnýtanlegar umbúðir í stað einnota. Neikvæð umhverfisáhrif af völdum einnota umbúða, ekki síst plasts, eru allt um kring og grafalvarleg. Hvert og eitt okkar þarf að líta í eigin barm og huga að umhverfisvænum lausnum í daglegu lífi.

Spennandi tækifæri eru framundan við að virkja kraft nýsköpunar og skapa græn störf. Fjárfestar þurfa í auknum mæli að huga að því hvernig þeir geta tekið þátt í að þróa græna framtíð svo fyrirtæki og einstaklingar geti lagt meira af mörkum til umhverfismála. Lokatakmarkið er að enginn úrgangur myndist og að allar vörur séu að öllu leyti endurvinnanlegar. Þannig helst stöðug hringrás efna og orku í náttúrunni sem tryggir hringrás auðlindanna.

Stefnan 
Í stefnunni Saman gegn sóun er sérstök áhersla lögð á níu flokka. Matarsóun, plast og textíll verða í forgangi hvert um sig tvö ár í senn og verður matarsóun í brennidepli næstu tvö árin.

Fræðsla er lykilþáttur í því að breyta hugarfari. Ánægjulegt er að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, meðal annars í samstarfi við Ísland, hefur verið gefið út námsefni fyrir miðstig grunnskóla um auðlindanýtni og hvernig forðast má sóun. Námsefnið er sett fram á skemmtilegan hátt, til dæmis kemur fram að þegar upp er staðið hafa farið um 175 lítrar af vatni til að laga kaffi í einn bolla.

Jákvæð viðbrögð 
Það er sannarlega ánægjulegt og hvetjandi að skynja jákvæð viðbrögð og vilja samfélagsins til að draga úr matarsóun. Tillögur starfshóps ráðuneytisins um matarsóun hafa fengið góðan hljómgrunn og má m.a. nefna viðhorfskönnun meðal landsmanna um matarsóun, nýja vefgátt, matarsoun.is, og rannsókn á matarsóun er í undirbúningi. Þá hafa félagasamtök lagt hönd á plóg, m.a. með námskeiðum. Með nýju kerfi strikamerkja sjá framleiðendur og verslanir möguleika á að draga úr matarsóun og auka neytendaöryggi. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með stofnunum og vinnustöðum sem hafa tekið til hendinni og dregið úr matarsóun. Sem dæmi má nefna Landspítalann sem ég veitti umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins fyrir að hafa minnkað matarsóun um 40% síðustu ár. Allt eru þetta mikilvæg skref í þá átt að forðast matarsóun.

Saman gegn sóun til framtíðar 
Ég hef hugleitt hvaða leiðir við Íslendingar ættum að velja. Hvort við ættum að hafa til hliðsjónar lögin í Frakklandi sem banna að matvælum sé hent eða virkja allt samfélagið eins og Danir hafa gert. Það síðarnefnda hugnast mér betur. Stefnan Saman gegn sóun á að vera sameiginlegt leiðarljós okkar allra til að stemma stigu við hverskonar sóun.

Stefnuna má nálgast á: uar.is/frettir/saman-gegn-soun-stefna-um-urgangsforvarnir-2016-2027

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2016.