Categories
Greinar

Sameiginlegt stórátak

Deila grein

15/10/2017

Sameiginlegt stórátak

Eftir kosningar, verði Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn, mun flokkurinn leggja áherslu á að sérstakt byggðaráðuneyti verði sett á laggirnar til fjögurra ára. Ráðuneytið verði einskonar aðgerðarhópur sem vinni að landsbyggðarmálum með öllum öðrum ráðuneytum og tryggi jafnræði í þjónustu ríkisins. Markmiðið er að styrkja landsbyggðina því samfélagið sé sterkast þegar allir búa við sama þjónustustig, óháð búsetu.

Mörg verkefni tengjast byggðum landsins. Forgangsmálin sem tímabundið byggðaráðuneyti þarf að hafa eru heilbrigðisþjónusta, menntamál, samgöngur og atvinna gagngert í þeim tilgangi að styrkja samfélagið Ísland. Við þessar kosningar leggur Framsókn áherslu á að hefja þurfi nú þegar markvissa uppbyggingu grunnþjónustunnar.

Við viljum setja 20 milljarða aukalega í fyrrnefnda málaflokka, þar af 10 milljarða í heilbrigðiskerfið.

Velferðin
Þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu er mismikil eftir landshlutum. Á síðasta þingvetri var samþykkt þingsályktun okkar um heilbrigðisáætlun. Þar kemur fram að greina þurfi þörfina á landsvísu fyrir heilbrigðisþjónustu. Taka þurfi tillit til íbúafjölda, aldurssamsetningar, fjölda ferðamanna, sumarhúsabyggða, fjarlægða, þjónustu sjúkrabíla og fleiri slíkra þátta. Ríkisvaldið þarf síðan að beina kröftum sínum og fjármagni þangað sem þörfin er hvað mest. Heilsugæslan verður hins vegar að vera í forgrunni.

Áherslan þarf að vera á menntamálin til að undirbúa okkur undir umbreytingartíma sem framundan eru. Við þurfum öflugt menntakerfi og fjárfesta í hugverka- og þekkingariðnaði sem gerir okkur kleift að mæta tæknibyltingunni. Hugtök eins og gervigreind, sýndarveruleiki og skýjalausnir eru að ryðja sér til rúms og munu umbylta hluta af þeim störfum sem við þekkjum í dag.

Betri vegir og tíðari flug
Vegakerfið er víða laskað. Gott vegakerfi og tíðar flugsamgöngur eru lykilatriði í að tryggja jafnræði að þjónustu. Nýbygging vega og viðhald hefur setið eftir í langan tíma og því þurfa framkvæmdirnar að vera markvissar á næstu árum. Við viljum setja allt að 10 milljarða á ári til viðbótar til að auðvelda fólki að sækja vinnu og þjónustu innan svæða. Taka þarf tillit til umferðar, slysatíðni og samtímis að horfa til þensluáhrifa. Við eflingu á innanlandsflugi gætum við horft til Skota sem hafa þróað kerfi þar sem íbúum lengst frá þjónustu er gert kleift að nýta sér flugið á viðráðanlegu verði. Fyrstu kostnaðaráætlanir sýna að slík viðbót kosti um 600-700 milljónir.

Atvinnan
Við þurfum að huga að yngstu atvinnugreinunum sem þurfa að geta fest sig í sessi á landsbyggðinni. Lífhagkerfið sem byggir á nýsköpun í auðlindum til lands og sjávar verður þar stökkpallur. Fyrirmyndirnar eru fyrir hendi, samanber Verið á Sauðarkróki og starfsemi tengd háskólunum. Til lengri tíma skiptir hins vegar öllu að alls staðar séu fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir alla.

Sjávarútvegur og landbúnaður eru traustar stoðir byggðanna. Rekstrargrundvöllurinn þarf að vera stöðugur til að stuðla að sjálfbærum og öflugum byggðum. Fjölbreytt atvinnulíf tryggir sjálfbærni byggðanna þar sem ein grein ber ekki alla ábyrgð á farsæld samfélagsins. Því er nauðsynlegt að tryggja rekstrargrundvöll sauðfjárbænda og hjálpa þeim gegnum tímabundna erfiðleika. Framsókn er með skýra sýn á hvað þarf að gera.

Framsókn leggst gegn því að ferðaþjónustan sé færð upp í hæsta þrep virðisaukaskatts. Við erum í alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn og verðum að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar. Á sama tíma verðum við að gefa nýrri og smærri fyrirtækjum, ekki síst á jaðarsvæðum ferðaþjónustunnar, tíma og tækifæri til að koma undir sig fótunum. Margt áhugavert er að gerast víða um land, en fyrirtækin eru smá og mörg hver í uppbyggingarfasa. Mikil tækifæri eru í að byggja ferðaþjónustuna betur upp á svæðum sem liggja lengst frá Leifsstöð.

Fiskeldi hefur vaxið einna mest á svæðum þar sem atvinnulíf er fábrotið. Samfélagið hefur hag af því að báðar greinarnar þrífist í sátt og samlyndi. Við verðum að tryggja möguleika til vaxtar en sá vöxtur má ekki gerast á kostnað villta laxastofnsins eða umhverfisins.

Gott samband
Til að hægt sé að segja að allir landshlutar sitji við sama borð þurfa fjarskipti að vera góð. Við erum á góðri leið með að ljósleiðaravæða allt landið. Verkefninu lýkur á næstu 3-4 árum. Hins vegar er afhendingaröryggi raforku ótryggt en það er forsenda fyrir frekari atvinnuuppbyggingu en um leið eitt mikilvægasta verkefni okkar í loftslagsmálum. Víða er pottur brotinn og mikið í land að almenningur og fyrirtæki geti gengið að því vísu að fá nægt rafmagn. Spýta þarf í lófana. Án þess er tómt mál að tala um rafbílavæðingu landsins alls eða að nægilegt rafmagn sé til í höfnum landsins svo hægt sé að losna við díselvélakeyrslu fiski-, kaup- og skemmtiferðaskipa.

Að taka á öllum þessum málum og fleirum er að mati okkar Framsóknar eitt mikilvægasta verkefnið í að gera landið okkar að heilbrigðu og öflugu samfélagi þar sem allir sitji við sama borð. Byggðamálin verða því að fá aukna athygli. Tímabundið byggðarráðuneyti gæti því verið nauðsynlegt til að kraftar allra nýtist sem best og allir hafi sömu tækifæri.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. október 2017.