Fjölmennur íbúafundur í Vestmannaeyjum í gærkvöldi var enn og aftur til marks um það að samgöngur til og frá Eyjum eru mál málanna. Samgöngur milli lands og Eyja eru langhlaup sem halda þarf áfram. Finna verður varanlega lausn sem allir geta sætt sig við.
Í mínum huga var mikilvægt að hitta og hlusta á íbúana sem eiga allt sitt undir að leiðin á milli lands og Eyja sé sem skilvirkust. Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða þess að samfélagið geti þrifist á eðlilegan hátt í atvinnumálum, menningarmálum, í öryggi og þróun byggðarlagsins. Samgöngur hafa gríðarlega mikil áhrif á íbúaþróun í Eyjum og hvort unga fólkið vill koma heim eftir nám og setjast þar að.
Á fundinum komu sjónarmið heimamanna skýrt fram, bæði hvað varðar nafnið á nýrri ferju og kröfur um að bæta þurfi þjónustu við íbúaana í samgöngum á sjó. Ýmsa þætti þarf að skoða með opnum huga til að koma til móts við þarfir íbúanna, fyrirtækja og ferðamanna.
Kostnaður getur verið hár, sérstaklega fyrir fjölskyldur, ef sigla þarf til og frá Þorlákshöfn. Þess vegna hef ég hug á því að tryggja sama fargjald, óháð því í hvora höfnina er siglt.
Markmiðið er að leiðin á milli lands og Eyja sé skilvirk og greið með þarfir íbúanna að leiðarljósi. Í því augnamiði erum við að skoða fjóra kosti á rekstrarformi.
Valkostirnir eru:
- Vegagerðin reki ferjuna í upphafi til reynslu þar sem ýmsir óvissuþættir eru í rekstri.
- Útboð til tveggja ára.
- Útboð til fimm ára.
- Samstarf við Vestmannaeyjabæ.
Leið eitt, að Vegagerðin reki ferjuna um skamma hríð færir okkur vitneskju um hvernig nýtt skip reynist og gefur færi á að þróa ýmsa þætti í samræmi við þarfir íbúanna.
Leið tvö er einnig vænleg en leið þrjú er síst. Almenna reglan hjá ríkinu er að bjóða út almenningssamgöngur og því skiptir máli á hvaða forsendum slíkir samningar eru byggðir. Ein mikil forsenda er til að mynda sama fargjald, óháð því hvaðan siglt er.
Að mínu mati gæti leið fjögur komið til greina þegar við erum búin að afla þekkingar á skipinu og Landeyjahöfn er komin í betra ástand en nú er.
Því er brýnt að Landeyjahöfn og nýja ferjan finni taktinn saman. Halda þarf áfram að hanna höfnina og þróa. Skynsamlegt gæti reynst að fá nýjan óháðan aðila til að taka út höfnina, eftir að reynsla er komin á nýja ferju.
Að lokum langar mig að þakka Vestmannaeyingum fyrir góða þátttöku og málefnalegan fund, sem og bæjaryfirvöldum fyrir gott samstarf.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Greinin birtist í Eyjafréttum, þann 22. febrúar 2018