Categories
Greinar

Samþykkt á fiskeldisfrumvarpi

Deila grein

20/06/2019

Samþykkt á fiskeldisfrumvarpi

Nú hefur verið samþykkt á Alþingi frumvarp um fiskeldi. Frumvarpið byggir á vinnu stefnumótunarhóps sjávarútvegsráðherra sem skilaði af sér skýrslu haustið 2017 en hann var skipaður fulltrúum Landssambands Fiskeldisstöðva, Landssambands veiðifélaga og fulltrúum stjórnvalda. Sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp á vorþingi 2018 byggt á þessari vinnu en ákveðið var að ígrunda málið betur og slá því á frest.

Atvinnuveganefnd fékk frumvarpið aftur til sín í mars 2019 og kallaði strax eftir umsögnum. Allir gátu sent inn athugasemdir og auk þess komu ótal gestir fyrir nefndina. Ennfremur fór nefndin til Noregs í vetur til að kynna sér regluverk og umhverfi greinarinnar þar.

Atvinnuveganefnd hefur því lagt sig alla fram um að setja sig inn í málið, hlusta á ólík sjónarmið og ná farsælli niðurstöðu. Í svo stóru og umfangsmiklu máli þar sem miklir hagsmunir liggja verður að ná málamiðlun að lokum og það hefur tekist með samþykkt frumvarpsins.

Mótvægisaðgerðir festar í sessi

Með frumvarpinu er verið að festa í sessi áhættumat erfðablöndunar. Meðal þeirra breytinga sem atvinnuveganefnd lagði til var að lögfesta mótvægisaðgerðir sem stofnanir sem vinna að leyfisveitingum verða að taka tillit til. Sem dæmi um mótvægisaðgerðir má nefna notkun stærri seiða, minni möskva, notkun ljósastýringar, vöktun í ám og heimild Fiskistofu til að fjarlægja eldislax úr nærliggjandi ám ef heimild landeiganda liggur fyrir.

Með þessu er verið að tryggja að hægt verði að vernda til dæmis villta stofna í Ísafjarðardjúpi og þannig hefja uppbyggingu á eldi við Djúp í framhaldinu. Er þetta mjög stórt skref í átt að uppbyggingu sjálfbærs fiskeldis við Íslandsstrendur.

Leyfisveitingarkerfi og uppboð

Ég hef almennt ekki verið hrifin af uppboðum við deilingu auðlinda. Ég tel eðlilegra og heillavænlegra að auðlindagjald sé tekið af greinum sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Stefnumótunarhópurinn frá 2017, þar sem í sátu fulltrúar Landssambands Fiskeldisstöðva, komu sér hins vegar saman um nýtt leyfisveitingarkerfi með uppboði sem unnið hefur verið út frá síðan og verður að virða það.

Mikið hefur verið rætt um skil á milli gamla leyfisveitingarkerfisins og hins nýja. Óljóst var eftir tvær umræður hvar nákvæmlega skilin lægju. Með breytingartillögum hefur það verið skýrt en miðað var við að framkvæmdir sem væru komnar langt á veg í umsóknarferlinu yrðu áfram í gamla kerfinu. Með þessari breytingu eru 118.000 tonn af eldisáformum inn í gamla kerfinu sem slagar hátt í útgefið burðarþol við strendur Íslands. Það er því ljóst að næg vinna er framundan við að koma þessum áformum í framkvæmd og mun því fylgja mikil uppbygging um land allt.

Heilbrigðis og sjúkdómamál í forgrunni

Til þess að hægt sé að reka og stunda fiskeldi til framtíðar á sjálfbærum grunni þurfa kröfur er varða sjúkdóma og heilbrigðismál að vera skýrar og byggja á bestu mögulegri þekkingu. Atvinnuveganefnd tók stór skref til viðbótar við fyrri tillögur til að tryggja þessi mikilvægu atriði betur í sessi, enda er það forsenda þess að greinin geti dafnað að fiskinum líði vel og sé heilbrigður.

Mikilvægast er að lending náðist í málinu. Nú liggur fyrir rammi sem hægt er að vinna eftir sem tryggir sjálfbæra uppbyggingu fiskeldis til hagsbóta fyrir samfélögin og í sátt við náttúruna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 20. júní 2019.