Categories
Greinar

Samþykktu fyrir 23. mars

Deila grein

18/03/2015

Samþykktu fyrir 23. mars

Elsa-Lara-mynd01-vefur69 þúsund umsóknir bárust frá 105 þúsund einstaklingum um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. Frestur til að samþykkja leiðréttinguna rennur út þann 23. mars nk. Þessi frestur á við um þær umsóknir þar sem niðurstöður voru birtar þann 23. desember sl. Enn á eftir að vinna úr 3.900 umsóknum og unnið er hörðum höndum við að klára vinnslu þeirra. Ýmsar ástæður liggja þar að baki. Í nokkrum tilvikum vantar frekari gögn sem kallað hefur verið eftir frá umsækjendum og í öðrum tilvikum er m.a. um að ræða dánarbú og breytingar á fjölskylduhögum.

68 milljörðum þegar ráðstafað
80 milljörðum var ráðstafað í beina niðurfellingu skuldaleiðréttingarinnar. Nú þegar hefur 68 milljörðum verið ráðstafað inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna og búið er að ganga frá afgreiðslu þeirra mála inni í bankakerfinu. Í þeim tilvikum hafa áhrif leiðréttingarinnar komið fram, bæði hvað varðar höfuðstól lánanna og í afborgunum. Gaman hefur verið að fá fréttir frá fólki sem er ánægt með leiðréttinguna. Segja hana hafa góð áhrif á heimilisbókhaldið. Segjast geta farið 2-3 sinnum í matvöruverslunina fyrir þá upphæð sem lánið minnkar um. Alla munar um það. Auðvitað er það mismunandi hvað lánin lækka um, fer allt eftir skuldahlutfalli hvers og eins. Þak aðgerðarinnar var fjórar milljónir.

Þeir sem eiga eftir að samþykkja leiðréttinguna, eiga að hafa fengið póst eða eiga von á pósti frá ríkisskattstjóra, sem á að minna á samþykkisfrestinn. Samkvæmt fréttum frá ríkisskattstjóra hafa margir tekið vel við sér þegar þeir hafa fengið áminningarpósta þessa efnis.

Heimilin áfram í fyrsta sæti
Nú hafa rúmlega 32 þúsund umsóknir borist um ráðstöfun séreignasparnaðar. Hægt er að velja um tvær leiðir. Það er að borga séreignasparnað inn á húsnæðislán eða borga inn á sérstakan húsnæðissparnað. Enn er hægt að sækja um þessa aðgerð og gildir hún til ársins 2017.

Auk þessa styttist verulega í frumvörp er koma á móts við þá sem eru á leigumarkaði. Þar er m.a. tekið á uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga, unnið að lækkun leiguverðs, auknu framboði íbúða og meiri stuðningi við þá sem búa í leiguhúsnæði, í gegnum húsnæðisbætur.

Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eru frumvörp er varða afnám verðtryggingar af neytendalánum, væntanleg í þingið í lok mars. Þau miða að því að fyrstu skref í afnámi verðtryggingarinnar af neytendalánum, fari fram í byrjun ársins 2016.
Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi sett heimilin í fyrsta sæti og haldi þeirri forgangsröðun áfram.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.