Málefni norðurslóða eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu og má þá áherslu greina glöggt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hagsmunir Íslands eru miklir en augu alþjóðasamfélagsins beinast í auknum mæli að norðurslóðum og sumir ræða um að ákveðið kapphlaup sé hafið um yfirráð á þessu víðfeðma svæði. Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu á þessu ári en ráðið er þungamiðja í okkar alþjóðasamstarfi á norðurslóðum. Megináherslur ráðsins á umhverfismál og sjálfbæra þróun gera það að verkum að vísindi og rannsóknir skipa stóran sess í störfum ráðsins. Í ljósi þróunar síðustu missera verður æ brýnna að stefnumótun stjórnvalda á norðurslóðum byggist á vísindalegum grunni og virkri samvinnu.
Árangursrík samvinna
Ísland og Japan hafa um áratuga skeið átt frjótt vísindasamstarf á norðurslóðum og það samband hyggjumst við treysta til framtíðar. Ísland og Japan standa sameiginlega að alþjóðlegum ráðherrafundi um vísindi á norðurslóðum í Tókýó í nóvember 2020. Fundurinn verður sá þriðji í fundaröð sem hófst árið 2016 í Washington, D.C. Ráðherrar vísindamála, hvaðanæva úr heiminum, munu koma saman til að ræða aðgerðir og stefnumótun í málefnum norðurslóða. Það er þörf á auknu alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og ráðherrafundirnir eru þýðingarmikill vettvangur fyrir umræðu um sameiginlegar áskoranir okkar. Við þurfum að þekkja stefnu, áherslur og innviði samstarfsríkja til þess að þróa árangursríka samvinnu á sviði vísinda og rannsókna, ekki síst í samhengi við hlýnun á norðurslóðum og að mínu mati hvílir á okkur ákveðin skylda til þess að vinna saman.
Mikilvægi menntunar og vísinda
Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum norðurslóðarannsókna, má þar sem dæmi nefna jöklarannsóknir, rannsóknir á samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, breytingum á vistkerfi sjávar og kortlagningu hafsbotnsins. Þá gegnir menntakerfið lykilhlutverki í að miðla þekkingu til komandi kynslóða og kveikja áhuga ungs fólks á málefnum norðurslóða, til að mynda með aukinni áherslu á raungreinakennslu og með því að efla vísindaáhuga barna og unglinga á fjölbreyttum sviðum.
Gagnsæi og virk þátttaka
Við erum þakklát fyrir það góða samband sem er milli Íslands og Japan. Sem eyjaþjóðir deilum við meðal annars áhyggjum af heilbrigði og lífsþrótti sjávar. Sameiginlega fleti má einnig finna í áherslum ríkjanna á umhverfisvernd og sjálfbærni. Leiðarljós í samvinnu landanna í tengslum við ráðherrafundinn og í áframhaldandi samstarfi okkar er gagnsæi, hagnýting vísinda og miðlun. Lögð verður rík áhersla á virkja sem flesta í aðdraganda fundarins og hefst það ferli formlega í dag, í tengslum við Hringborð norðurslóða. Við finnum þegar fyrir miklum áhuga á ráðherrafundinum og trúum því að hann verði mikilvægur vettvangur fyrir leiðtoga, bæði á hinu pólitíska sviði og innan vísindaheimsins, til þess að ræða aðgerðir og forgangsröðun.
Samvinna við alla aðila, jafnt innan sem utan norðurslóða, mun skipta miklu fyrir hagsæld og öryggi á svæðinu. Með auknum siglingum og starfsemi gæti áhersla á sjálfbæra þróun orðið mikilvægur liður í að draga úr spennu á svæðinu, t.d. vegna aukinna hernaðarumsvifa. Í ljósi þess hve viðkvæmt og margbrotið svæði norðurslóðir eru, hvort sem litið er til umhverfis, öryggismála, efnahagslegra eða félagslegra þátta, er brýnt að stefnumótun fyrir svæðið í heild sinni einkennist áfram af stöðugleika, sjálfbærni og samvinnu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.