Categories
Greinar

Samvinna – lykill að árangri

Deila grein

16/01/2025

Samvinna – lykill að árangri

Sam­vinnu­hug­sjón­in á ræt­ur að rekja til Bret­lands árið 1844 og barst til Íslands á 19. öld. Grunn­hug­mynd­in er ein­föld: með sam­eig­in­legu átaki ná menn lengra en í ein­angruðum verk­efn­um.

Þetta viðhorf hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú í krefj­andi alþjóðlegu sam­hengi. Sam­vinna er ómiss­andi þátt­ur í stjórn­un lands, og Fram­sókn hef­ur beitt henni til að ná ár­angri fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag í yfir heila öld.

Leið að sjálf­bær­um hag­vexti

Einn áhrifa­mesti hag­fræðing­ur sög­unn­ar, Al­fred Mars­hall (1842-1924), sem er tal­inn einn af feðrum nú­tíma­hag­fræði, lagði mikla áherslu á sam­vinnu og gerði rann­sókn­ir á efna­hags­leg­um ávinn­ingi sam­vinnu­fé­laga.

Niðurstaða hans var að sam­vinnu­fé­lög gætu aukið fram­leiðni og bætt lífs­kjör með því að sam­eina hags­muni vinnu­afls og stjórn­enda. Hann benti einnig á að sam­vinna og sér­hæf­ing inn­an ákveðinna land­fræðilegra svæða gætu aukið fram­leiðni.

Áhuga­vert er einnig að skoða hag­fræðikenn­ing­ar nó­bels­verðlauna­haf­ans Ed­munds Phelps en hann hef­ur bent á mik­il­vægi sam­vinnu fyr­ir sjálf­bær­an hag­vöxt. Kenn­ing­ar hans leggja áherslu á tengsl ný­sköp­un­ar, menn­ing­ar og efna­hags­legs vaxt­ar.

Hag­vöxt­ur bygg­ist ekki ein­göngu á fjár­fest­ingu og vinnu­afli held­ur einnig á hug­viti, sköp­un­ar­gáfu og þátt­töku ein­stak­linga. Sam­vinna auðveld­ar miðlun hug­mynda og þróun lausna, sem er und­ir­staða ný­sköp­un­ar. Í markaðshag­kerfi verður sam­vinna milli ein­stak­linga og fyr­ir­tækja að afli sem stuðlar að fram­leiðniaukn­ingu og tækniþróun.

Sam­kvæmt hagrann­sókn­um eyk­ur fé­lags­legt traust skil­virkni í fram­leiðslu­ferl­um og skap­ar sam­eig­in­leg mark­mið og verðmæti sem gagn­ast sam­fé­lag­inu. Sér­stak­lega á tím­um tækniþró­un­ar er sam­vinna milli rík­is, fyr­ir­tækja og rann­sókna lyk­ill að stöðugum hag­vexti.

Án henn­ar hætt­ir hag­kerf­um til að staðna, en með henni verður til um­hverfi sem hvet­ur til ný­sköp­un­ar og hag­sæld­ar fyr­ir alla.

Hug­sjón sem höfð verður í brenni­depli

Sam­vinnu­hug­sjón­in er því grund­vall­ar­atriði, bæði í stjórn­mál­um og efna­hags­lífi, þar sem hún legg­ur grunn að nýj­um lausn­um og sjálf­bærri þróun. Sam­vinna er hug­mynda­fræði sem á er­indi við sam­tím­ann og mun Fram­sókn leggja áherslu á að sú hug­sjón haldi áfram að skapa fé­lags­leg­an og efna­hags­leg­an auð á Íslandi.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2025.