Samvinnuhugsjónin á rætur að rekja til Bretlands árið 1844 og barst til Íslands á 19. öld. Grunnhugmyndin er einföld: með sameiginlegu átaki ná menn lengra en í einangruðum verkefnum.
Þetta viðhorf hefur aldrei verið mikilvægara en nú í krefjandi alþjóðlegu samhengi. Samvinna er ómissandi þáttur í stjórnun lands, og Framsókn hefur beitt henni til að ná árangri fyrir íslenskt samfélag í yfir heila öld.
Leið að sjálfbærum hagvexti
Einn áhrifamesti hagfræðingur sögunnar, Alfred Marshall (1842-1924), sem er talinn einn af feðrum nútímahagfræði, lagði mikla áherslu á samvinnu og gerði rannsóknir á efnahagslegum ávinningi samvinnufélaga.
Niðurstaða hans var að samvinnufélög gætu aukið framleiðni og bætt lífskjör með því að sameina hagsmuni vinnuafls og stjórnenda. Hann benti einnig á að samvinna og sérhæfing innan ákveðinna landfræðilegra svæða gætu aukið framleiðni.
Áhugavert er einnig að skoða hagfræðikenningar nóbelsverðlaunahafans Edmunds Phelps en hann hefur bent á mikilvægi samvinnu fyrir sjálfbæran hagvöxt. Kenningar hans leggja áherslu á tengsl nýsköpunar, menningar og efnahagslegs vaxtar.
Hagvöxtur byggist ekki eingöngu á fjárfestingu og vinnuafli heldur einnig á hugviti, sköpunargáfu og þátttöku einstaklinga. Samvinna auðveldar miðlun hugmynda og þróun lausna, sem er undirstaða nýsköpunar. Í markaðshagkerfi verður samvinna milli einstaklinga og fyrirtækja að afli sem stuðlar að framleiðniaukningu og tækniþróun.
Samkvæmt hagrannsóknum eykur félagslegt traust skilvirkni í framleiðsluferlum og skapar sameiginleg markmið og verðmæti sem gagnast samfélaginu. Sérstaklega á tímum tækniþróunar er samvinna milli ríkis, fyrirtækja og rannsókna lykill að stöðugum hagvexti.
Án hennar hættir hagkerfum til að staðna, en með henni verður til umhverfi sem hvetur til nýsköpunar og hagsældar fyrir alla.
Hugsjón sem höfð verður í brennidepli
Samvinnuhugsjónin er því grundvallaratriði, bæði í stjórnmálum og efnahagslífi, þar sem hún leggur grunn að nýjum lausnum og sjálfbærri þróun. Samvinna er hugmyndafræði sem á erindi við samtímann og mun Framsókn leggja áherslu á að sú hugsjón haldi áfram að skapa félagslegan og efnahagslegan auð á Íslandi.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2025.