Categories
Greinar

Samvinnan er lykill að framförum

Deila grein

31/12/2019

Samvinnan er lykill að framförum

Traust­ir skulu horn­stein­arhárra sala;
í kili skal kjörviður;
bóndi er bú­stólpi,
bú er land­stólpi,
því skal hann virður vel.

Þannig hljóm­ar annað er­indi kvæðis Jónas­ar Hall­gríms­son­ar, Alþing hið nýja, frá ár­inu 1840. Jón­as var gjarn­an kallaður lista­skáldið góða og á mik­il­væg­an sess í menn­ingu okk­ar Íslend­inga. Dag­ur tung­unn­ar okk­ar er enda á af­mæl­is­degi skálds­ins. Jón­as á nú eins og fyrr mikið er­indi til okk­ar núlif­andi Íslend­inga enda var hann nátt­úru­fræðing­ur og nátt­úru­unn­andi. Sveitastrák­ur­inn úr Öxnadaln­um fylgdi hon­um alla tíð, alla leið til Kaup­manna­hafn­ar. Það er líka ein­kenn­andi fyr­ir Íslend­inga að vera um­hugað um landið sitt og upp­runa hvar sem þeir ala mann­inn. Jón­as á líka sér­stak­an sess í hjarta fram­sókn­ar­manna því orðið fram­sókn er nýyrði skálds­ins sem kom fyrst fram í þýðingu Jónas­ar á kennslu­bók í stjörnu­fræði. Nokkr­um ára­tug­um síðar var orðið tekið upp við stofn­un nýs flokks, Fram­sókn­ar­flokks­ins, sem er elsti starf­andi stjórn­mála­flokk­ur lands­ins. Saga flokks­ins er samof­in sögu þjóðar­inn­ar og hef­ur Fram­sókn komið að mörg­um helstu fram­fara- og um­bóta­mál­um þjóðar­inn­ar á þeirri rúmu öld sem liðin er frá stofn­un flokks­ins.

Nú er liðinn rúm­ur ára­tug­ur frá því að banka­kerfi Íslands hrundi. Marg­ir eru enn brennd­ir af því enda fólst í þessu hruni ekki síður áfell­is­dóm­ur yfir fram­ferði ís­lenskra viðskipta­jöfra og að mörgu leyti mátt­leysi kerf­is­ins til að vernda hags­muni al­menn­ings gagn­vart hátt­semi þeirra. Þessi ára­tug­ur hef­ur ein­kennst af sárs­auka­fullu upp­gjöri við þenn­an tíma og öllu því van­trausti og tor­tryggni sem hrun­inu fylgdi. Það tek­ur lang­an tíma að græða þau sár og lægja öld­ur tor­tryggn­inn­ar. Sú rík­is­stjórn sem nú er við völd var mynduð til að ná sátt í sam­fé­lag­inu, skapa jafn­vægi og vinna að mik­il­væg­um upp­bygg­ing­ar­mál­um á innviðum sam­fé­lags­ins. Og nú þegar kjör­tíma­bilið er ríf­lega hálfnað hef­ur okk­ur miðað ágæt­lega.

Fyr­ir sléttu ári höfðu marg­ir mikl­ar áhyggj­ur af þeirri hörðu kjara­bar­áttu sem við stóðum frammi fyr­ir. Und­ir­rit­un Lífs­kjara­samn­ings­ins var því stórt skref í að skapa jafn­vægi í sam­fé­lag­inu. Niðurstaða samn­ings­ins var mikið fram­fara­skref og öll­um sem þar komu að til mik­ils sóma. Samn­ingsaðilar sýndu að þeir gerðu sér grein fyr­ir þeirri miklu ábyrgð sem hvíldi á þeirra herðum. Niðurstaða samn­ing­anna var hóf­söm og hlúði fyrst og fremst að kjör­um þeirra lægst launuðu og þá ekki síst með út­spili rík­is­stjórn­ar­inn­ar í hús­næðismál­um. Því öll vilj­um við að fólk njóti al­menni­legra lífs­kjara á land­inu okk­ar. Það verður einnig að taka inn í reikn­ing­inn að á Íslandi er fé­lags­leg­ur hreyf­an­leiki mik­ill, jafn­vel einn sá mesti í heim­in­um. Þar skipt­ir góður stuðning­ur við náms­menn miklu máli og eitt mik­il­væg­asta mál þings­ins næstu mánuðina er frum­varp mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra um nýj­an mennta­sjóð náms­manna þar sem mik­il­vægi mennt­un­ar fyr­ir þjóðfé­lagið allt er und­ir­strikað. Ég vil einnig sér­stak­lega nefna að skömmu fyr­ir jól var samþykkt frum­varp fé­lags- og barna­málaráðherra um leng­ingu fæðing­ar­or­lofs úr níu mánuðum í tólf.

Stjórn­mál eru mik­il­væg­ur þátt­ur í sam­fé­lags­gerð okk­ar. Það er í stjórn­mál­un­um sem leik­regl­ur sam­fé­lags­ins eru sett­ar. Það er í stjórn­mál­un­um sem tónn­inn er sleg­inn og drög lögð að betra sam­fé­lagi. Það er því mik­il­vægt að fólk taki þátt í stjórn­mál­um og starfi stjórn­mála­flokk­anna. Þar er grund­völl­ur­inn lagður að stefnu og sér­stök­um áherslu­mál­um sem eru mis­mun­andi eft­ir flokk­um. Stjórn­mál­in eru lit­rík eins og lífið sjálft þótt marg­ir leit­ist við að gera þau svart­hvít. Eitt er að hafa hug­sjón­ir og stefnu, annað hvernig unnið er að fram­gangi þeirra. Stjórn­mál Fram­sókn­ar eru stjórn­mál um­bóta og sátta, ekki bylt­inga. Fyr­ir mér eiga stjórn­mál að gefa fólki von, þau eiga að sam­eina fólk frek­ar en sundra. Það er líka aug­ljóst í mín­um huga að sundr­ung­in er af hinu illa og drep­ur niður þær fram­far­ir sem sam­taka­mátt­ur­inn kall­ar fram.

Stærsta verk­efni sam­tím­ans snýr að lofts­lags­mál­un­um. Skipt­ir þá engu hvort fólk tal­ar um ham­fara­hlýn­un, hlýn­un jarðar, súrn­un sjáv­ar eða neyðarástand í lofts­lags­mál­um: verk­efni okk­ar allra, ekki síst stjórn­mál­anna, er að taka með ábyrg­um hætti á lofts­lags­vand­an­um. Þá er verk­efni stjórn­mála­manna ekki hvort taka skuli á vand­an­um held­ur hvernig það er gert. Þar er að mörgu að hyggja, ekki síst þarf að huga að því að það bitni ekki á þeim sem minna mega sín. Hags­mun­ir þjóðfé­lags­ins fel­ast í því að gæta að hags­mun­um kom­andi kyn­slóða.

Við sigr­umst ekki á þess­ari ógn með því að láta hnúta­svip­una dynja á bak­inu eða með skatt­lagn­ingu eina að vopni. Við þurf­um að nýta al­menna viðhorfs­breyt­ingu til að leysa verk­efnið með hjálp vís­inda og tækni. Það er verk­efni ein­stak­linga og at­vinnu­lífs en stjórn­mál­in þurfa að varða leiðina að mark­miðinu. Það er ljóst að mark­miðinu verður ekki náð nema með sam­vinnu og sátt.

Ungt fólk, í sum­um til­fell­um á barns­aldri, hef­ur leitt umræðuna um lofts­lags­mál­in. Það er mik­il­vægt að þetta unga fólk komi með sína sterku rödd inn í stjórn­mála­flokk­ana og láti til sín taka á þeim vett­vangi. Íslensk stjórn­völd hafa lagt sig eft­ir því að hlusta á áhyggjuradd­ir unga fólks­ins og því er jarðveg­ur­inn inn­an flestra ís­lenskra stjórn­mála­flokka góður fyr­ir þetta öfl­uga hug­sjóna­fólk.

Lofts­lags­vá­in er ekki eini vand­inn sem við stönd­um frammi fyr­ir. Rík­is­stjórn­in steig mik­il­vægt skref síðastliðið vor þegar því var lýst yfir að Ísland ætlaði fyrst þjóða að banna sölu og dreif­ingu mat­væla sem inni­halda til­greind­ar sýkla­lyfja­ónæm­ar bakt­erí­ur. Vís­inda­menn hafa bent á að ef ekki verði brugðist við muni fleiri deyja af völd­um sýkla­lyfja­ónæm­is árið 2050 en deyja af völd­um krabba­meins.

Aðra aðsteðjandi hættu benti Þorgrím­ur Þrá­ins­son, lýðheilsu­frömuður og rit­höf­und­ur, á í pistli fyrr í vet­ur og það er að sam­kvæmt töl­um Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar fái fjög­ur af hverj­um fimm börn­um ekki næga dag­lega hreyf­ingu. Það er því ekki síður mik­il­vægt að við, hin full­orðnu, hvetj­um börn­in okk­ar til að hreyfa sig til að byggja sterk­ari grunn fyr­ir heilsu full­orðins­ár­anna.

Fyr­ir skemmstu urðum við mörg fyr­ir áfalli þegar fár­viðri gekk yfir norðan­vert landið með skelfi­leg­um af­leiðing­um. Ofviðrið leiddi í ljós brota­lam­ir í kerf­um okk­ar og þá sér­stak­lega hvað viðkem­ur raf­orku­ör­yggi. Það er verk­efni næstu vikna að rann­saka hvað fór úr­skeiðis og koma með til­lög­ur að úr­bót­um. Fram­sókn hef­ur alla tíð lagt mikla áherslu á að tæki­færi séu jöfn hvar sem fólk kýs að búa á okk­ar stóra landi. Þar er grund­vall­ar­atriði að sam­göngu-, fjar­skipta- og raf­orku­kerfi séu öfl­ug um allt land. Við höf­um náð undra­verðum og ein­stök­um ár­angri á heimsvísu þegar kem­ur að út­breiðslu há­hraðanets og stór­sókn í sam­göngu­mál­um er haf­in. Greini­legt er að við þurf­um að horfa til efl­ing­ar raf­orku­kerf­is­ins á sama hátt og sam­hliða vinna að jöfn­um raf­orku­kostnaðar – sami dreifi­kostnaður um allt land enda auðlind­in í eigu þjóðar­inn­ar allr­ar.

Fram­sókn hef­ur sýnt það í störf­um sín­um í rík­is­stjórn­inni að flokk­ur­inn hugs­ar um hag al­menn­ings og hef­ur hug­rekki og kraft til að leysa erfið verk­efni. Íbúar höfuðborg­ar­svæðis­ins munu finna fyr­ir því þegar ráðist verður í fram­kvæmd sam­göngusátt­mál­ans en með gerð hans var ára­tuga frost í sam­skipt­um rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna úr sög­unni. Því eins og saga Íslands á lýðveld­is­tím­an­um kenn­ir okk­ur þá er sam­vinn­an lyk­ill­inn að því að bæta sam­fé­lagið.

Ég óska lands­mönn­um öll­um gleðilegs árs. Ég hlakka til að vinna áfram að um­bóta­mál­um með sterkri og fram­sýnni rík­is­stjórn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2019.