Categories
Greinar

Skilvirk þróunarsamvinna

Deila grein

28/03/2015

Skilvirk þróunarsamvinna

Karl_SRGBMikilvægt er að fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands sé eins vel skipulagt og skilvirkt og kostur er. Þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til ábyrgrar stjórnar og stefnu á þessu sviði fara ört vaxandi en árlega fara rúmlega fjórir milljarðar í alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Kröfurnar urðu ekki minni eftir að Ísland gerðist aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD. Sú nefnd lagði til að Ísland myndi skoða fyrirkomulag og skipulag þróunarsamvinnu með tilliti til þess hvernig hámarksskilvirkni væri náð. Utanríkisráðuneytið tók þessar ábendingar alvarlega og til sérstakrar skoðunar.

Ólíkar leiðir teknar til skoðunar
Utanaðkomandi sérfræðingur var fenginn til að framkvæma úttekt á þróunarsamvinnu Íslands og er sú úttekt mjög ítarleg. Hún byggir á samtölum við rúmlega 200 einstaklinga sem koma bæði að alþjóðlegri þróunarsamvinnu hér á landi og erlendis. Úttektin byggir einnig á reynslu þeirra landa sem Ísland vill oftast bera sig saman við.

Við vinnuna voru skoðaðar þrjár ólíkar leiðir. Tvær af þeim sneru að sameiningu, hvort sem var innan ráðuneytis eða Þróunarsamvinnustofnunar, og sú þriðja að því að halda núverandi fyrirkomulagi með fremur litlum breytingum. Niðurstaða úttektarinnar var að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað. Eingöngu þannig sé hægt að hámarka líkur á mestum árangri með mestri skilvirkni.

Mörg samanburðarlandanna í skýrslunni hafa þegar gengið í gegnum breytingar á fyrirkomulagi sem eru sambærilegar þeim breytingum á fyrirkomulagi sem nú eru fyrirhugaðar hér á landi. Þær breytingar fela í sér að verkefni sérstakrar Þróunarsamvinnustofnunar eru færð inn til ráðuneytis sem fari eftirleiðis með alla þróunarsamvinnu. Slíkt fyrirkomulag er heppilegt þar sem sterk tengsl eru á milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Nýjustu dæmin um slíkar sameiningar málaflokka eru frá Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Þá má geta þess að öll Norðurlöndin, að Svíþjóð undanskilinni, hafa flutt starfsemi sem þessa inn í ráðuneytin.

Þekking mun ekki glatast
Það er einnig mikilvægt að halda því vel til haga að þær breytingar sem um ræðir í frumvarpinu snúa einungis að stjórnskipulagi þróunarsamvinnu, en ekki að stefnumótun eða því hvernig við störfum á vettvangi. Áherslan mun haldast á tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndunum þremur og á vettvangi fjölþjóðlegra stofnana. Þá mun starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar verða tryggð sambærileg störf í ráðuneytinu og vera valkvætt hvort það starf sé flutningsskylt. Með því er tryggt að sú sérfræðiþekking sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur byggt upp muni ekki glatast. Tilgangurinn með þessum breytingum er að gera gott starf enn betra. Það er markmiðið sem við þurfum ávallt að hafa að leiðarljósi í vinnu sem þessari.

Karl Garðarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]