Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er ítarlegur og vel gerður. Hann vísar leiðina fram veginn og einkennist af bjartsýni varðandi þau tækifæri sem til staðar eru og bjartsýni um að við getum áfram bætt samfélagið og lagfært það sem þarf að laga. Það er einlæg skoðun mín að eitthvert besta skref til aukinnar skilvirkni í kerfinu hafi verið tekið með ákvörðun um sérstakt innviðaráðuneyti. Það er algjörlega ljóst að samþætta þarf skipulagsmál sveitarfélaga til að fá betri yfirsýn yfir uppbyggingu húsnæðis í nútíð og framtíð og annarra þátta; svo sem vegaframkvæmda. Mikilvægt er að gera nauðsynlegar breytingar á starfsemi Skipulagsstofnunar til að auka skilvirkni í framkvæmdum öllum, en í mínum huga hefur sú stofnun staðið brýnni uppbygginu verulega fyrir þrifum á undanförnum árum og mætti líklega með réttu nefna Tafarstofnun ríkisins. Ánægjulegt er að sjá áherslu á styrkingu iðn- og verknáms um land allt koma fram með skýrum hætti í stjórnarsáttmálanum og að Tækniskólinn skuli byggður í Hafnarfirði í samræmi við þá viljayfirlýsingu sem undirrituð var nú í sumar.
Kvikmyndir og græn atvinnuuppbygging
Það var ánægjulegt að sjá fréttir af því að nýlega hefði ráðherrum borist bréf frá streymisveitunni HBO þar sem lýst var yfir áhuga á því að taka upp að fullu upp stór verkefni hér á landi ef kosningarloforð Framsóknar um hækkun endurgreiðsluhlutfalls á sjónvarps- og kvikmyndaverkefni myndu ná fram á ganga. Enn ánægjulegra var að sjá það koma skýrt fram í stjórnarsáttmálanum að alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi sjónvarps- og kvikmyndaefnis yrði eflt enn frekar.
Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að hraða orkuskiptum og setur það fram með skýrum hætti. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Eigi þessi metnaðarfullu og góðu markmið að nást, er nauðsynlegt að skapa sátt um nýjar virkjanir sem byggja munu upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Lokið verður við þriðja áfanga rammaáætlunar og kostum í biðflokki verður fjölgað til að bregðast við þeim áskorunum sem fram undan eru. Sérstök lög verða sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Þetta eru góð skref og mikilvæg.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. desember 2021.