Categories
Greinar

Skuldaleiðréttingin – stefnumótandi aðgerð

Deila grein

09/12/2013

Skuldaleiðréttingin – stefnumótandi aðgerð

Willum Þór ÞórssonNú hafa niðurstöður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu verið kynntar.   Í skýrslu hópsins kemur fram stefna ríkisstjórnarinnar, nánari útfærsla á aðgerðum til leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána.  Aðgerðin er tvíþætt; annars vegar er um að ræða beina leiðréttingu og hins vegar um að ræða lækkun á höfuðstól með skattleysi séreignalífeyrissparnaðar.    Hér er tekið mikilvægt skref í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og stórt skref í uppgjöri við hrunið.  Ég vil tala um stefnumótandi aðgerð þar sem við erum komin að framkvæmdaþætti þessa mikla og vandasama verkefnis.   Allt frá hruni fjármálakerfisins töluðum við framsóknarmenn um að ráðast þyrfti í slíkar almennar efnahagslegar aðgerðir.    Síðastliðið kjörtímabil var ýmislegt reynt en heimili með verðtryggð húsnæðislán sátu eftir sem er hvorki sanngjarnt né réttlátt.  Sífellt fleirum varð ljóst að meira þyrfti til.  Segja má að niðurstöður kosninganna hafi endurspeglað þá skoðun og þann vilja sem greina mátti í máli beggja flokka, sem nú mynda ríkisstjórn. Markmiðin um þessa fyrirætlan voru sett fram í stjórnarsáttmálanum, sem er jú hið hefðbundna fyrsta skref þegar unnið er með stefnumótun.  En þar segir:

„ríkisstjórnin muni með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“

Þessu fylgdi ríkisstjórnin síðan eftir með þingsályktunartillögu í  10 liðum þar sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun til þess að taka á skuldavanda heimila á Íslandi.  Þar var leiðin vörðuð.  Stakar aðgerðir voru eyrnamerktar ráðherrunum, ábyrgðavæddar og tímasettar.  Tveir veigamestu liðirnir í þessari áætlun má segja að hafi verið skuldaleiðréttingin sjálf í útfærslu sérfræðingahópsins og svo vinna sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á neytendalánum.   Nú liggur vinna sérfræðingahópsins um skuldaleiðréttinguna fyrir og ég hvet alla til að kynna sér hana.  Verðtryggingarhópurinn mun svo kynna sínar niðurstöður í kjölfarið nú í desember.

Með þessum almennu efnahagslegu aðgerðum verður forsendubresturinn leiðréttur með jafnræði, sanngirni og réttlæti að leiðarljósi.  Það má alltaf deila um þau viðmið og þau mörk sem sett eru til að ramma slíka vinnu. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin boðaði aðgerðir í þágu heimilanna og hefur nú sett fram útfærslu aðgerða í samræmi við stjórnarsáttmálann.  Aðgerðunum er stillt í hóf með samspili niðurfærslunnar og skattleysi séreignasparnaðar en magna þannig um leið jákvæð áhrif á hagkerfið í heild.

Kópavogur hefur byggst hratt upp á síðustu tveimur áratugum og því hefur eðlilega fylgt mikil fjárfesting heimila í íbúðarhúsnæði.   Í því ljósi er þetta stórmál fyrir okkar bæjarfélag og mikilvægt að vel takist til með framkvæmdina.   Þessi aðgerð mun marka tímamót og rjúfa kyrrstöðu.  Aðgerð sem ræðst að rótum vandans, of mikilli skuldsetningu heimila, leið til sjálfshjálpar til aukinnar eignamyndunar og hagvaxtar.  Með þessum aðgerðum er það trú mín að Kópavogur muni áfram vaxa og dafna, eins og undanfarna áratugi.   Í janúar mun svo verkefnissjórn félags- og húsnæðismálaráðherra skila tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála.

 

Willum Þór Þórsson