Nú eru um 33.000 einstaklingar skráðir á umræddar hlutaatvinnuleysisbætur og jafnframt eru 15.000 einstaklingar að fullu skráðir án atvinnu. Staðan er því sú að um 25% af öllum sem eru á vinnumarkaði eru skráð að fullu eða að hluta á atvinnuleysisbætur. Þetta hefur í för með sér að útgreiddar atvinnuleysisbætur munu líklega nálgast allt að 100 milljarða á þessu ári og er það um 70 milljörðum hærra en ráðgert var.
Hlutaatvinnuleysisbætur höfðu skýrt markmið
Framundan er að taka ákvörðun um hvaða úrræði taka við fyrir starfsmenn sem hafa verið á hlutaatvinnuleysisbótum. Við þurfum m.a. að leggja mat á hvort telja megi að það tímabundna ástand sem við vorum að brúa með hlutaatvinnuleysisbótunum sé í raun að verða varanlegt og ef svo er með hvaða hætti sé hægt að hlúa sem best að fólki og búa til ný störf.Í öllum skrefum sem stigin eru þá er það fyrst og síðast skylda okkar að aðgerðir í þessum málum tryggi stöðu fólksins í landinu, framfærslu fjölskyldna og heimila þeirra. Við verðum að hafa hugfast, þótt óvinsælt kunni að reynast, að stjórnvöld geta ekki bjargað öllum fyrirtækjum gegnum skaflinn með fjárframlögum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Með þessu er ekki verið að tala gegn aðgerðum til að aðstoða fyrirtæki heldur verið að minna á þá staðreynd að ekki sé hægt að vænta stuðnings af hendi hins opinbera umfram það sem talist getur mikilvægt út frá almannahagsmunum.
Við eigum sóknarfæri sem nú þarf að nýta
Stóraukið atvinnuleysi kallar jafnframt á að við stígum stærri skref í að nýta vannýtt sóknarfæri til eflingar á innlendri framleiðslu og aukinni verðmætasköpun í íslensku hagkerfi. Þarna má t.d. nefna aðgerðir sem þarf að ráðast í til að efla landbúnað, einkum grænmetisrækt, auka möguleika íslenskrar kvikmyndagerðar, styrkja sóknarfæri í hugvitsiðnaði o.fl. Oft og tíðum þarf einfaldar kerfisbreytingar og/eða fjárveitingar til að hægt sé að sækja fram á þessum sviðum og þær eigum við að framkvæma núna.Við ætlum ekki og munum ekki sem samfélag sætta okkur við atvinnuleysi líkt og það sem er nú um stundir. Undir liggur öll samfélagsuppbygging okkar og velferð þjóðarinnar.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2020.