Categories
Greinar

Snemmbúin sláturtíð

Deila grein

16/08/2017

Snemmbúin sláturtíð

Eins og alþjóð veit þá er komin upp grafalvarleg staða meðal sauðfjárbænda sem taka þarf föstum tökum til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og alvarlega byggðaröskun.

Ekki er hægt að segja að bændur hafi ekki sýnt vilja til að aðlagast breyttum aðstæðum því þeir hafa fundað stíft með landbúnaðarráðherra og lagt fram tillögur að úrbótum. Enn sem komið er hefur ráðherra hvorki sýnt skilning né áhuga á málefninu.

Atvinnuveganefnd átti góðan fund í gær með hagsmunaaðilum þar sem Landsamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands lögðu fram tillögur að aðgerðum. Ef gengið verður hratt og vel til verks verður komið í veg fyrir allt að þriðjungs tekjuskerðingu bænda, hagkvæmni aukin og dregið verður úr kolefnisspori landsins.

Greiðsluþrot blasir við
Tillögur bænda fjalla m.a. um að efla útflutning til að jafna sveiflur á innanlandsmarkaði og draga þar með úr afurðaverðfalli til bænda í haust. Ef bændur fá ekki áheyrn og ekki tekst að koma jafnvægi á markaðinn mun greiðsluþrot blasa við á mörgum býlum landsins sem stjórnvöld munu ekki geta haft neina stjórn á.

Vandinn snýr fyrst og fremst að lokun erlendra markaða, en hann er tímabundinn. Því miður hefur m.a. Rússlandsmarkaður lokast núna, en það þýðir ekki að gefast upp. Auka þarf nýsköpun og vinna að nýjum mörkuðum. Á meðan unnið er að því að byggja upp traust að nýju á erlendum mörkuðum mega ráðherrar Viðreisnar ekki senda út röng skilaboð. Hvorki til erlendra aðila né loka á samtalið við bændur.

Einnig þarf að draga úr óeðlilegum sveiflum en stutt er síðan afurðastöðvarnar þurftu að takmarka sölu til viðskiptavina sinna erlendis vegna aukinnar eftirspurnar. Samvinna afurðastöðva á erlendum mörkuðum myndi án efa gera þeim betur kleift að þróa nýjar og réttar vörur fyrir nýja markaði.

Eins og í öðrum löndum
Ráðherra má ekki heyra minnst á uppkaup á landbúnaðarframleiðslu.
Þau lönd sem við berum okkur saman við stýra sinni landbúnaðarframleiðslu gagngert til þess að koma í veg fyrir afurðaverðslækkun til bænda m.a. með inngripum á markaði. Umframbirgðir eru þá keyptar upp/seldar út af markaði til að tryggja fæðuöryggi, framleiðsluvilja og afkomu bænda.

Ríkisstjórnin verður að taka á þeim tímabundnu vandamálum sem uppi eru núna í sauðfjárræktinni og vinna með bændum en ekki gegn. Á þann hátt tryggjum við búsetu hringinn í kringum landið og styðjum við afleidd störf sem verða til vegna matvælaframleiðslu, m.a. í ferðaþjónustu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. ágúst 2017