Categories
Greinar

Söguríkt Rauðarárholt

Deila grein

04/11/2014

Söguríkt Rauðarárholt

sigrunmagnusdottir-vefmyndMiðborgarkjarni
Skólavörðuholtið sem og Öskuhlíðin blómstra sem viðkomustaðir fjölmargra ferðalangra. Báðir staðir skarta sögu hvað varðar atvinnulíf og félagsstarf skólanema. Við eigum fleiri holt og hæðir innan borgarinnar ekkert síður en Rómaborg. Rauðarárholtið er ekki síður þrungið sögu atvinnulífs og skólastarfs.

Sjómannaskólinn var lengi eitt aðalkennileiti borgarinnar, enda sást hann víða að og var tekin sem viðmið til glöggvunar fyrir ferðamenn í Reykjavík. Enda innsiglingavitinn fyrir sjófarendur settur í turn skólans og hann var í orðsins fyllstu merkingu vitinn, sem lýsti mönnum leið í örugga höfn.

Hinn mikli fjöldi ferðalanga sem kýs að sækja okkur heim, hefur komið okkur nokkuð í opna skjöldu. Dagsskipunin er því að reyna að dreifa álaginu og opna sýn á fleiri staði til að taka á móti gestum okkar. Mig langar að vekja athygli á Rauðarárholtinu og hvað það er kyngimagnað og býr yfir miklum möguleikum til að laða að og hafa ofan af fyrir mörgum gestum.

Kirkja seiðir að ferðamenn
Það eru ekki mörg holt sem státa af tveim kirkjum. Þegar sækja ferðamenn mikið til Rauðarárholtsins til að skoða og mynda eina fallegustu kirkju borgarinnar – Háteigskirkju. Hvað svo? Enginn staður til að sækja í fræðslu eða upplýsingar. Ekkert kaffihús – nema heppnin sé með og einhver vegfarandi geti vísað á Kjarvalsstaði. Hvers vegna er ekki notalegt kaffihús á Rauðarárholti fyrir heimamenn, nemendur og ferðalanga? Það er sagt að ferðamenn sækist sérstaklega eftir að koma á staði þar sem heimafólk er fyrir. Það er enginn smáfjöldi fólks sem sækir vinnu og nám á Rauðarárholtið á hverjum virkum degi fyrir utan afar fjölbreytta íbúasamsetningu svæðisins.

Útsýnispallur og útileikhús
Á Rauðarárholtinu er kaldavatnstankur, sem settur var upp til að eiga ávallt nægjanlegt vatn tiltækt, en hann var settur upp eftir brunann mikla í Reykjavík árið 1925. Uppi á tankinum er lítill útsýnispallur, en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir borgina og hafið. Það væri ekkert stórmál að gera trébekki í hálfhring til norðurs út frá tankinum niður á melinn. Það væri tilvalið svæði til að vera með leiksýningar eða kynningar fyrir ferðamenn. Einnig gætu hinir fjölmennu skólar Rauðarárholtsins nýtt sér slíkt útisvið til ýmissa athafna og fræðslu.

Rétt við Vatnstankinn stendur fallegt listaverk eftir Sigurjón Ólafsson „Saltfiskstöflun“ af konum við þurrkun og stöflun saltfisks. Á Rauðarárholtinu fór fram töluverð saltfiskvinnsla. Á klöppunum – grjótinu var saltfiskurinn þurrkaður í sólinni. Nokkrir steinar þar bera menjar um að á þeim var fiskur barinn. Þetta eru mikilvægar minjar í borginni um atvinnugreinina sem flutti okkur inn í nútímann. Við fórum að salta fisk í auknum mæli þegar bátar stækkuðu og gátu sótt lengra til hafs. Þá var bakarinn Bernhöft sóttur til útlanda um 1845 til að baka rúgbrauð í vertíðarbáta. Bernhöftsbakari er sennilega elsta starfandi fyrirtæki borgarinnar. Rúgbrauð og saltfiskur ættu að vera eitt aðaleinkenni í matargerð okkar og sem við eigum að miðla til heimamanna sem og ferðamanna.

Menntabraut
Eigum við kannski að kalla staðinn Menntaholtið, mér er tjáð að stígur þar beri nafnið menntabraut, enda ekki óeðlilegt því að óvíða er þéttara samfélag nema á öllum aldri að feta sinn menntastíg. Á holtinu er grunnskóli, leikskóli, dansskóli, tækniskóli og kennaraháskóli – slær einhver staður þetta holt út hvað varðar fjölbreyttni í menntun á litlu svæði?

Umhverfisparadís
Síðast en ekki síst er unnt að gera Rauðarárholtið að umhverfisvænasta svæði borgarinnar – svæði án bíla. Bortækni fleygir fram og næsta víst að unnt er að bora stóran bílahelli undir holtið með innakstri frá Skipholti. Stigar og lyftur kæmu upp úr hellinum á nokkrum stöðum. Þá væri unnt að halda magnaða tónleika í slíkum bergsal.

Sannarlega er hægt að gera Rauðarárholtið að flottum söguríkum miðborgarkjarna með kaffihúsum, leikhúsum, verslunum og fleiru sem prýðir slíka staði.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.