Categories
Greinar

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Deila grein

05/12/2022

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Fjárlög komandi árs, sem nú eru til umræðu á Alþingi, endurspegla forgangsröðun og áherslur stjórnvalda. Með rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála fyrir aðra umræðu um fjárlög er ljóst að ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu og er að efna stjórnarsáttmála um að styrkja heilbrigðiskerfið.

Raunverulegar umbætur til framtíðar þarf að undirbúa vel. Nú er ár síðan undirritaður tók við ráðherrastól heilbrigðisráðuneytisins. Þjóðin var enn í klóm heimsfaraldurs og dagarnir snerust um sóttvarnaraðgerðir og smitstuðla. Þegar það fór að rofa til og samfélagið fór af stað blöstu við fjölmargar áskoranir. Heilbrigðiskerfið okkar hefur staðist eitt erfiðasta álagspróf síðari tíma en það er ljóst að til þess að það nái að fylgja hraðri þróun og breyttum þörfum samfélagsins þarf að bregðast við. Setja þarf skýr markmið og viðmið til grundvallar ákvörðunartöku um það hvernig við forgangsröðum og skipuleggjum framtíðarheilbrigðiskerfið með þarfir þjóðarinnar í forgrunni.

Norræn nálgun á heilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið er samofið efnahagslegum- og félagslegum þáttum samfélagsins. Áskoranir kerfisins verða ekki leystar inni á borði eins ráðuneytis heldur þarf aðkomu fleiri ráðuneyta, sveitarfélagar, stofnanna, samtaka, einstaklinga og fyrirtækja.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál. Það er síðan hlutverk heilbrigðisráðuneytis að tryggja jafnan aðgang að bestu mögulegu þjónustu og meðferð sem völ er á yfir allt landið. Til þess þarf að nýta allt kerfið en um leið stýra för varðandi verð, magn og gæði. Þannig náum við raunverulegum árangri til hagsbótar fyrir samfélagið í heild.

Samningar og biðlistar

Langvarandi samningsleysi við þá sem veita heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hindrar aðgengi og eykur ójöfnuð. Önnur birtingarmynd samningsleysis eru biðlistar og uppsöfnuð þörf fyrir þjónustu þó að heimsfaraldurinn hafi þar líka spilað stórt hlutverk. Það er því mikið hagsmunamál fyrir þjóðina og forgangsmál í heilbrigðisráðuneytinu að það náist samningar.

Í ráðuneytinu höfum við lagt stefnumarkandi línur og opnað á samtal um það hvernig við viljum sjá þennan mikilvæga hluta heilbrigðisþjónustunnar þróast til framtíðar. Það er mjög jákvætt að nú eru helstu samningsaðilar sestir við borðið með sama markmið að leiðarljósi, að jafna aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Skref í þá átt var tekið í vikunni þar sem samningar náðust um endómetríósuaðgerðir við Klíníkina. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð og því eru 750 milljónir eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir og verulegar upphæðir í að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnanna.

Mannauður

Mönnun í heilbrigðisþjónustu er gríðarleg áskorun á heimsvísu. Fjárlög næsta árs tryggja aukinn stuðning við heilbrigðiskerfið og endurheimt heilbrigðisstarfsfólks. Starfsumhverfi og öryggi eru lykilþættir í því að hlúa að þessum mikilvæga mannauði.

Til að ná betur utan um mönnun í heilbrigðiskerfinu hefur verið sett af stað vinna innan ráðuneytisins sem miðar að því að öðlast heildstæða sýn á stöðu mönnunar í dag og til framtíðar. Til að efla menntun heilbrigðisstétta og fjölga heilbrigðisstarfsmönnum hefur verið ráðist í aukið samstarf við háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnarmálaráðuneytið. Samhliða þarf að styrkja framhaldsnám, sérnám lækna, vísindi og nýsköpun og verður meðal annars ný reglugerð um sérnám lækna birt á næstu vikum. Einnig er verið að skipa í starfshóp í þeim tilgangi að nýta ákvæði í menntasjóði íslenskra námsmanna sem snýr að sérstakri ívilnun fyrir heilbrigðisstarfsfólk á landsbyggðinni.

Starfsumhverfi

Að skapa samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir okkar vel menntaða heilbrigðisstarfsfólk til framtíðar er nauðsyn. Þannig fóstrum við nýsköpun, framþróun og vísindi og tryggjum að fólkið sem getur unnið hvar sem er í heiminum velji að starfa á Íslandi til að láta gott af sér leiða. Liður í því er aukið fjármagn til fjárfestinga og uppbyggingar heilbrigðisstofnanna. Rúmir 13 milljarðar fara til Nýs Landspítala við Hringbraut þar sem við sjáum núna útveggina rísa upp úr grunninum.

Í öryggiskennd felast verðmæti. Á þingmálaskrá er að finna frumvarp til laga sem snýr að refsiábyrgð heilbrigðisstofnanna og rannsókn óvæntra atvika. Markmiðið er að tryggja betur öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Sömuleiðis er hækkun hámarksstarfsaldurs heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu að finna á þingmálaskrá vetrarins. Það er liður í að tryggja kjör og réttindi heilbrigðisstarfsmanna sem margir vinna eftir sjötugt.

Samvinna er vænlegust til árangurs

Í stórum málaflokkum eins og lýðheilsu, geðheilbrigðismálum, endurhæfingu og öldrunarþjónustu leggur heilbrigðisráðuneytið mikið upp úr samvinnu. Nýverið skipuðum við ráðherrar heilbrigðismála og félagsmála sameiginlegt endurhæfingarráð sem hefur það hlutverk að vera okkur til ráðgjafar um faglega stefnumörkun og skipulag þjónustu á sviði endurhæfingar. Það er fátt verðmætara en að aðstoða einstaklinga við að ná upp tapaðri færni til að geta haldið sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.

Einnig er sameiginlegt verkefni þvert á ráðuneyti okkar félags- og vinnumálaráðherra, fjármálaráðherra og sveitafélaganna að huga betur að málefnum aldraðra og er stýrihópur þess efnis að störfum. Þá er ekki síður mikilvægt að nefna ályktun Alþingis frá því í vor um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mikil vinna hefur verið lögð í að móta markvissa áætlun um aðgerðir til að hrinda henni í framkvæmd.

Heilbrigðiskerfið snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu. Á heilbrigðisþingi í nóvember voru forvarnir og lýðheilsa í forgrunni. Það var haldið undir yfirskriftinni Heilsa eins, hagur allra. Sú yfirskrift kjarnaði vel viðfangsefni þingsins þar sem góð lýðheilsa er jarðvegurinn sem heilbrigðiskerfið þarf til vaxa og dafna þannig að allir fái notið ávaxtanna.

Forsendur sem standast til framtíðar

Þjóðin er að eldast hratt. Það er staðfesting vaxandi lífsgæða og bættrar stöðu fólks en sú gæfa að eldast felur einnig í sér þörf á breyttri nálgun heilbrigðiskerfisins. Eins og formaður Læknafélags Íslands orðaði það er þessi myndarlega fjárinnspýtingu í heilbrigðiskerfið vísir að nýrri nálgun. Við vitum að aukið fjármagn er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt skilyrði fyrir bættri þjónustu. Því er verið að tryggja með metnaðarfullum aðgerðum að verið sé að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar.

Traust og góð heilbrigðisþjónusta er ekki aðeins ofarlega á blaði í forgangsröðun þjóðarinnar heldur líka ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir ágjöf undanfarinna ára í heimsfaraldri eru fjöldamörg tækifæri sem mikilvægt er að grípa. Með því að auka fjárframlög til málaflokksins er ríkisstjórnin að virða þessa forgangsröðun og í kjörstöðu til að fylgja orðum eftir með efndum.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin biritist fyrst í Morgunblaðinu 3. desember 2022.