„Stærsti sigurinn er að vera með.“ Þannig hljóðaði fyrsta kjörorð Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) sem fagnaði 40 ára afmæli um nýliðna helgi. Það er óhætt að segja að ÍF hafi sannarlega lagt sitt af mörkum til þess að efla íþróttastarf fatlaðs fólks í samfélaginu og skapa því þann virðingarsess sem það hefur í dag. Við stofnun félagsins voru það ekki viðtekin viðhorf að fatlað fólk ætti erindi í íþróttir. Áhugi almennings var takmarkaður og fátt fatlað fólk stundaði íþróttir. Með tilkomu ÍF átti þetta eftir að breytast og þegar litið er til baka þá hafa afrek fatlaðs fólks á íþróttavellinum vakið einlæga aðdáun og virðingu.
Íslenskir keppendur tóku fyrst þátt í Ólympíumóti fatlaðra árið 1980 og síðan hefur Ísland átt keppendur á slíkum mótum og sent þátttakendur til keppni í Evrópu og á heimsmeistaramót. Forsvarsmenn ÍF sýndu einnig mikla framsýni og skilning á mikilvægi íþrótta fyrir alla.
Ekki geta þó allir orðið afreksmenn og sumir vilja einungis vera með því að þeir finna það á líkama og sál að iðkun íþrótta hefur góð áhrif. Þá eru áherslur ÍF á hreyfi- og félagsfærni barna á tímum snjallvæðingar aðdáunarverðar og til eftirbreytni. Það er vitað að einangrun og skortur á félagsfærni getur dregið úr möguleikum einstaklinga til þess að eiga innihaldsríkt og sjálfstætt líf. ÍF hefur brugðist við þessum áskorunum samtímans af virðingu og skilningi og lagt sig sérstaklega fram við að bjóða upp á góða leiðsögn og leiðbeiningar varðandi iðkun íþrótta. Um leið hefur verið hlúð að félagslegum tengslum sem styrkt hafa sjálfsvirðingu og sjálfsmynd þátttakenda. Foreldrar, systkini, afar og ömmur hafa einnig fengið hvatningu til þess að taka þátt og hefur það haft uppbyggjandi og jákvæð áhrif á alla í fjölskyldum viðkomandi.
ÍF hefur alltaf verið vakandi fyrir straumum samfélagsins á hverjum tíma. Aukin samvinna milli almennra íþróttafélaga og ÍF hefur leitt af sér áhugaverða og skemmtilega þróun þar sem fatlaðir og ófatlaðir eiga samleið í íþróttum. Allt gerir þetta samfélagið betra.
Ég vil þakka ÍF hjartanlega fyrir samvinnuna og framlag þess til að styrkja íslenskt samfélag á liðnum árum. Ég hlakka til að fylgjast með iðkendum ganga á vit nýrra ævintýra, minni á kjörorðið og hvet sem flesta til að vera með.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2019.