Categories
Greinar

Sterkara samfélag

Deila grein

28/04/2018

Sterkara samfélag

Þann 26. maí er boltinn hjá okkur íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar að hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins í sveitarstjórnarkosningum.
Framsóknarmenn og stuðnings­menn þeirra völdu sinn framboðslista á fjölmennum aðalfundi þann 26. febrúar sl. og hafa síðan unnið að undirbúningi kosninganna. Undirrituð er stolt af því að leiða lista öflugra einstaklinga sem vilja vinna af krafti samfélaginu til heilla næstu fjögur árin. Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra vilja vera valkostur fyrir íbúa sem vilja enn sterkara samfélag. Þess vegna höfum við rætt við fjölmarga íbúa, bæði á opnum fundum og á öðrum vettvangi. Við munum kynna stefnumál okkar á næstu vikum en þetta er meðal annars það sem við viljum gera.

Öflug stjórnsýsla
Auglýsa eftir bæjarstjóra. Við leggjum áherslu á að bæjarstjórinn ásamt öðru forystufólki sveitarfélagsins láti að sér kveða í samfélaginu og tali máli þess þannig að eftir sé tekið á landsvísu.

Kröftugt atvinnulíf
Tökumst á við nýjar áskoranir sem hafa komið upp á yfirborðið með auknum straumi ferðamanna. Fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar eiga mjög mikið undir ferðaþjónustunni komið. Gott samstarf sveitarfélags og ferðaþjónustufyrirtækja er öllum mikilvægt, ekki síst þeim fjölmörgu einyrkjum og fyrirtækjum sem þjónusta þessa atvinnugrein. Við viljum standa vörð um þessi staðbundnu fyrirtæki og þjónustuaðila. Auk þess þarf að byggja áfram upp innviði fyrir sjávarútveginn og leggja alla áherslu á að rannsaka Grynnslin og sjá hvað raunhæft er að gera til að bæta innsiglinguna. Sveitarfélagið stendur frammi fyrir mikilli áskorun um hvernig hægt sé að styrkja landbúnað í sessi og þarf að taka virkan þátt í því að leita leiða til að treysta afkomu bænda.

Félags- og heilbrigðismál í fyrirrúmi
Sveitarfélagið Hornafjörður er góður staður til að búa á en við getum gert betur. Við vitum að aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ekki síst á sviði geðheilbrigði, þarf að bæta og við ætlum að tryggja að svo verði. Tryggja þarf uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis sem allra fyrst svo bæta megi aðbúnað og vinnuaðstöðu íbúa og starfsfólks. Við viljum efla heimaþjónustu til eldri Hornfirðinga og annarra þeirra sem á þurfa að halda.

Skólarnir hjarta samfélagsins
Eftir mikla fjárfestingu í húsnæði í grunn- og leikskóla er mikilvægt að hlúa nú að starfinu innan veggja skólanna. Ekki að því sé ábótavant heldur þarf sveitarfélagið að halda áfram áherslu á aðbúnað starfsfólks og nemenda, auka aðgengi að stuðningsþjónustu og fleiri atriðum sem gerir skólana okkar að enn betri vettvangi fyrir börn okkar og unglinga.
X-B fyrir sterkara samfélag.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, 1. sæti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Greinin birtist á eystrahorni.is 26. apríl 2018.