Í því árferði sem við búum við í Árborg um þessar mundir stöndum við frammi fyrir því að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Við þurfum að sýna ábyrgð í framkvæmd en það þýðir þó ekki að við getum skorið niður innviði og nauðsynlega grunnþjónustu inn að beini. Það bitnar bara á okkar allra mikilvægasta fólki, börnunum okkar og þeim sem þurfa á sértækum stuðningi að halda.
Skipulagsbreytingar geta skilað okkur í bættri þjónustu
Bæjarstjórn í heild sinni hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði við endurskipulagningu á rekstri Árborgar og hefur samvinnan gengið vel hingað til. Nú hefur verið farið af stað með skipulagsbreytingar og aðhaldsaðgerðir til að byggja upp samfélagið okkar til framtíðar. Það er aldrei auðvelt að fara í gegnum slíkar breytingar og mismunandi hvaða áhrif það hefur á líðan einstaklinga og einstakra hópa í samfélaginu okkar, því er mikilvægt að við sýnum aðgát því á bakvið allt sem við gerum er fólkið okkar og þeirra hagsmunir sem við berum ábyrgð á að tryggja. Ef vel er staðið að breytingunum mun það skila okkur í bættri þjónustu við alla íbúa Árborgar.
Stöndum vörð um farsæld barna
Þrátt fyrir erfiðleika í rekstri sveitarfélagsins Árborgar getum við öll verið sammála um að við verðum að standa vörð um farsæld barna og að mikilvæg grunnþjónusta verði ekki ágreiningsmál innan bæjarstjórnar. Við þurfum að finna leiðir til hagræðingar án þess að þjónusta sé skorin niður hjá þeim sem síst skyldi. Velta þarf við öllum steinum, byrjum ekki á þeim sem þurfa mest á okkur að halda og treysta á að við búum þeim betri framtíð með öflugu skóla-, frístunda- og stuðningskerfi hér í Árborg. Aðför að farsæld barna er aldrei það sem við eigum að fara í. Það hefur þegar sýnt sig að með því að beita snemmbúinni íhlutun þá náum við að búa til farsæla fullorðina einstaklinga.
Það er sýn okkar í Framsókn að þó svo við þurfum að sýna ábyrgð í fjármálum sveitarfélagsins þá erum við ekki að fara í björgunaraðgerðir eftir að drukknun hefur átt sér stað. Byrjum á réttum enda og stöndum vörð um fjölskyldurnar og grunnþjónustu í þágu okkar allra mikilvægustu íbúa – barnanna okkar!
Ellý Tómasdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg.
Greinin birtist fyrst í dfs.is 27. apríl 2023.