Categories
Greinar

Stór dagur fyrir heimilin

Deila grein

19/05/2014

Stór dagur fyrir heimilin

Sigmundur Davíð GunnlaugssonÍ gær var opnað fyrir umsóknir um leiðréttingu á höfuðstólslækkun verðtryggðra lána vegna óvænts verðbólguskots áranna í kringum efnahagshrunið. Það er í samræmi við þau loforð sem Framsóknarflokkurinn gaf kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Þetta er stór dagur fyrir landsmenn en um 100 þúsund heimili geta nýtt sér þau skuldalækkunarúrræði sem nú standa til boða. Þar með er ljóst að ríkisstjórnin hefur staðið við það loforð sitt að setja fólkið í landinu í forgang með því að leiðrétta forsendubrestinn sem yfir heimilin dundi við fall bankakerfisins, þegar hagvöxtur, kaupmáttur, atvinnuleysi og verðbólga fóru öll úr böndunum á sama tíma. Slíkt hefur ekki gerst áður í sama mæli í fyrri efnahagsþrengingum þjóðarinnar.

Skuldaleiðréttingin er réttlætisaðgerð en líka efnahagsleg aðgerð sem hefur, síðan hún kom fram í nóvember, hlotið jákvæðar umsagnir hjá erlendum aðilum sem horft er til í alþjóðlegu viðskiptalífi, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lánshæfismatsfyrirtækjum, sem hafa hækkað lánshæfismat Íslands í kjölfarið. Mikilvægast er þó að aðgerðirnar munu hafa mikil og jákvæð áhrif á skuldastöðu heimila í landinu og veita þannig heimilunum og þar með samfélaginu öllu öfluga viðspyrnu.

Samhliða þessum aðgerðum er unnið að mikilvægum breytingum á húsnæðislánakerfi landsmanna eins og félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti fyrir skömmu. Breytingarnar eru m.a. til þess ætlaðar að bæta stöðu og kjör leigjenda og húsnæðissamvinnufélaga. Ríkisstjórnin hefur einnig samþykkt áætlun um framhald vinnu við afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum.

Á undanförnu ári hefur efnahagur landsins batnað til mikilla muna. 4.000 ný störf hafa orðið til, hagvöxtur er meiri en hann hefur verið í fjölmörg ár, verðbólga er með allra minnsta móti og kaupmáttur eykst hraðar en í nokkru öðru Evrópulandi. Á aðeins einu ári hafa þar náðst gríðarlega mikilvægir áfangar í því þríþætta markmiði ríkisstjórnarinnar að vinna bug á tjóni fortíðar, koma í veg fyrir að slík áföll endurtaki sig og bæta kjör á Íslandi. Við getum því horft bjartsýn fram á veginn í aðdraganda 70 ára afmælis lýðveldisins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. maí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.