Categories
Greinar

Störfum sópað undir teppið

Deila grein

31/08/2017

Störfum sópað undir teppið

Ráðherra fiskeldismála lét þau orð falla að laxeldið væri komið til að vera. Gott og vel, en umhverfisráðherra er ekki viss. Aftur á móti útilokar skýrsla ráðherra fiskeldismála bein og óbein störf á Vestfjörðum – reyndar á Austfjörðum líka. Störf sem gætu annars rennt stoðum undir blómlega uppbyggingu svæðisins.

Fólkið flýr
Það er sorglegt til þess að vita að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að meta hin efnahags- og félagslegu áhrif af laxeldi í sjó, en á sama tíma er markmið skýrslunnar að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er tómt mál að tala um sjálfbært fiskeldi og ná sátt um greinina án þess að meta alla þrjá þættina. Það liggur ljóst fyrir. Mikil tækifæri felast í uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á þeim svæðum sem við höfum áður tekið ákvörðun um. Umbylting hefur orðið þar sem áður voru skilgreindar brothættar byggðir landsins og laða þær nú til sín störf og þjónustu. Hugsanleg byggðarleg áhrif af 30 þús. tonna leyfum, eins og áform gerðu ráð fyrir, í Ísafjarðadjúpinu fela í sér að um 1700 íbúar gætu haft aðkomu að fiskeldi með einum eða öðrum hætti. Það gæti þýtt 30% fjölgun íbúa á norðurhluta Vestfjarða. Þá fyrst væri hægt að tala um sjálfbært atvinnusvæði. Það er áhyggjuefni að enn þann dag í dag erum við að horfa upp á fólksfækkun, einhæft atvinnulíf og ótryggar samgöngur á Vestfjörðum. Fiskeldi eitt og sér dregur til sín mörg önnur afleidd störf, s.s. sérfræðistörf og hærra menntunarstig. Nauðsynlegir þættir, sem við fyrir sunnan teljum sem sjálfsagðan hlut, fylgja í kjölfarið. Samgöngur batna, þróun byggðar verður upp á við, unga fólkið er þá líklegra til að setjast að, ferðamönnum fjölgar og uppbygging stærstu atvinnugreinar landsins, ferðaþjónustan nær sér á strik þar sem hennar er beðið með óþreyju. Aðgerðaleysi ríkisstjórnar og skilningsleysi á sjálfbærni atvinnulífs landsbyggðar getur valdið því að veruleg hætta sé á að byggð þurrkist út innan fárra áratuga, en slík þróun átti sér stað t.d. þegar byggð lagðist af á norðurströndum og í Jökulfjörðum.

Nýsköpun ýtt út af borðinu
Við megum ekki gera lítið úr þeirri áhættu sem laxeldið hefur í för með sér og aukið sjókvíaeldi felur í sér miklar áskoranir sem og að ákvarðanir þurfa að grundvallast á vísindalegum rannsóknum og bestu fáanlegu tækni (BAT). Því sætir það furðu að ekki sé tekið tillit til mótvægisaðgerða sem þarf að þróa, sé vilji fyrir hendi.

Sáttaleið
Það er sorglegt til þess að vita að starfshópurinn hafi ekki geta komið sér saman um að taka tillit til mótvægisaðgerða. Tvennt þarf að koma til, til að sátt náist.

1. Ein hugmynd af mörgum, snýst um að hindra beinlínis för eldisfisks í laxveiðiár. Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki þróar slíka tækni.
2. Rýna þarf alþjóðlega, vísindalegt áhættumat áður en það er lagt eitt og sér til grundvallar fyrir ákvarðanatöku um sjálfbært samfélag.
Vinnum að sátt að sjálfbærri atvinnugrein sem skapar viðvarandi og fjölbreytt störf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 31. ágúst 2017