Categories
Greinar

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Deila grein

08/07/2014

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Þórunn EgilsdóttirByggðaþróun- og byggðamál hafa verið ofarlega í umræðunni undanfarin ár. Samþjöppun byggðar og tilflutningur á störfum hefur orðið til þess að minni samfélög út um landið standa frammi fyrir því að atvinnulíf verður einhæft og stoðirnar veikjast.

Árum saman hefur verið talað um að þessari þróun verði að snúa við, en hægt hefur gengið. Hið opinbera hefur til þess þrjár leiðir; efla starfsemi á þess vegum á viðkomandi stað, flytja verkefni eða stofnanir.

Menn hafa séð á bak opinberum störfum sem flutt hafa verið suður. Þetta hefur gerst án mikillar umræðu eða athygli. Samfélagið er að breytast, störf breytast og þróast. En svo öfugsnúið sem það nú er þá hefur eðlisbreyting og nútímavæðing starfa ekki orðið til þess að þau haldist frekar út um landið heldur hefur þeim fjölgað á höfuðborgarsvæðinu.

Með tilkomu netsins og nýrrar tækni hefur þjónusta breyst en mörg störf má allt eins vinna utan höfuðborgarsvæðisins eins og þar.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur: »Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa.«

Það þarf því ekki að koma á óvart þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar tilkynna ákvarðanir um flutning starfa líkt og gerðist í liðinni viku. Við getum haft allskonar skoðanir á því hvernig er að málum staðið og ekki skal vanmeta stöðu þeirra sem nú standa frammi fyrir breytingum á starfsumhverfi.

En við hljótum að geta verið sammála um það að til að byggja hér upp sterkt samfélag þurfa innviðirnir að vera sterkir um allt land. Sterk höfuðborg þarf styrka landsbyggð og við þurfum öll að vinna saman að því að nýta tækifæri framtíðarinnar með því að stuðla að jafnvægi byggðar. Við þurfum hvert á öðru að halda.

Starfshópi, sem skipaður hefur verið, eru ætlaðir 18 mánuðir til að vinna að undirbúningi og skipulagningu þessa verkefnis. Í honum sitja tveir starfsmenn ráðuneytisins og þrír starfsmenn Fiskistofu. Verkefnið felst ekki í því að flytja alla starfsemina. Stefnt er að því að tölvudeild Fiskistofu verði áfram rekin á höfuðborgarsvæðinu og reiknað er með að þar verði starfsstöð sem þjónar suðvestursvæðinu.

Það er von mín að starfsemi á öllum starfsstöðvum stofnunarinnar, þ.e. í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, á Akureyri, Ísafirði, Höfn og í Reykjavík farnist vel og þær komi enn sterkari út úr þessi ferli.

Að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er áskorun og vil ég óska öllum þeim sem að því verkefni koma góðs gengis.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.