Categories
Greinar

COSTCO – Kostir og gallar

Deila grein

07/07/2014

COSTCO – Kostir og gallar

sigrunmagnusdottir-vefmyndFréttir berast um að bandaríska verslunarkeðjan COSTCO vilji hasla sér völl hér á landi. Vonandi verða þau tíðindi til þess að vitræn umræða skapist um matvörumarkaðinn á Íslandi, samkeppni, hreinleika vöru, gæði íslenskra afurða og fleira.

Lengi hafa ákveðin fyrirtæki á matvælamarkaði haft markaðsráðandi stöðu á Íslandi og ráða því miklu um vöruverð og vörugæði. Margoft hefur verið reynt að hafa áhrif á lyfjafyrirtæki til lækkunar lyfjaverðs – en lítið hefur áunnist. Þá hefur olíufélögunum verið legið á hálsi fyrir samráð og fákeppni. Ef umræða um hugsanlega komu COSTCO hingað til lands verður þess valdandi að við tökum til á þessum sviðum er það vel.

Hins vegar óttast undirrituð sjúkdómahættu af óheftum innflutningi á hráu kjöti frá löndum sem við vitum að meðhöndla dýr með allt öðrum hætti en gert er hér á landi. Vitað er að þau eru sumstaðar sprautuð með lyfjum til að auka afurðirnar, m.a. með hormónum. Dæmi um búfjársjúkdóma hræða.

Heilbrigði matvara
Langlífi okkar Íslendinga er talið ekki síst koma til af fæðu okkar og umhverfi, hreinleika og gæðum. Nýverið birtist það álit virtra erlendra sérfræðinga að við værum með einstakt heilsufæði fólgið í fiskinum, kjötinu og mjólkinni. Heilsufæði sem hefur áhrif á að við lifum lengur en flestar aðrar þjóðir.

Meðan ég var matvörukaupmaður og varaformaður Kaupmannasamtakanna lagðist ég eindregið gegn sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég er enn sömu skoðunar. Þá velti ég vöngum yfir hvaða áhrif lausasölulyf í almennum hillum stórmarkaða myndu hafa.

Það er gott ef umræðan um komu verslunarrisans COSTCO til landsins verður til þess að við kryfjum til mergjar matvöru- og olíumarkaðinn, sem og áfengissölu í almennum matvöruverslunum. Sama gildir um lyfjamarkaðinn. Jafnframt er til bóta að hófstillt en opinská umræða fari fram um innflutning á hráu kjöti og hugsanlegar afleiðingar þess. Mikilvægast er að við mótum sjálf heildstæða verslunarstefnu byggða á reynslu okkar en með vitneskju 21. aldar í farteskinu, en látum ekki aðra stjórna för.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.