Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Mikilvægt að samkomulag verði gert um það að vinna með langtímasýn og raunsæi þegar kemur að því að leitast við að tryggja stöðugleika í rekstri sveitarfélaga sem gefur til lengri tíma svigrúm til eðlilegrar uppbyggingar og viðhalds á innviðum samfélagsins.

Deila grein

16/09/2020

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Reynslan síðustu ár og ekki síst síðustu misseri hefur sýnt að mikilvægt er að skipulag sveitarfélaga sé byggt á traustum viðnámsþolnum sjálfbærum innviðum og svigrúm sé til að bregðast við efnahagslegum sveiflum og breytingum. Sveitarfélög þurfa að þola jafnt að takast á við vöxt og efnahagslegan samdrátt.

Það ástand sem nú ríkir í samfélaginu er vissulega óvenjulegt og hefur gríðarlega mikil áhrif á rekstur og afkomu flestallra sveitarfélaga í landinu og frávik eins og nú blasa við flestum sveitarfélögum kalla á nýjar áskoranir. En óháð því ástandi sem nú blasir við vegna Covid þá hef ég hef starfað í sveitarstjórn frá 2014 og kynnst því að rekstur og fjárfestingargeta sveitarfélagsins er af langstærstum hluta háð framlagi Jöfnunarsjóðs. Fjárhagurinn hefur því verið eins og blaðra síðustu ár sem ýmist er full af gasi eða loftlaus. Verkefni kjörinna fulltrúa hefur oftar en ekki afmarkast af því að takast á við það efnahagsástand sem ríkir á hverjum tíma. Mikilvægt að samkomulag verði gert um það að vinna með langtímasýn og raunsæi þegar kemur að því að leitast við að tryggja stöðugleika í rekstri sveitarfélaga sem gefur til lengri tíma svigrúm til eðlilegrar uppbyggingar og viðhalds á innviðum samfélagsins.

Verkefni og hlutverk sveitarfélaga hafa breyst gríðarlega mikið á síðustu áratugum og krafan um samkeppnishæfa þjónustu eykst frá ári til árs í öllum málaflokkum. Lífsgæði og gildi þeirra þátta sem snúa að lýðheilsu, aðstöðu til heilsueflingar, útivistar, afþreyingar og umhverfis sem styður við góða andlega og líkamlega heilsu hefur meira vægi í dag en nokkru sinni fyrr.

Við gerum þá kröfu að grunn- og leikskólabyggingar séu vel útbúnar og tryggi gott starfsumhverfi og þjónustu fyrir nemendur og starfsfólk, aðgengi að góðum íþróttamannvirkjum, öflugu menningar- og íþróttastarfi er hverju samfélagi lífsnauðsynlegt og mikilvægt er að jarðvegur sé fyrir nýsköpun á hverjum tíma.

Fólk vill búa í samfélagi þar sem vel er hugað að fegrun umhverfis og gott viðhald sé á götum og gangstéttum. Íbúar vilja að álögur séu lágar og kostnaður við dagvistun, íþrótta- og tómstundastarfs sé niðurgreiddur eins og kostur er til að gæta jafnræðis m.a.

Það er skilda okkar kjörinna fulltrúa að horfa til framtíðar og tryggja bæði stöðugleika og framfarir í þjónustu sveitarfélagsins og sjá til þess að uppbygging sé í takt við þarfir samtímans. Það eru nýjar og annarskonar áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir í nútíma samfélagi og margt hefur t.a.m. breyst á ekki lengri tíma en 20 árum. Ljóst er að það er, fyrir margra hluta sakir, ómögulegt fyrir fámenn sveitarfélög að standa undir þeim kröfum sem við gerum um aðstöðu, gæði og viðhald innviða í dag. Sveitarstjórnarstigið þarf einfaldlega að styrkjast á landsvísu til að hægt sé að koma til móts við þarfir samtímans.  Það er því nauðsynlegt að endurskoða bæði hlutverk Jöfnunarsjóðs og fjármögnun/aðkomu ríkisins á þeim verkefnum sem falla undir sveitarfélögin. Það er þó grundvallarhlutverk kjörinna fulltrúa að gæta sameiginlegra hagsmuna okkar allra og tryggja að fjármunum sé vel varið til að koma til móts við þarfir nútímans, óháð því hvort þeir koma frá ríkinu eða í gegnum útsvarstekjur.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 16. september 2020.