Categories
Fréttir Greinar

Kvennakraftur í Framsókn

Deila grein

29/12/2023

Kvennakraftur í Framsókn

Það er ánægjulegt að líta yfir árið sem senn er að líða og sjá og finna hve hópur Kvenna í Framsókn er vel skipaður og öflugur. Fjölbreytt fræðslukvöld og viðburðir á vegum félagsins á árinu 2023 hafa verið vel sóttir, gagnlegir og samveran gefandi. Mikil virkni og kraftur er meðal Kvenna í Framsókn og aldrei hafa fleiri konur leitt lista flokksins og setið í sveitarstjórnum á landsvísu. Þennan góða árangur kvenna sem náðst hefur má þakka góðri liðsheild og trausti. Við vitum að framlag okkar og frammistaða muni leiða til árangurs fyrir heildina og það skiptir höfuðmáli.

Sameiginleg markmið

Hvati kvenna til að starfa innan Framsóknar er sprottinn af áhuga og eldmóð fyrir velferð fólks, betri lífskjörum og öflugu atvinnulífi í samfélögum um allt land. Konur í Framsókn starfa á ólíkum vettvangi um allt land og það er ánægjulegt að verða vitni að því hversu vakandi þær eru gagnvart ólíkum hugmyndum og sjónarmiðum og skilja mikilvægi þess að geta sett sig í spor annara. Við hlustum og vinnum málin áfram með það að markmiði að gera gott samfélag betra fyrir alla. Öll höfum við eitthvað fram að færa og þannig höfum við í gegnum tíðina náð sameiginlegum markmiðum og skapað traust. Getan til þess að hlusta og sjá að við erum ekki einsleitur hópur er gríðarlega mikilvægur þáttur í stjórnmálastarfi.

Hlutdeild kvenna í stjórnmálum er enn aðeins um 20% á heimsvísu og örfáir þjóðhöfðingjar heims eru konur. Þrátt fyrir að umhverfi stjórnmálanna sé almennt talið karllægt þá höfum við náð ákveðnum árangri með að brjótast úr því umhverfi hér á landi og mikilvægt er að okkur fari ekki aftur í þeim efnum. Því skiptir máli að raddir kvenna heyrist alla daga. Þá er reynsla kvenna úr stjórnmálum jafnframt besti vitnisburðurinn um stöðuna hér á landi og hvatning og innblástur fyrir næstu kynslóðir kvenna. Sérhver kona sem eitt sinn var stúlka kannast við að hafa speglaði sig í kvenfyrirmyndum. Það eru fyrirmyndirnar sem geta skipt sköpum þegar stígið er inn á svið stjórnmálanna. Heilsteyptar fyrirmyndir með gott siðferði og dómgreind skapa jarðveg fyrir komandi kynslóðir kvenna.

Það búa ekki allir við sömu forréttindi

Einn eftirminnilegasti dagur ársin var 24. október s.l. þegar um hundraðþúsund manns mættu á Arnarhól og samkomur um allt land til þess að taka þátt í Kvennaverkfallsdeginum. Þar varð þjóðinn og heimurinn vitni að stórkostlegri samstöðu fyrir réttlátu samfélagi á baráttudegi fyrir betra samfélagi. Undirrituð telur afar mikilvægt að fólk í forréttindastöðu gleymi ekki mikilvægi baráttunnar því henni er ekki enn lokið. Enn eru konur sem þurfa að sæta óréttlæti, kynbundnu ofbeldi og smánun á hverjum degi. Líkt og kom fram í kynningu fyrir Kvennaverkfallið þá er staðan enn að „Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið “ Hjörtu okkar slógu í takt þann 24. október 2023. Þvílík stemmning og baráttuandi, höldum áfram að gera betur.

Hvetjum konur til þátttöku í stjórnmálum

Síðust ár hefur þeim konum fjölgað sem hafa gengið til liðs við Framsókn. Konur sem hafa skynjað samvinnukraftinn, viljann og framtakssemina sem einkennir Framsókn. Konur sem hafa upplifað og vita að rödd þeirra hefur áhrif. Konur í Framsókn takk fyrir ykkar framlag, samtölin, innblásturinn og samveruna á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur öllum farsældar á komandi ári og hlakka til að ganga inn í nýtt ár með Framsókn.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Kvenna í Framsókn.

Categories
Greinar

Fjármögnun búnaðar vegna almannavarna á herðum einstakra sveitarfélaga

Deila grein

12/09/2023

Fjármögnun búnaðar vegna almannavarna á herðum einstakra sveitarfélaga

Síðustu ár hefur umræðan um búnaðarmál og menntun slökkviliða stöðugt aukist í tengslum við gróðurelda og aðrar almannavarnir. Í tengslum við þá umræðu voru skipaðir einhverjir starfshópan og nefndir m.a. var skipuð nefnd af ráðherra árið 2020 til að fara yfir þessi mál sem í framhaldinu skilaði inn skýrslu til HMS. Nefndina skipuðu reynslumiklir slökkviliðstjórar en sömuleiðis höfðu aðkomu af nefndinni aðilar frá Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum, Landhelgisgæslunni og HMS.

Í þeirri skýrslu var m.a. nákvæmlega farið yfir búnaðarþörf í tengslum við viðbrögð m.v. landssvæðaskiptingu, forvarnarstarf og tækifæri sem gætu falist í sameiginlegum búnaði slökkviliða til að bregðast við gróðureldum. Því miður þá virðist sem ekki hafi verið unnið frekar með þá skýrslu eða aðrar þær tillögur sem var skilað inn eins og lagt var upp með. Í áhættumati almannavarna (2011) kemur fram að gróðureldahætta á Íslandi hafi aukist. Með hlýnandi veðurfari, breytingum á landbúnaði minnkandi beit og aukinni skógrækt hafa aðstæður breyst mikið á síðustu árum. Jafnfram hefur heilsárs búsetu á frístundasvæðum aukist í tengslum við þróun um störf óháð staðsetningu

Gróðureldar eru náttúruvá og ber að skilgreina sem slíka

Starfssvæði slökkviliðs Borgarbyggðar er dæmi um eitt áhættumesta gróðureldasvæði á landinu, sama má segja um starfssvæði Brunavarna Árnessýslu.En staðreyndin er sú að sveitarfélög eru almennt ekki nægilega vel í stakk búin búnaðarlega séð til að kljást við gróðurelda hér á landi. Í slökkvilið Borgarbyggðar býr mikil fagþekking ásamt sérþekkingu á viðbrögðum við gróðureldum sem hefur skapast með reynslu. Það blasir því við að tækifæri er til þess að í Borgarbyggð er upplagt svæði fyrir starfsstöð fyrir menntun fyrir slökkviliðsfólk.

Gróðureldar eru náttúruvá og ber að skilgreina sem slíka.

Viðbrögð við gróðureldum eiga sannarlega heima undir fjármagnsstoðum Almannavarna ríkisíns en ekki sveitarfélögum eins og núverandi skipulag gerir ráð fyrir. Ég þykist vita að sveitarfélögi í landinu eru fús til samstarfs í þessum málum en það er gríðarlega brýnt að unnið verði að markmiðum um sameiginlegan gróðureldabúnað og viðhaldsfjármagn með aðkomu hins opinbera.

Sveitarfélögin viðbragðsaðilar á þjóðvegi 1

Árið 2000 var björgun úr bílflökum skilgreind sem hlutverk slökkviliða, það voru jákvæðar breytingar enda slökkviliðsmenn með góða þekkingu á slíkum aðgerðum. Fjármögnun á nauðsynlegum björgunarbúnaði eins og klippum og glennum eru í dag á herðum hvers sveitarfélags fyrir sig. Umferð hefur aukist mikið síðust ár samhliða fjölgun ferðamanna og á aðeins eftir að vaxa. Þjóðuvegur 1 rennur í gegnum eða meðfram sveitarfélögum sem hafa ekkert bolmagn til að takast á við þá fjárfestingu sem slíkt viðbragð gerir ráð fyrir.

Viðbragðsaðilar treysta á að sá búnaður sem þarf til björgunar á starfssvæði hvers slökkviliðs sé góður. Staðan í dag er sú að á mörgum svæðum eru tækin gömul og ráða ekki við verkefnin og þróun bíla. Á yfirstandandi ári hefur samkvæmt slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð t.a.m þurft að beita klippum 8 sinnum við björgun úr bílflökum í sveitarfélaginu.

Þeir einstaklingar sem starfa í viðbragðsgeiranum hafa áhyggjur af því að endurnýjun á búnaði sé ekki í takt við fjölgu ferðamanna og meiri umferð. Öryggi slökkviliðsmanna, viðbragðsaðila og vegfarenda þarf að tryggja.

Nauðynlegt er að ráðast sem fyrst í endurskilgreiningu á hlutverki og ábyrgð sveitarfélaga þegar kemur að fjármögnun búnaðar og viðbragðs tengt almannavörnum.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð og formaður stjórnar SSV.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Jólakveðja Konur í Framsókn

Deila grein

21/12/2022

Jólakveðja Konur í Framsókn

Konur í Framsókn.

Síðustu ár hefur þeim konum fjölgað sem hafa gengið til liðs við Framsókn. Konur með fjölbreytta reynslu og bakgrunn úr atvinnulífinu, af vinnumarkaði, menntaðar, mæður, dætur og ömmur. Konur sem hafa lagt fram krafta sína, þekkingu og reynslu með það eitt að markmiði að láta gott af sér leiða.

Konur sem hafa samsvarað sig við stefnu flokksins.

Konur sem hafa skynjað samvinnukraftinn, viljann og framtakssemina sem einkennir Framsókn.

Konur sem hafa upplifað að rödd þeirra hefur áhrif.

Aldrei hafa eins margar konur setið í sveitarstjórnum fyrir hönd Framsóknar og aldrei fleiri leitt lista Framsóknar en nú.

Mikil virkni og kraftur er meðal kvenna í Framsókn og aldrei hafa fleiri konur leitt lista flokksins í sveitarfélögum en nú og aldrei hafa fleiri konur setið í sveitarstjórnum fyrir Framsókn. Sá árangur sem Framsókn hefur náð á landsvísu byggist fyrst og fremst á liðsheild og trausti. Við vitum að framlag okkar og frammistaða muni leiða til árangurs og það skiptir höfuðmáli.

Við vitum að til að viðhalda þeim árangri sem höfum náð er getan til að skilja og þakka fyrir það að við erum ekki einsleitur hópur mikilvæg. Við erum meðvitaðar um eigin viðhorf og höfum viljan til að setja okkur í spor annara. Við erum opnar gagnvart ólíkum hugmyndum og sjónarmiðum, því allar hafa eitthvað fram að færa. Þannig höfum við náð sameiginlegum markmiðum og skapað traust.

Hvati kvenna til að starfa innan Framsóknar er sprottinn af áhuga og eldmóð fyrir ólíkum málaflokkum enda er fjölbreyttur hópur kvenna innan flokksins með færni, þekkingu, reynsla úr öllum áttum. Stefnt er að því virkja málefnavinnu og samtal innan stækkandi hóps Framsóknar enn frekar á nýju ári með málefnahópum. Konur í Framsókn eiga raddir á öllum málefnasviðum og taka virkan þátt í þeirra vinnu.  Efnahag- velferðar-, mennta-, orku-, sjávarútvegs- umhverfis- og skipulagsmál, matvælaframleiðsla, nýsköpunar – og menningarmál eru málefni kvenna í Framsókn.

Hlutdeild kvenna í stjórnmálum er enn þá aðeins um 20% þegar litið á heimsvísu og örfáir þjóðhöfðingjar heims eru konur. Þrátt fyrir að umhverfi stjórnmálanna sé almennt talið karllægt þá höfum við náð ákveðnum árangri með að brjótast úr því umhverfi hér á landi. Reynsla kvenna úr stjórnmálum er besti vitnisburðurinn um stöðuna hér á landi og jafnframt hvatning og innblástur fyrir næstu kynslóðir kvenna. Sérhver kona sem eitt sinn var stúlka kannast við að hafa speglaði sig í kvenfyrirmyndum. Það eru fyrirmyndirnar sem geta skipt sköpum þegar stígið er inn á svið stjórnmálanna. Heilsteyptar fyrirmyndir með gott siðferði og góða dómgreind.

Hvetjum konur á öllum aldri til að taka þátt í stjórnmálum.

Ég get ekki látið það hjá líða að minnast á það að fátt skemmtilegra  en þegar Framsóknar konur hittast. “Rannsóknir” undirritaðrar hafa leitt í ljós síðustu ár að konur í Framsókn kunna einfaldlega að njóta þess að koma saman. Þar er gleðin ávallt við völd.

Takk fyrir ykkar framlag, samtölin, innblásturinn og samveruna á árinu sem er að líða.

Ég óska ykkur öllum og gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Kvenna í Framsókn.

Categories
Greinar

Áfram veginn í Borgarbyggð – sveitarfélag í sókn

Deila grein

09/12/2022

Áfram veginn í Borgarbyggð – sveitarfélag í sókn

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar ásamt áætlun um fjárheimildir fyrir árin 2024 til 2026 var samþykkt í sveitarstjórn miðvikudaginn 7. desember. Í þeirri áætlun sem nú hefur verið samþykkt var lögð höfuð áhersla á undirbyggja sókn í sveitarfélaginu. Stöðugt framboð á nýjum lóðum bæði fyrir almenning og atvinnulíf, endurnýjun grunnskóla, stækkun leikskóla, uppbygging íþróttamannvirkja og gatnagerð rísa hæst í þeim áformum. Allt eru þetta fjárfestingar sem eru til þess fallnar að styrkja lífskjör og bæta búsetuskilyrði í Borgarbyggð.

Fjárhagsstaða Borgarbyggðar er sterk en afgangur af rekstri er lítill. Þó freistandi hafi verið að lækka álögur á íbúa í fjárhagsáætlun fyrir 2023 varð sú ákvörðun ofan á að treysta afkomu og fjárhagsgrunn sveitarfélagsins. Þar vegur þungt að framundan er veruleg fjárfestingarþörf og fyrir liggja metnaðarfull uppbyggingaráform sem góð samstaða hefur verið um. Framundan er vinna þar sem allt kapp verður lagt á að tekjur hækki umfram kostnað og hugað að einföldun bæði rekstrar og eignsafns. Þá er mikilvægt að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til hagræðingar og skynsamlegrar ráðstöfunar fjármuna. Ljóst er að til að viðhalda jafnvægi í rekstri næstu árin samhliða áformum um fjárfestingar er nauðsynlegt að standa vörð um tekjustofna sveitarfélagsins.

Verkefnið framundan er að treysta og einfalda reksturinn

Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er viðkvæmt og rekstrarkostnaður eykst frá ári til árs. Laun og launatengd gjöld eru langstærsti kostnaðurliðurinn í rekstri sveitarfélagsins. Á yfirstandandi ári má ætla að um 56,4% af öllum tekjum sveitarfélagsins hafi verið ráðstafað í laun.

Krafan um gæði þjónustu eykst í kjarnastarfsemi sveitarfélagsins og mikilvægt er að sveitarfélagið hafi getu til þess að standast þær kröfur sem bæði íbúar og starfólk gerir til umhverfisins. Svigrúm og geta sveitarfélagsins til að sinna verkefnum og viðhaldi sem falla ekki undir kjarnastarfsemi og lögbundna þjónustu er ekki mikil. Framsóknarflokkurinn væntir góðs samstarfs innan sveitarstjórnar og við íbúa um það verkefni að treysta og einfalda rekstur sveitarfélagsins með áherslu á kjarnastarfsemi og grunnþjónustu. Framsækni er nauðsynleg til að takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Mikilvægt er að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvarðan með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Þannig höldum við áfram að bæta þjónustu við íbúa en getum um leið fjárfest í auknum lífsgæðum.

Gatnagerð og hönnun árið 2023

Þá er öllum ljóst að lítið má út af bregða varðandi afkomu sveitarfélagsins til að draga verði verulega úr fjárfestingum. Á sama hátt má segja að ef vel tekst til í rekstri þá geti skapast svigrúm til að taka enn stærri skref í fjárfestingum og lækka álögur á íbúa. Fjárfestingar þurfa að taka mið af aðstæðum á fjármagnsmarkaði og vinnumarkaði. Miðað við þá áætlun sem nú liggur fyrir fer skuldaviðmið samkvæmt reglugerð hæst í 112% í lok tímabilsins en það stendur nú í kringum 65%. Samkvæmt viðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga skal það vera undir 150%.

Ef þau áform sem lagt er upp með ganga eftir verður rekstur A og B hluta sveitarfélagsins hallalaus á árinu 2024 en lítilsháttar halli árin 2025 og 2026.

Aðstæður í dag eru ekki hagfelldar til að ráðast í verulega lántöku. Áform sveitarfélagsins taka mið af því að árið 2023 og 2024 verði lagt kapp á að ljúka grunnvinnu svo ráðast megi í fjárfestingar þegar aðstæður skapast. Mikilvægt er að vanda vel til allrar grunnvinnu, hönnunar og skipulags en það er ein aðal forsenda fyrir því að kostnaðaráætlanir standist. Það þýðir samt ekki að mikilvægum verkefnum verði slegið á frest og á árinu 2023 en gert er ráð fyrir fjárfestingum og framkvæmdum fyrir 566 m.kr. Þar er helst að nefna að 333 m.kr verður varið í húsnæðismál og 226 m.kr. gatna- og stígagerð.

Næg verkefni bíða og inni í fjárfestingaráætlun þessa kjörtímabils eru meðal annars stækkun leikskólans Uglukletts, endurnýjun Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum, bygging knatthúss í Borgarnesi, endurbætur slökkvistöðvar, gatnagerð, fyrsti áfangi að stækkun íþróttahúss ásamt því sem jafnt og þétt verður viðhaldið framboði á lóðum.

Sú áætlun sem nú hefur verið samþykkt var unninn í þéttu og góðu samstarfi allra fulltrúa í sveitarstjórn. Vinna sem hefur einkennst af mikilli samstöðu, góðu samtali og sameiginlegum vilja til að stefna á uppbyggingu og vöxt í sveitarfélaginu. Fulltrúar Framsóknar í sveitarstjórn eru bjarstýnir og fullir tilhlökkunar að takast á við fjölbreytt og spennandi verkefni sem miða öll að því að gera gott samfélag enn betra.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknar í Borgarbyggð

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 8. desember 2022.

Categories
Greinar

Glíman við ríkið og reksturinn

Deila grein

20/10/2022

Glíman við ríkið og reksturinn

Nú er hinni árlegu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga nýlokið. Þar komu saman um fjögurhundruð fulltrúar sveitarfélagana. Mikill þungi var í umræðunni um vanfjármögnun verkefna og áskoranir í rekstri sveitarfélaga eins og oft áður. Við sem störfum á vettvangi sveitarsfelaga erum flest að glíma við samskonar áskoranir í rekstrinum. Við viljum öll skapa okkar starfsfólki, íbúum og börnum góða þjónustu, starfsumhverfi og aðbúnað. Sveitarfélagið þarf að vera samkeppnishæft við önnur sveitarfélög og því nauðsynlegt að skapa búseturskilyrði sem laða að bæði fyrirtæki og nýja íbúa.

Einsleit umræða

Þegar kemur að umræðunni um áskoranir í rekstri er orðræðan hjá okkur sveitarstjórnarfólki varðandi þessi mál oft nokkuð einsleit og einkennist af gremju yfir vanfjármögnun á þeim verkefnum sem hafa verið flutt yfir á sveitarfélög og skömmu síðar dunið yfir nýjar reglugerðir sem ekki eru fjármagnaðar. Málefni sem er uppspretta neikvæðrar umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga sem einkennist af ágreiningi um hvaðan fjármunirnir eigi að koma.

Það sem okkur skortir í umræðunni um rekstur sveitarfélaga er að líta í eigin barm. Rekstur sveitarfélaga hefur þanist út og ekkert lát virðist vera á þeirra þróun. Sveitarstjórnarfulltrúar vilja eðli málsins samkvæmt láta gott af sér leiða til samfélagsins og margir gefa kost á sér í sveitarstjórnarmálin vegna ákveðinna málefna, hugmynda um ný verkefni og vilja til þess að gera úrbætur á þeirra þjónustu sem sveitarfélagið veitir.

Að standa vörð um lögbundna þjónustu

Það er áskorun hjá mörgum sveitarfélögum að ná að standa vörð um lögbundna þjónustu. Endurbætur og viðhaldi á skólahúsnæði, aukinn launakostnaður, viðhald gatna og gangstétta, búnaður og rekstur slökkviliðs og félagsþjónusta svo eitthvað sé nefnt. Það er vissulega freistandi að ráðstafa fjármunum í fjölbreytt verkefni sem eru hvorki lögbundinn né tilheyra kjarnastarfseminni.

Það er hreinlega skilda okkar að ráðstafa fjármunum vel, koma í veg fyrir sóun og forgangsraða fjármunum í þau verkefni sem eru lögbundin. Það eru fáir íbúar sveitarfélaga sem setja sig inn í rekstur síns sveitarfélags og enn færri sem vakna á morgnana með áhyggjur yfir fjarhagsstöðu síns sveitarfélags. Það blasir við að krafan um góða og faglega þjónustu mun aukast ár frá ári, það er náttúrulögmál. Það má því velta fyrir sér í tengslum við yfirstandandi vinnu við endurskoðun á sveitarstjórnarlögum hvort ekki sé ástæða til að skýra þann ramma enn frekar er lítur bæði að lögbundnum verkefnum og jafnframt að þeim verkefnum sem sveitarfélög eiga hreinlega ekki að setja fjármuni í þegar fjárhagsstaðan er erfið og veltufé frá rekstri í lágmarki? Ég fullviss um að það megi koma í veg fyrir sóun fjármuna með slíkum ramma og styrkja reksturinn.

Hundfúlt eða alveg frábært?

Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun hjá sveitarfélögunum. Sú vinna miðar að stórum hluta af því að forgangsraða fjármunum, líta á reksturinn og sjá heildarmyndina. Sveitarstjórnarfulltrúar um allt land standa nú frammi fyrir því að horfast í augu við fjárhag sveitarfélagsins og sjá fram á takmarkað svigrúm til fjárfestinga og e.t.v gjaldskrárhækkanir til að mæta auknum kostnaði. Hundfúlt myndu flestir segja. Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er mikilvægur. En það er nokkuð ljóst að skipulag og rekstur sveitarfélaga hefur ekki þróast í takt við verkefnin og áskoranirnar ásamt þeim samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað á síðust áratugum með tilheyrandi kostnaði og þenslu í rekstrinum.

Ég trúi því að kröfur um aukinn aga í fjármálastjórn sveitarfélaga myndu hafa jákvæð áhrif á kjarnastarfsemina og auðvelda kjörnum fulltrúum að byggja upp góða grunnþjónustu í sínu sveitarfélagi.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. október 2022.

Categories
Greinar

Að vera manneskja

Deila grein

17/01/2022

Að vera manneskja

Ég hef átt mörg samtöl við dóttur mína sem er 15 ára um andlegt heilbrigði og líðan. Samtöl sem hafa leitt til umræðu um almenna líðan ungs fólks og hugmynda um væntinga til lífsins, hamingju og hvað það er að vera manneskja. Það er ótal margt sem hefur áhrif á börn og unglinga og þannig hefur það alltaf verið.

Sérstaklega hraðar og stöðugar breytingar hafa verið í umhverfi unglinga síðustu ár m.a. í tengslum við samfélagsmiðla og þróun samfélagsins. Áskoranirnar eru alltaf að verða flóknari og fjölbreyttari. Þrátt fyrir mikið flæði upplýsinga sem hefur vissulega sína jákvæðu hliðar þá er það mikil áskorun fyrir þennan hópa að sigta út og sortera áreitið og upplýsingarnar.

Ég leyfi mér að fullyrða að allar manneskjur glíma við á einhverjum tíma kvíða, hugsanavillur, depurð eða streitu. Þetta er einfaldlega partur af lífinu eins og fullorðið fólk þekkir. Því fannst mér mjög eðlilegt þegar dóttir mín spurði mig, af hverju það væri einblínt á kennslu og bækur um starfsemi líkamans sem snéri að vöðvum, hjarta, beinum, blóðrás o.þ.h í skólum en ekki því sem snéri að því, að vera manneskja ?

Það er eilífðar bras að vera manneskja það þekkjum við öll. Lífið gefur og tekur, vindurinn ekki alltaf mildur og dalirnir og topparnir misjafnlega krefjandi og margir.

Hvaða er í nesti í skólanum?

Það sem skiptir höfuð máli er, hvernig við erum í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem við mætum í lífinu og hvernig við getum stutt annað fólk. Undirbúning að þessu ferðalagi lífsins þarf að hefjast snemma og fræðslan þar að taka mið af þörfum og þroska unglinga.

Við verðum einfaldlega að huga því að endurskoða aðalnámsskrá grunnskóla að þessu leiti og nesta börnin okkar, færa þeim viðeigandi þekkingu til að hlúa að andlegri heilsu. Hjálpa þeim að þekkja þessar eðlilegu áskoranir sem við öll þurfum að takast á við, vinna með hugsanir sínar, sjálfsmynd og líðan.

Í aðalnámskrá grunnskóla er alls ekki vel tekið utanum þetta. Nauðsynlegt er að huga að þessu markvisst innan skólakerfisins til að koma til móts við þessa brýnu þörf. Kennsla á hugrænni atferlismeðferð HAM, væri sem dæmi aðferðarfræði sem mætti huga að því að kenna börnum að tileinka sér. Áherslur sem þessar munu án efa gagnast þeim út lífið.

Andlegt heilbrigði er ein grundvallar forsenda fyrir því að einstaklingurinn geti nýtt til framtíðar aðra færni og nám. Fræðsla sem þessi mun að sjálfsögðu ekki koma í staðinn fyrir sérfræðiaðstoð og stofnanir sem sinna alvarlegum veikindum og vanlíðan barna. Þetta er þó gríðarlega mikilvægur þáttur í langtíma markmiðum er lúta að heilbrigði einstaklingsins og þjóðarinnar til framtíðar.

Ég tel ekki ástæðu til að telja upp þær greinar, ræður og rit sem hafa fjallað um líðan barna og unglinga ásamt skorti á úrræðum og plássi í heilbrigðiskerfinu fyrir þennan hóp síðustu ár. Það eru mikil verðmæti sem felast í því að kenna unglingum snemma að tileinka sér aðferðir sem miða að því að hlúa að eigin líðan.

Líðan og andlegt heilbrigði barna og unglinga er viðfangsefni sem ætti að vera í forgangi í okkar samfélagi. Það þarf ekki að tíunda hverjar afleyðingarnar geta verið fyrir einstaklinginn, skólakerfið og samfélagið ef ekki er hugað að þessum málum. Að sama skapi er ávinningurinn af því að leggja áherslu á þessi mál augljós til framtíðar fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. janúar 2022.

Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Deila grein

16/09/2020

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Reynslan síðustu ár og ekki síst síðustu misseri hefur sýnt að mikilvægt er að skipulag sveitarfélaga sé byggt á traustum viðnámsþolnum sjálfbærum innviðum og svigrúm sé til að bregðast við efnahagslegum sveiflum og breytingum. Sveitarfélög þurfa að þola jafnt að takast á við vöxt og efnahagslegan samdrátt.

Það ástand sem nú ríkir í samfélaginu er vissulega óvenjulegt og hefur gríðarlega mikil áhrif á rekstur og afkomu flestallra sveitarfélaga í landinu og frávik eins og nú blasa við flestum sveitarfélögum kalla á nýjar áskoranir. En óháð því ástandi sem nú blasir við vegna Covid þá hef ég hef starfað í sveitarstjórn frá 2014 og kynnst því að rekstur og fjárfestingargeta sveitarfélagsins er af langstærstum hluta háð framlagi Jöfnunarsjóðs. Fjárhagurinn hefur því verið eins og blaðra síðustu ár sem ýmist er full af gasi eða loftlaus. Verkefni kjörinna fulltrúa hefur oftar en ekki afmarkast af því að takast á við það efnahagsástand sem ríkir á hverjum tíma. Mikilvægt að samkomulag verði gert um það að vinna með langtímasýn og raunsæi þegar kemur að því að leitast við að tryggja stöðugleika í rekstri sveitarfélaga sem gefur til lengri tíma svigrúm til eðlilegrar uppbyggingar og viðhalds á innviðum samfélagsins.

Verkefni og hlutverk sveitarfélaga hafa breyst gríðarlega mikið á síðustu áratugum og krafan um samkeppnishæfa þjónustu eykst frá ári til árs í öllum málaflokkum. Lífsgæði og gildi þeirra þátta sem snúa að lýðheilsu, aðstöðu til heilsueflingar, útivistar, afþreyingar og umhverfis sem styður við góða andlega og líkamlega heilsu hefur meira vægi í dag en nokkru sinni fyrr.

Við gerum þá kröfu að grunn- og leikskólabyggingar séu vel útbúnar og tryggi gott starfsumhverfi og þjónustu fyrir nemendur og starfsfólk, aðgengi að góðum íþróttamannvirkjum, öflugu menningar- og íþróttastarfi er hverju samfélagi lífsnauðsynlegt og mikilvægt er að jarðvegur sé fyrir nýsköpun á hverjum tíma.

Fólk vill búa í samfélagi þar sem vel er hugað að fegrun umhverfis og gott viðhald sé á götum og gangstéttum. Íbúar vilja að álögur séu lágar og kostnaður við dagvistun, íþrótta- og tómstundastarfs sé niðurgreiddur eins og kostur er til að gæta jafnræðis m.a.

Það er skilda okkar kjörinna fulltrúa að horfa til framtíðar og tryggja bæði stöðugleika og framfarir í þjónustu sveitarfélagsins og sjá til þess að uppbygging sé í takt við þarfir samtímans. Það eru nýjar og annarskonar áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir í nútíma samfélagi og margt hefur t.a.m. breyst á ekki lengri tíma en 20 árum. Ljóst er að það er, fyrir margra hluta sakir, ómögulegt fyrir fámenn sveitarfélög að standa undir þeim kröfum sem við gerum um aðstöðu, gæði og viðhald innviða í dag. Sveitarstjórnarstigið þarf einfaldlega að styrkjast á landsvísu til að hægt sé að koma til móts við þarfir samtímans.  Það er því nauðsynlegt að endurskoða bæði hlutverk Jöfnunarsjóðs og fjármögnun/aðkomu ríkisins á þeim verkefnum sem falla undir sveitarfélögin. Það er þó grundvallarhlutverk kjörinna fulltrúa að gæta sameiginlegra hagsmuna okkar allra og tryggja að fjármunum sé vel varið til að koma til móts við þarfir nútímans, óháð því hvort þeir koma frá ríkinu eða í gegnum útsvarstekjur.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 16. september 2020.