Categories
Greinar

Að vera manneskja

Deila grein

17/01/2022

Að vera manneskja

Ég hef átt mörg samtöl við dóttur mína sem er 15 ára um andlegt heilbrigði og líðan. Samtöl sem hafa leitt til umræðu um almenna líðan ungs fólks og hugmynda um væntinga til lífsins, hamingju og hvað það er að vera manneskja. Það er ótal margt sem hefur áhrif á börn og unglinga og þannig hefur það alltaf verið.

Sérstaklega hraðar og stöðugar breytingar hafa verið í umhverfi unglinga síðustu ár m.a. í tengslum við samfélagsmiðla og þróun samfélagsins. Áskoranirnar eru alltaf að verða flóknari og fjölbreyttari. Þrátt fyrir mikið flæði upplýsinga sem hefur vissulega sína jákvæðu hliðar þá er það mikil áskorun fyrir þennan hópa að sigta út og sortera áreitið og upplýsingarnar.

Ég leyfi mér að fullyrða að allar manneskjur glíma við á einhverjum tíma kvíða, hugsanavillur, depurð eða streitu. Þetta er einfaldlega partur af lífinu eins og fullorðið fólk þekkir. Því fannst mér mjög eðlilegt þegar dóttir mín spurði mig, af hverju það væri einblínt á kennslu og bækur um starfsemi líkamans sem snéri að vöðvum, hjarta, beinum, blóðrás o.þ.h í skólum en ekki því sem snéri að því, að vera manneskja ?

Það er eilífðar bras að vera manneskja það þekkjum við öll. Lífið gefur og tekur, vindurinn ekki alltaf mildur og dalirnir og topparnir misjafnlega krefjandi og margir.

Hvaða er í nesti í skólanum?

Það sem skiptir höfuð máli er, hvernig við erum í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem við mætum í lífinu og hvernig við getum stutt annað fólk. Undirbúning að þessu ferðalagi lífsins þarf að hefjast snemma og fræðslan þar að taka mið af þörfum og þroska unglinga.

Við verðum einfaldlega að huga því að endurskoða aðalnámsskrá grunnskóla að þessu leiti og nesta börnin okkar, færa þeim viðeigandi þekkingu til að hlúa að andlegri heilsu. Hjálpa þeim að þekkja þessar eðlilegu áskoranir sem við öll þurfum að takast á við, vinna með hugsanir sínar, sjálfsmynd og líðan.

Í aðalnámskrá grunnskóla er alls ekki vel tekið utanum þetta. Nauðsynlegt er að huga að þessu markvisst innan skólakerfisins til að koma til móts við þessa brýnu þörf. Kennsla á hugrænni atferlismeðferð HAM, væri sem dæmi aðferðarfræði sem mætti huga að því að kenna börnum að tileinka sér. Áherslur sem þessar munu án efa gagnast þeim út lífið.

Andlegt heilbrigði er ein grundvallar forsenda fyrir því að einstaklingurinn geti nýtt til framtíðar aðra færni og nám. Fræðsla sem þessi mun að sjálfsögðu ekki koma í staðinn fyrir sérfræðiaðstoð og stofnanir sem sinna alvarlegum veikindum og vanlíðan barna. Þetta er þó gríðarlega mikilvægur þáttur í langtíma markmiðum er lúta að heilbrigði einstaklingsins og þjóðarinnar til framtíðar.

Ég tel ekki ástæðu til að telja upp þær greinar, ræður og rit sem hafa fjallað um líðan barna og unglinga ásamt skorti á úrræðum og plássi í heilbrigðiskerfinu fyrir þennan hóp síðustu ár. Það eru mikil verðmæti sem felast í því að kenna unglingum snemma að tileinka sér aðferðir sem miða að því að hlúa að eigin líðan.

Líðan og andlegt heilbrigði barna og unglinga er viðfangsefni sem ætti að vera í forgangi í okkar samfélagi. Það þarf ekki að tíunda hverjar afleyðingarnar geta verið fyrir einstaklinginn, skólakerfið og samfélagið ef ekki er hugað að þessum málum. Að sama skapi er ávinningurinn af því að leggja áherslu á þessi mál augljós til framtíðar fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. janúar 2022.

Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Deila grein

16/09/2020

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Reynslan síðustu ár og ekki síst síðustu misseri hefur sýnt að mikilvægt er að skipulag sveitarfélaga sé byggt á traustum viðnámsþolnum sjálfbærum innviðum og svigrúm sé til að bregðast við efnahagslegum sveiflum og breytingum. Sveitarfélög þurfa að þola jafnt að takast á við vöxt og efnahagslegan samdrátt.

Það ástand sem nú ríkir í samfélaginu er vissulega óvenjulegt og hefur gríðarlega mikil áhrif á rekstur og afkomu flestallra sveitarfélaga í landinu og frávik eins og nú blasa við flestum sveitarfélögum kalla á nýjar áskoranir. En óháð því ástandi sem nú blasir við vegna Covid þá hef ég hef starfað í sveitarstjórn frá 2014 og kynnst því að rekstur og fjárfestingargeta sveitarfélagsins er af langstærstum hluta háð framlagi Jöfnunarsjóðs. Fjárhagurinn hefur því verið eins og blaðra síðustu ár sem ýmist er full af gasi eða loftlaus. Verkefni kjörinna fulltrúa hefur oftar en ekki afmarkast af því að takast á við það efnahagsástand sem ríkir á hverjum tíma. Mikilvægt að samkomulag verði gert um það að vinna með langtímasýn og raunsæi þegar kemur að því að leitast við að tryggja stöðugleika í rekstri sveitarfélaga sem gefur til lengri tíma svigrúm til eðlilegrar uppbyggingar og viðhalds á innviðum samfélagsins.

Verkefni og hlutverk sveitarfélaga hafa breyst gríðarlega mikið á síðustu áratugum og krafan um samkeppnishæfa þjónustu eykst frá ári til árs í öllum málaflokkum. Lífsgæði og gildi þeirra þátta sem snúa að lýðheilsu, aðstöðu til heilsueflingar, útivistar, afþreyingar og umhverfis sem styður við góða andlega og líkamlega heilsu hefur meira vægi í dag en nokkru sinni fyrr.

Við gerum þá kröfu að grunn- og leikskólabyggingar séu vel útbúnar og tryggi gott starfsumhverfi og þjónustu fyrir nemendur og starfsfólk, aðgengi að góðum íþróttamannvirkjum, öflugu menningar- og íþróttastarfi er hverju samfélagi lífsnauðsynlegt og mikilvægt er að jarðvegur sé fyrir nýsköpun á hverjum tíma.

Fólk vill búa í samfélagi þar sem vel er hugað að fegrun umhverfis og gott viðhald sé á götum og gangstéttum. Íbúar vilja að álögur séu lágar og kostnaður við dagvistun, íþrótta- og tómstundastarfs sé niðurgreiddur eins og kostur er til að gæta jafnræðis m.a.

Það er skilda okkar kjörinna fulltrúa að horfa til framtíðar og tryggja bæði stöðugleika og framfarir í þjónustu sveitarfélagsins og sjá til þess að uppbygging sé í takt við þarfir samtímans. Það eru nýjar og annarskonar áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir í nútíma samfélagi og margt hefur t.a.m. breyst á ekki lengri tíma en 20 árum. Ljóst er að það er, fyrir margra hluta sakir, ómögulegt fyrir fámenn sveitarfélög að standa undir þeim kröfum sem við gerum um aðstöðu, gæði og viðhald innviða í dag. Sveitarstjórnarstigið þarf einfaldlega að styrkjast á landsvísu til að hægt sé að koma til móts við þarfir samtímans.  Það er því nauðsynlegt að endurskoða bæði hlutverk Jöfnunarsjóðs og fjármögnun/aðkomu ríkisins á þeim verkefnum sem falla undir sveitarfélögin. Það er þó grundvallarhlutverk kjörinna fulltrúa að gæta sameiginlegra hagsmuna okkar allra og tryggja að fjármunum sé vel varið til að koma til móts við þarfir nútímans, óháð því hvort þeir koma frá ríkinu eða í gegnum útsvarstekjur.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 16. september 2020.