Categories
Fréttir Greinar

Kvennakraftur í Framsókn

Deila grein

29/12/2023

Kvennakraftur í Framsókn

Það er ánægjulegt að líta yfir árið sem senn er að líða og sjá og finna hve hópur Kvenna í Framsókn er vel skipaður og öflugur. Fjölbreytt fræðslukvöld og viðburðir á vegum félagsins á árinu 2023 hafa verið vel sóttir, gagnlegir og samveran gefandi. Mikil virkni og kraftur er meðal Kvenna í Framsókn og aldrei hafa fleiri konur leitt lista flokksins og setið í sveitarstjórnum á landsvísu. Þennan góða árangur kvenna sem náðst hefur má þakka góðri liðsheild og trausti. Við vitum að framlag okkar og frammistaða muni leiða til árangurs fyrir heildina og það skiptir höfuðmáli.

Sameiginleg markmið

Hvati kvenna til að starfa innan Framsóknar er sprottinn af áhuga og eldmóð fyrir velferð fólks, betri lífskjörum og öflugu atvinnulífi í samfélögum um allt land. Konur í Framsókn starfa á ólíkum vettvangi um allt land og það er ánægjulegt að verða vitni að því hversu vakandi þær eru gagnvart ólíkum hugmyndum og sjónarmiðum og skilja mikilvægi þess að geta sett sig í spor annara. Við hlustum og vinnum málin áfram með það að markmiði að gera gott samfélag betra fyrir alla. Öll höfum við eitthvað fram að færa og þannig höfum við í gegnum tíðina náð sameiginlegum markmiðum og skapað traust. Getan til þess að hlusta og sjá að við erum ekki einsleitur hópur er gríðarlega mikilvægur þáttur í stjórnmálastarfi.

Hlutdeild kvenna í stjórnmálum er enn aðeins um 20% á heimsvísu og örfáir þjóðhöfðingjar heims eru konur. Þrátt fyrir að umhverfi stjórnmálanna sé almennt talið karllægt þá höfum við náð ákveðnum árangri með að brjótast úr því umhverfi hér á landi og mikilvægt er að okkur fari ekki aftur í þeim efnum. Því skiptir máli að raddir kvenna heyrist alla daga. Þá er reynsla kvenna úr stjórnmálum jafnframt besti vitnisburðurinn um stöðuna hér á landi og hvatning og innblástur fyrir næstu kynslóðir kvenna. Sérhver kona sem eitt sinn var stúlka kannast við að hafa speglaði sig í kvenfyrirmyndum. Það eru fyrirmyndirnar sem geta skipt sköpum þegar stígið er inn á svið stjórnmálanna. Heilsteyptar fyrirmyndir með gott siðferði og dómgreind skapa jarðveg fyrir komandi kynslóðir kvenna.

Það búa ekki allir við sömu forréttindi

Einn eftirminnilegasti dagur ársin var 24. október s.l. þegar um hundraðþúsund manns mættu á Arnarhól og samkomur um allt land til þess að taka þátt í Kvennaverkfallsdeginum. Þar varð þjóðinn og heimurinn vitni að stórkostlegri samstöðu fyrir réttlátu samfélagi á baráttudegi fyrir betra samfélagi. Undirrituð telur afar mikilvægt að fólk í forréttindastöðu gleymi ekki mikilvægi baráttunnar því henni er ekki enn lokið. Enn eru konur sem þurfa að sæta óréttlæti, kynbundnu ofbeldi og smánun á hverjum degi. Líkt og kom fram í kynningu fyrir Kvennaverkfallið þá er staðan enn að „Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið “ Hjörtu okkar slógu í takt þann 24. október 2023. Þvílík stemmning og baráttuandi, höldum áfram að gera betur.

Hvetjum konur til þátttöku í stjórnmálum

Síðust ár hefur þeim konum fjölgað sem hafa gengið til liðs við Framsókn. Konur sem hafa skynjað samvinnukraftinn, viljann og framtakssemina sem einkennir Framsókn. Konur sem hafa upplifað og vita að rödd þeirra hefur áhrif. Konur í Framsókn takk fyrir ykkar framlag, samtölin, innblásturinn og samveruna á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur öllum farsældar á komandi ári og hlakka til að ganga inn í nýtt ár með Framsókn.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Kvenna í Framsókn.