Categories
Greinar

Áfram veginn í Borgarbyggð – sveitarfélag í sókn

Deila grein

09/12/2022

Áfram veginn í Borgarbyggð – sveitarfélag í sókn

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar ásamt áætlun um fjárheimildir fyrir árin 2024 til 2026 var samþykkt í sveitarstjórn miðvikudaginn 7. desember. Í þeirri áætlun sem nú hefur verið samþykkt var lögð höfuð áhersla á undirbyggja sókn í sveitarfélaginu. Stöðugt framboð á nýjum lóðum bæði fyrir almenning og atvinnulíf, endurnýjun grunnskóla, stækkun leikskóla, uppbygging íþróttamannvirkja og gatnagerð rísa hæst í þeim áformum. Allt eru þetta fjárfestingar sem eru til þess fallnar að styrkja lífskjör og bæta búsetuskilyrði í Borgarbyggð.

Fjárhagsstaða Borgarbyggðar er sterk en afgangur af rekstri er lítill. Þó freistandi hafi verið að lækka álögur á íbúa í fjárhagsáætlun fyrir 2023 varð sú ákvörðun ofan á að treysta afkomu og fjárhagsgrunn sveitarfélagsins. Þar vegur þungt að framundan er veruleg fjárfestingarþörf og fyrir liggja metnaðarfull uppbyggingaráform sem góð samstaða hefur verið um. Framundan er vinna þar sem allt kapp verður lagt á að tekjur hækki umfram kostnað og hugað að einföldun bæði rekstrar og eignsafns. Þá er mikilvægt að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til hagræðingar og skynsamlegrar ráðstöfunar fjármuna. Ljóst er að til að viðhalda jafnvægi í rekstri næstu árin samhliða áformum um fjárfestingar er nauðsynlegt að standa vörð um tekjustofna sveitarfélagsins.

Verkefnið framundan er að treysta og einfalda reksturinn

Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er viðkvæmt og rekstrarkostnaður eykst frá ári til árs. Laun og launatengd gjöld eru langstærsti kostnaðurliðurinn í rekstri sveitarfélagsins. Á yfirstandandi ári má ætla að um 56,4% af öllum tekjum sveitarfélagsins hafi verið ráðstafað í laun.

Krafan um gæði þjónustu eykst í kjarnastarfsemi sveitarfélagsins og mikilvægt er að sveitarfélagið hafi getu til þess að standast þær kröfur sem bæði íbúar og starfólk gerir til umhverfisins. Svigrúm og geta sveitarfélagsins til að sinna verkefnum og viðhaldi sem falla ekki undir kjarnastarfsemi og lögbundna þjónustu er ekki mikil. Framsóknarflokkurinn væntir góðs samstarfs innan sveitarstjórnar og við íbúa um það verkefni að treysta og einfalda rekstur sveitarfélagsins með áherslu á kjarnastarfsemi og grunnþjónustu. Framsækni er nauðsynleg til að takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Mikilvægt er að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvarðan með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Þannig höldum við áfram að bæta þjónustu við íbúa en getum um leið fjárfest í auknum lífsgæðum.

Gatnagerð og hönnun árið 2023

Þá er öllum ljóst að lítið má út af bregða varðandi afkomu sveitarfélagsins til að draga verði verulega úr fjárfestingum. Á sama hátt má segja að ef vel tekst til í rekstri þá geti skapast svigrúm til að taka enn stærri skref í fjárfestingum og lækka álögur á íbúa. Fjárfestingar þurfa að taka mið af aðstæðum á fjármagnsmarkaði og vinnumarkaði. Miðað við þá áætlun sem nú liggur fyrir fer skuldaviðmið samkvæmt reglugerð hæst í 112% í lok tímabilsins en það stendur nú í kringum 65%. Samkvæmt viðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga skal það vera undir 150%.

Ef þau áform sem lagt er upp með ganga eftir verður rekstur A og B hluta sveitarfélagsins hallalaus á árinu 2024 en lítilsháttar halli árin 2025 og 2026.

Aðstæður í dag eru ekki hagfelldar til að ráðast í verulega lántöku. Áform sveitarfélagsins taka mið af því að árið 2023 og 2024 verði lagt kapp á að ljúka grunnvinnu svo ráðast megi í fjárfestingar þegar aðstæður skapast. Mikilvægt er að vanda vel til allrar grunnvinnu, hönnunar og skipulags en það er ein aðal forsenda fyrir því að kostnaðaráætlanir standist. Það þýðir samt ekki að mikilvægum verkefnum verði slegið á frest og á árinu 2023 en gert er ráð fyrir fjárfestingum og framkvæmdum fyrir 566 m.kr. Þar er helst að nefna að 333 m.kr verður varið í húsnæðismál og 226 m.kr. gatna- og stígagerð.

Næg verkefni bíða og inni í fjárfestingaráætlun þessa kjörtímabils eru meðal annars stækkun leikskólans Uglukletts, endurnýjun Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum, bygging knatthúss í Borgarnesi, endurbætur slökkvistöðvar, gatnagerð, fyrsti áfangi að stækkun íþróttahúss ásamt því sem jafnt og þétt verður viðhaldið framboði á lóðum.

Sú áætlun sem nú hefur verið samþykkt var unninn í þéttu og góðu samstarfi allra fulltrúa í sveitarstjórn. Vinna sem hefur einkennst af mikilli samstöðu, góðu samtali og sameiginlegum vilja til að stefna á uppbyggingu og vöxt í sveitarfélaginu. Fulltrúar Framsóknar í sveitarstjórn eru bjarstýnir og fullir tilhlökkunar að takast á við fjölbreytt og spennandi verkefni sem miða öll að því að gera gott samfélag enn betra.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknar í Borgarbyggð

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 8. desember 2022.