Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Deila grein

28/09/2018

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Sveitarstjórnarfólk um allt land er í óða önn að leggja línur fyrir starfsemi síns sveitarfélags á yfirstandandi kjörtímabili. Næstu fjögur ár verða notuð til að búa í haginn og styrkja þjónustu við íbúanna, skapa grundvöll fyrir bætt lífsskilyrði og búsetu hvar sem er á landinu. Takast á við gamlar sem nýjar áskoranir.

Áskoranir
Og þessar áskoranir eru margar og sumar flóknar. Íbúar gera eðlilega kröfu um góða þjónustu og góðu mannlífi. Rafræn stjórnsýsla ryður sér til rúms og fjórða iðnbyltingin er hafin – fer á ógnarhraða þar sem gervigreind, sjálfkeyrandi bílar, drónar verða brátt hluti af daglegu lífi. Þá leggur ný löggjöf auknar kröfur á stjórnsýslu sveitarfélaga, eins og ný sveitarstjórnarlög, upplýsingalög og nú síðast lög um persónuvernd.

Stærð og geta sveitarfélaganna
Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að mörg sveitarfélög eru fámenn. Sú spurning gerist áleitnari hvort þau séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við umfangsmiklar áskoranir. Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en eittþúsund íbúa, það er að segja 39 af 72!

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem nú stendur yfir á Akureyri, setti ég fram tillögu um að mótuð yrði sameiginleg stefna um að fækka og efla sveitarfélögin. Það mætti t.d. byrja á átaki þar sem sveitarfélög hafa tiltekin tíma, segjum fjögur til átta ár, til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum. Samhliða yrði fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóð sveitarfélaga við sameiningar og til skuldalækkunar stóraukin. Ég gæti séð það fyrir mér að um 15 milljarðar færu í slíkan stuðning á tímabilinu.

Eftir að þessu tímabili lyki tæki við ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi.

Ég veit að sjónarmiðin verða ólík og áherslurnar mismunandi. En verkefnið er skýrt – að móta eina stefnu fyrir íslensk sveitarfélög, fyrir framtíðina. Stærð sveitafélaga og geta þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og styðja við umbreytingar og framþróun samfélagsins verður hluti af þeirri stefnumörkun.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. september 2018.