Síðastliðna daga hefur sprottið upp umræða um fækkun sýslumannsembætta hér á landi. Talað er um að sameina ákveðin embætti í eitt og jafnvel að fækka sýslumönnum í einungis einn sýslumann, sem myndi hafa allt Ísland sem sitt umdæmi. Þetta er áhyggjuefni þar sem sýslumenn sinna veigamiklu hlutverki innan sinna umdæma. Þeir þjóna sínu nærsamfélagi í mikilvægum og persónulegum málum íbúa þess hvort sem það eru þinglýsingar, gjaldþrot eða mikilvæg málefni fjölskyldna. Af þessu er augljóst að mikilvægi þess að sýslumenn séu innan handar er óumdeilt. Sýslumenn eru umboðsmenn hins opinbera í héraði. Ef þau áform sem búið er að boða yrðu að veruleika þá verður búið að eyða grundvallarhlutverki þeirra.
Haft er eftir formanni Félags sýslumanna að dómsmálaráðuneytið hafi fundað með sýslumönnum um málið og að efasemdir séu um ágæti þess innan þeirra raða. Skiljanlega, enda er nauðsynlegt að sýslumenn séu til staðar í nærumhverfinu og hafi einhverja tengingu við samfélagið. Með brotthvarfi þeirra úr umdæminu eyðist sú tenging, eðli málsins samkvæmt.
Vissulega bjóða tækninýjungar fjórðu iðnbyltingarinnar upp á nýjungar, tækifæri og uppfærslu ferla og aðferða. Þó er augljóst að áform um að fækka sýslumannsembættum töluvert brjóta í bága við byggðasjónarmið, en við höfum skuldbundið okkur til að vinna í þágu þeirra. Fækkun embættanna hefur í för með sér neikvæð áhrif á mörg byggðarlög, þá helst utan höfuðborgarsvæðisins. Ásamt því er augljóst að atvinnutækifærum í fámennari byggðum fækkar, en það er gömul saga og ný að opinber störf hverfi af landsbyggðinni í óþökk íbúa. Boðað hefur verið að með þessu verði störfum og verkefnum sýslumanna fjölgað, sem er af hinu góða, enda höfum við í Framsókn verið ötulir talsmenn fjölgunar opinberra starfa á landsbyggðinni. Það færi betur á því að halda sýslumönnum og núverandi umdæmamörkum og færa þau störf sem áætlanir eru upp um að flytja í kjölfar breytinganna til núverandi embætta og þar með styrkja þær mikilvægu stjórnsýslueiningar sem sýslumannsembættin eru í dag.
Fækkun sýslumannsembætta þvert yfir landið mun ekki verða með mínu samþykki. Hún fer gegn þeim markmiðum sem sett voru fram í stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Fækkunin yrði mikið högg innan ýmissa byggða þvert yfir landið. Rökin fyrir henni halda ekki vatni eins og staðan er í dag.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.