Categories
Greinar

Tækifæri og framtíðarsýn

Deila grein

15/07/2013

Tækifæri og framtíðarsýn

VH-e1364902621263Mikið hefur verið rætt og skrifað um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stofna til sérstaks hagræðingarhóps á vegum ráðherranefndar um ríkisfjármál. Hópurinn skal leggja til aðgerðir til þess að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í rekstri stofnana ríkisins auk þess sem hópurinn skuli fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins s.s. fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna. Hagræðingahópurinn á að starfa út allt kjörtímabilið.

Það vekur undrun mína hversu hart vinstri menn bregðast við þessu verklagi sem ríkisstjórnin leggur til. Því er fundið allt til foráttu og talað niður sem aldrei fyrr. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra landsmanna að hafa ríkissjóð vel rekinn. Megin markmið ríkisstjórnarinnar er að forgangsraða og koma atvinnulífinu af stað. Í því felast feikileg tækifæri ef rétt er staðið að málum. Er ríkisstjórnin síður en svo að feta nýjar brautir í þeim efnum. Ef litið er til Bretlands þá hefur George Osborne fjármálaráðherra boðað mikinn niðurskurð á ríkisútgjöldum til að draga úr hallarekstri hins opinbera þar í landi. Hlífa á grunnstoðunum þar eins og t.d. heilbrigðis – og menntakerfi en auka á fjármagn til uppbyggingar innviða samfélagsins.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar ég lét hafa eftir mér að reka þyrfti íslenska ríkið eins og stórt fyrirtæki. Ríkisrekstur er ekkert annað útgjöld og innkoma eins og í fyrirtækja – og heimilisrekstri og útkoman þarf að vera réttu megin við núllið. Nú er staða ríkissjóðs auk þess þannig að rekstrarafgangur þarf að vera mikill á komandi árum. Stórir gjaldagar eru framundan á erlendum lánum og því þarf að huga að uppbyggingu framleiðslugreina sem skila okkur erlendum gjaldeyri til að hægt sé að standa við þær skuldbindingar sem ráðist hefur verið í. Reikningsdæmið er í raun sáraeinfalt. Við Íslendingar eigum gnótt tækifæra í viðskiptalífi heimsins ef rétt er haldið á spilunum.

Að mínu mati er rétti tíminn núna til þess að endurskoða allt er snýr að ríkisútgjöldum og draga saman þar sem hægt er að hagræða og spara án teljandi sársauka. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði ekki kjark til að fara í þessa vinnu á síðasta kjörtímabili og bætti enn frekar ofan á ríkisútgjöld með stofnun nýrra ríkisstofnana, nefnda og óábyrgra ákvarðana. Skoða þarf nefndir, stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki sem ríkið á hlut í, ríkisábyrgðir og gjalddaga lána í einni heild. Víðsvegar er hægt að finna verkefni og starfsemi sem er á fleiri en einni hendi og hæglega væri hægt að renna saman. Það eiga ekki margir að vinna sömu verkin og við eigum ekki sífellt að þurfa að vera að finna upp hjólið. Við skulum líta til reynslu annarra þjóða í hagræðingu og niðurskurði. Við skulum líta á þessi verkefni sem tækifæri fyrir þjóðina því það skilar okkur fyrr í mark. Neikvæðni og barlómur skilar engu – þetta verkefni er óumflýjanlegt og því fyrr sem ráðist verður að rót vandans – því fyrr kemst fullvalda Ísland á ný í samkeppnisstöðu við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Eins og fram hefur komið þá liggur allt undir í þessu verkefni. Göngum brött og brosandi til verka því kjarkur er allt sem þarf.

Vigdís Hauksdóttir

Grein í DV 15. júlí 2013