Categories
Greinar

Tækifæri vegna styttingar meðalnámstíma til stúdentsprófs

Deila grein

29/05/2015

Tækifæri vegna styttingar meðalnámstíma til stúdentsprófs

líneikÞað er fagnaðarefni hversu góður árangur er að nást við að stytta meðalnámstíma til stúdentsprófs úr 4 árum í 3. Það er löngu tímabært því í allt of mörg ár hefur tími margra nemenda farið í að endurtaka námsefni á mörkum skólastiga. Breytingin sem verður við styttingu meðalnámstíma á ekki að draga úr sveigjanleika í námstíma eða námi. Í breytingunni felast þvert á móti tækifæri til að auka á einstaklingsmiðun og möguleika nemenda til að stýra sínum hraða, jafnframt því að tryggja námsleiðir fyrir alla.

Það er ljóst að við stöndum á tímamótum sem birtist m.a. í að nemendum á framhaldsskólastigi fækkar, bæði vegna styttingar námstíma og fækkunar fólks á framhaldsskólaaldri.  Á þessum tímamótum eigum við að nýta tækifærið til að styrkja skólastarf með hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Í nokkrum skólum á landsbyggðinni er fyrirsjáanlegt að nemendafjöldi fari niður fyrir þá stærð sem okkur er tamt að líta á sem lágmarks stærð framhaldsskóla.

Sameining er ekki eina leiðin

Gjarnan hefur verið litið á sameiningu skóla sem einu mögulegu viðbrögðin við mikilli fækkun nemenda.  Sameining er hins vegar ekki almenna lausnin á verkefninu sem við blasir. Minnstu skólarnir á landsbyggðinni hafa á síðustu árum þróað dreifnám, kennslu þar sem sérhæfður kennari á einum stað sér um kennslu í fleiri en einum skóla. Uppúr því er sprottinn Fjarmenntaskólinn, skóli sem eykur möguleika minni skólanna til að bjóða fjölbreytt nám og þar eru einnig ýmsar starfsnámsbrautir í boði s.s sjúkra- og félagsliðanám.  Margir af stærri framhaldsskólum landsins bjóða upp á öflugt dreifnám bæði sumar og vetur. Þá er töluvert um að minni grunnskólar á landsbyggðinni nýti dreifnám til að auka valkosti eldri nemenda sem eru tilbúnir að hefja framhaldsskólanám áður en grunnskóla lýkur.  Á grunnskólastigi hefur verið boðið upp á dreifnám fyrir tvítyngda nemendur í móðurmáli en fjölga þyrfti tungumálum í boði.

Möguleikana sem felast í dreifnámi má nýta enn betur til að auka sveigjanleika og einstaklingsmiðun náms. Við höfum ekki efni á öðru í dreifbýlu landi. Gæði dreifnáms geta vissulega verið misjöfn ekki síður en staðbundins nám, en á síðustu 20 árum hefur safnast upp mikil þekking og reynsla auk þess sem tækninni fleygir stöðugt fram.  Við verðum að byggja ofan á þessa reynslu, setja skýr markmið og gera kröfur um gæði.

Samstaf ólíkra aðila

Á þéttbýlli svæðum gætu skapast tækifæri til sameiningar skóla, en á dreifbýlli svæðum þarf að horfa til annars konar samstarfs og þá ekki eingöngu við aðra framhaldsskóla, s.s. við grunnskóla, skólaskrifstofur, símenntunarmiðstöðvar, þekkingarsetur, vinnumiðlanir, starfsendurhæfingu eða heilbrigðisstofnanir.  Það getur vissulega verðir flóknara að koma á samstarfi ólíkra stofnanna og málaflokka.  Slíkt samstarf getur krafist þess að stofnanir sem heyra undir mismunandi ráðuneyti og sveitarfélög þurfi að vinna saman, en það er úrlausnarefni sem þarf að nálgast með opnum huga.

Skynsamleg nálgun væri að horfa á hvaða stofnanir á svæðinu þurfa á tiltekinni þekkingu að halda, s.s. þekkingu námsráðgjafa eða sálfræðings. Í kjölfarið væri hægt að móta aðlaðandi starf og starfsaðstöðu í samstarfi nokkurra stofnana, til að þekkingin yrði til staðar innan samfélagins þrátt fyrir að ekki sé grundvöllur fyrir fullu starfi í hverri stofnun. Með þeim hætti yrði til starf á svæðinu í stað þess að þjónustunni yrði sinnt frá stærri stofnunum í landshlutanum eða jafnvel miðlægri stofnun utan hans.

Það er líka tímabært að taka umræðuna um meira samstarf grunnskóla og framhaldsskóla, samnýtingu stoðþjónustu og kennara.  Nú þegar tilteknir námsþættir sem áður voru á framhaldsskólastigi eru komnir í grunnskólann ættu kennarar að geta unnið á báðum skólastigum eins og nemendur.

Samráð en ekki valdboð

Við val á leiðum sem henta mismunandi skólastofnunum þarf að virkja sem flesta og þar ætti menntamálaráðuneytið, sem ber ábyrgð á málflokknum, að vera leiðandi.

Samráð á ekki að byggja á fundum þar sem fulltrúar yfirvalda mæta og viðra sínar hugmyndir, samráð snýst um að hagsmunaðilum sé falið að koma með tillögur til úrlausnar á verkefninu sem fyrir liggur.  Yfirvöld þurfa svo að taka við tillögunum og vinna með þær og velja leiðir sem síðan eru unnar áfram í samstarfi.  Í framhaldsskólalögum er aðkoma hagsmunaaðila  tryggð í gegnum skólanefndir, skólaráð, foreldraráð og nemendafélög, auk þess er hlutverk sveitarfélaga og stjórnmálmanna mikilvægt.

Samráð þarf snúast um möguleikana í stöðunni og sameiginlega framtíðarsýn en má ekki verða einstefna hugmynda.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 29. maí 2015.