Breytingum í átt til grænna atvinnulífs og umhverfisvænna samgangna fylgir margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Þótt mest sé horft á loftslagsmálin þarf vart að tíunda hver gjaldeyrissparnaðurinn verður af því að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Fyrirséð er að á næstu árum þurfum við að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar atvinnustarfsemi og grænna samfélags.
En ef allt þetta á að verða að veruleika þarf að framleiða alla þessa grænu orku. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að útvega aukna græna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu kostina. Við megum ekki vera feimin við að ræða málin, spyrja erfiðra spurninga og taka fumlausar ákvarðanir til hagsbóta fyrir umhverfið og komandi kynslóðir. Hér á Íslandi eru vatns-, jarðvarma- og vindorka þeir möguleikar sem vænlegastir eru.
Orkan er ein stærsta auðlind Íslendinga og hana þarf að nýta. En ef við ætlum að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þá þurfum við að afla hennar. Það liggur í augum uppi. Íslendingar hafa sýnt það í gegnum árin að við höfum þekkingu og reynslu í að virkja náttúruna og á sama tíma umgangast landið okkar og jörðina af virðingu og varfærni. Nú þarf að ræða hvar, hvernig og hversu hratt.
Traustir orkuinnviðir um land allt eru lykillinn að árangri í loftslagsmálum og þeirri grænu umbreytingu í atvinnu og samgöngumálum sem er í burðarliðnum. Það er mikilvægt að hugsa og nálgast málin af skynsemi, vega og meta þá kosti sem eru í boði og taka ákvarðanir sem koma sér vel fyrir framtíðarkynslóðir í landinu til lengri tíma.
Ingibjörg Isaksen.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. september 2021.