Í upphafi árs 2020 fóru að berast fréttir af því að heimsfaraldur væri yfirvofandi vegna skæðrar veiru. Nokkuð sem við áttum svo sannarlega ekki von á. Síðan eru liðin tvö ár. Það er óhætt að segja að við höfum farið hæðir og lægðir í faraldrinum. Nú erum við stödd á enn einum toppnum, sem virðist vera og er vonandi hæstur en ekki verstur. Stjórnvöld fengu óvænt það öfluga verkefni í fangið að bregðast við afleiðingum faraldursins með margvíslegum hætti. Í upphafi var tekin sú skynsamlega ákvörðun að fylgja sérfræðingum í sóttvarnaaðgerðum, það var okkar gæfa.
Réttar sóttvarnaaðgerðir
Við sjáum það nú að með því að fylgja sérfræðingum náðum við að halda heilbrigðiskerfinu það öflugu að það hélt í við veiruskömmina. Ég ætla ekki að leyfa mér að hugsa til þess hvernig ástandið væri ef okkur hefði ekki tekist það. Í því samhengi getum við litið til annarra þjóða sem börðust í bökkum þrátt fyrir öflugt heilbrigðiskerfi. Í Bandaríkjunum voru á þessu tímabili fleiri líkgeymslugámar fyrir utan sjúkrahús í New York en bílar starfsmanna. Fólk hér á landi gerir sér kannski ekki almennt grein fyrir því að heilbrigðisstofnanir víða um Ísland voru með plön um hvar ætti að geyma líkin. Við getum þakkað fyrir að sú sviðsmynd raungerðist ekki.
Eitt það mikilvægasta er að okkur hefur tekist að halda skólum landsins opnum. Sérfræðingar eru þegar farnir að tala um að langvarandi sóttkví og aðskilnaður frá skóla geti haft neikvæð áhrif á námsárangur barna og andlega líðan. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim börnum víða erlendis sem voru skikkuð heim í marga mánuði, og eru jafnvel nú, tveimur árum seinna, að sækja skóla takmarkað?
Aðgerðir á aðgerðum ofan
Veiran hefur boðið upp á margvísleg verkefni og enn blæs úr öllum áttum. Stjórnvöld hafa borið gæfu til að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur hrundið af stað. Stjórnvöld hafa þurft að hugsa hratt og bregðast við, þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa lagt fram telja á þriðja tug. Þær fela í sér stuðning við rekstraraðila vegna ófyrirséðs tekjufalls, aðgerðir til að örva eftirspurn, aðgerðir til að viðhalda ráðningarsambandi og skapa störf, aðgerðir til að varðveita kaupmátt heimila og ekki síst verndun viðkvæmra hópa.
Í haust var lagt mat á árangur af þessum aðgerðum. Var það mat sérfræðings að hagstæð skuldastaða ríkissjóðs, hagkvæmt samspil peningastefnu og ríkisfjármála og aðgerðir stjórnvalda hefðu mildað áhrif heimsfaraldursins á efnahagslífið sem endurspeglast í hratt minnkandi atvinnuleysi.
Jakahlaup
Að standa í stafni og taka ákvarðanir í þessu ástandi má líkja við jakahlaup, erfitt er að taka langtímaákvarðanir. Þegar fótunum er náð á einn jaka þarf að ákvarða hvaða jaka skal stefnt á næst. Það eru næg verkefni fram undan að fást við eftirköst veirunnar, geðheilsu þjóðarinnar og áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs og eflingu samfélagsins.
Við erum orðin lúin eftir þennan tíma. En við verðum að halda áfram veginn ásamt því að halda okkur við skynsamlegar sóttvarnaaðgerðir og árangursríkar efnahagslegar aðgerðir. Við megum heldur ekki gleyma því að brosa. Það vorar og veiran gefur eftir, það er ekki í boði að gefast upp núna.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.