Categories
Greinar

Það vorar og veiran veikist

Deila grein

22/01/2022

Það vorar og veiran veikist

Í upp­hafi árs 2020 fóru að ber­ast frétt­ir af því að heims­far­ald­ur væri yf­ir­vof­andi vegna skæðrar veiru. Nokkuð sem við átt­um svo sann­ar­lega ekki von á. Síðan eru liðin tvö ár. Það er óhætt að segja að við höf­um farið hæðir og lægðir í far­aldr­in­um. Nú erum við stödd á enn ein­um toppn­um, sem virðist vera og er von­andi hæst­ur en ekki verst­ur. Stjórn­völd fengu óvænt það öfl­uga verk­efni í fangið að bregðast við af­leiðing­um far­ald­urs­ins með marg­vís­leg­um hætti. Í upp­hafi var tek­in sú skyn­sam­lega ákvörðun að fylgja sér­fræðing­um í sótt­varnaaðgerðum, það var okk­ar gæfa.

Rétt­ar sótt­varnaaðgerðir

Við sjá­um það nú að með því að fylgja sér­fræðing­um náðum við að halda heil­brigðis­kerf­inu það öfl­ugu að það hélt í við veiru­skömm­ina. Ég ætla ekki að leyfa mér að hugsa til þess hvernig ástandið væri ef okk­ur hefði ekki tek­ist það. Í því sam­hengi get­um við litið til annarra þjóða sem börðust í bökk­um þrátt fyr­ir öfl­ugt heil­brigðis­kerfi. Í Banda­ríkj­un­um voru á þessu tíma­bili fleiri lík­geymslugám­ar fyr­ir utan sjúkra­hús í New York en bíl­ar starfs­manna. Fólk hér á landi ger­ir sér kannski ekki al­mennt grein fyr­ir því að heil­brigðis­stofn­an­ir víða um Ísland voru með plön um hvar ætti að geyma lík­in. Við get­um þakkað fyr­ir að sú sviðsmynd raun­gerðist ekki.

Eitt það mik­il­væg­asta er að okk­ur hef­ur tek­ist að halda skól­um lands­ins opn­um. Sér­fræðing­ar eru þegar farn­ir að tala um að langvar­andi sótt­kví og aðskilnaður frá skóla geti haft nei­kvæð áhrif á náms­ár­ang­ur barna og and­lega líðan. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim börn­um víða er­lend­is sem voru skikkuð heim í marga mánuði, og eru jafn­vel nú, tveim­ur árum seinna, að sækja skóla tak­markað?

Aðgerðir á aðgerðum ofan

Veir­an hef­ur boðið upp á marg­vís­leg verk­efni og enn blæs úr öll­um átt­um. Stjórn­völd hafa borið gæfu til að leggja fram efna­hags­leg­ar mót­vægisaðgerðir til að minnka þau efna­hags­legu áhrif sem heims­far­ald­ur­inn hef­ur hrundið af stað. Stjórn­völd hafa þurft að hugsa hratt og bregðast við, þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa lagt fram telja á þriðja tug. Þær fela í sér stuðning við rekstr­araðila vegna ófyr­ir­séðs tekju­falls, aðgerðir til að örva eft­ir­spurn, aðgerðir til að viðhalda ráðning­ar­sam­bandi og skapa störf, aðgerðir til að varðveita kaup­mátt heim­ila og ekki síst vernd­un viðkvæmra hópa.

Í haust var lagt mat á ár­ang­ur af þess­um aðgerðum. Var það mat sér­fræðings að hag­stæð skuld­astaða rík­is­sjóðs, hag­kvæmt sam­spil pen­inga­stefnu og rík­is­fjár­mála og aðgerðir stjórn­valda hefðu mildað áhrif heims­far­ald­urs­ins á efna­hags­lífið sem end­ur­spegl­ast í hratt minnk­andi at­vinnu­leysi.

Jaka­hlaup

Að standa í stafni og taka ákv­arðanir í þessu ástandi má líkja við jaka­hlaup, erfitt er að taka lang­tíma­ákv­arðanir. Þegar fót­un­um er náð á einn jaka þarf að ákv­arða hvaða jaka skal stefnt á næst. Það eru næg verk­efni fram und­an að fást við eftir­köst veirunn­ar, geðheilsu þjóðar­inn­ar og áfram­hald­andi upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs og efl­ingu sam­fé­lags­ins.

Við erum orðin lúin eft­ir þenn­an tíma. En við verðum að halda áfram veg­inn ásamt því að halda okk­ur við skyn­sam­leg­ar sótt­varnaaðgerðir og ár­ang­urs­rík­ar efna­hags­leg­ar aðgerðir. Við meg­um held­ur ekki gleyma því að brosa. Það vor­ar og veir­an gef­ur eft­ir, það er ekki í boði að gef­ast upp núna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.