Categories
Greinar

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Deila grein

06/02/2014

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Karl GarðarssonSpurningin vaknar í kjölfar könnunar sem Þjónustumiðstöð Breiðholts gerði í 9. bekk í grunnskólum hverfisins árið 2012. Könnunin leiddi í ljós að 26,2% stúlkna voru yfir viðmiðunarmörkum vegna kvíða 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 15,5% á síðasta ári. Þá mældust 12,6% stúlkna vera yfir viðmiðunum vegna þunglyndis 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 10,2% 2013. Það gæti meðal annars verið vegna þess að gripið var inn í þau tilfelli sem komu upp og rætt við nemendur og foreldra og bent á úrræði til hjálpar.

Það breytir hins vegar ekki stóru myndinni að heildartölurnar eru áhyggjuefni og vekja upp spurningar um geðheilbrigði þeirrar kynslóðar sem nú er að vaxa úr grasi.

Vandamálið virðist vera til staðar og nauðsynlegt fyrir borgaryfirvöld og stjórnvöld að bregðast skjótt við. Athygli vekur að mun lægri tölur mælast hjá drengjum í Breiðholtinu. Aðeins 4,1% þeirra var yfir viðmiðunarmörkum þegar kom að kvíða 2009 en 1,9% 2013. Þá voru 6,8% yfir mörkum vegna þunglyndis 2009 og 3,9% á síðasta ári.

Niðurstöður og umræður úr ýmsum könnunum um líðan skólabarna hafa verið birtar að undanförnu. Setja þarf spurningarmerki við margar þeirra, enda skortir oft upp á faglega nálgun á viðfangsefnið.

Átak á landsvísu
Könnunin í Breiðholti er hluti af svokölluðu Breiðholtsmódeli, sem þróast hefur í hverfinu á síðustu sjö árum. Þetta módel byggist meðal annars á því að reynt er að greina vandann eins fljótt og hægt er og veita síðan bestu mögulega þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Þá sinna sálfræðingar bráðamálum sem koma upp. Hönnuð hafa verið sérstök námskeið þar sem boðið er upp á fyrstu inngrip við uppeldis- og tilfinningavanda og eru þau hluti af þeim úrræðum sem boðið er upp á í Breiðholti. Námskeiðin eru ætluð foreldrum og börnum og þau ná allt niður til foreldra 3ja ára barna sem eru í áhættuhópi. Góð samvinna er við geðdeild Landspítala, BUGL og fleiri aðila.

Niðurstaða vinnulags Þjónustumiðstöðvar Breiðholts gefur tilefni til að staldra við. Hún bendir til mjög vaxandi tilfinningavanda unglinga á árunum eftir kreppu. Sú niðurstaða þarf ekki að koma á óvart í ljósi reynslu annarra þjóða, t.d. Finnlands, en Finnar glímdu við alvarlegar afleiðingar kreppu, sem birtist m.a. í auknum tilfinningavanda barna.

Nauðsynlegt er að ráðast í átak á landsvísu með því markmiði að skima fyrir tilfinningavanda unglinga og bjóða þeim sem þurfa viðeigandi hjálp. Það er fjárfesting til framtíðar.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. febrúar 2014.)