Categories
Greinar

Þingið bregst og almenningur borgar

Deila grein

26/03/2014

Þingið bregst og almenningur borgar

Karl GarðarssonSkattgreiðendur hafa borgað um 1.300 milljónir króna vegna þriggja skýrslna sem rannsóknarnefndir Alþingis hafa gert. Endanleg upphæð verður örugglega nær 1.400 milljónum. Engar fjárhagsáætlanir lágu fyrir þegar þingmenn samþykktu gerð þeirra.

Rannsóknarskýrslan um aðdraganda og fall bankanna, sem kynnt var árið 2010, kostaði rúmar 453 milljónir króna. Nokkur umræða varð um skýrsluna en síðan hefur hún rykfallið ofan í skúffu. Skýrslan um Íbúðalánasjóð kostaði um 250 milljónir. Hún er enn í meðförum þingsins. Nefndin um sparisjóðina átti að skila af sér í lok árs 2012. Síðan hefur gjaldmælirinn gengið og í síðustu viku var kostnaður við skýrslugerðina kominn í um 600 milljónir króna. Enn er beðið eftir skýrslunni. Engin fjárveiting er í fjárlögum ársins 2014 vegna verksins og stefnir í að 100 milljóna króna reikningur bætist við fjáraukalög ársins.

Ljóst er að þingið hefur algjörlega brugðist í þessu máli. Eftirlit hefur ekkert verið og reikningar hafa verið borgaðir þegjandi. Þetta er ekkert annað en sjálftaka. Hluti vandamálsins er síðan að verkefnin hafa ekki verið nógu vel afmörkuð í byrjun og því hafa skýrsluhöfundar lent í vandræðum. Það er líka á ábyrgð þingsins.

Forsætisnefnd á að sinna fjárhagslegu eftirliti á Alþingi. Hér hefur það ekki verið til staðar og reikningurinn, upp á allt að 1.400 milljónir króna, er á endanum sendur á skattgreiðendur.

Íbúðalánasjóðsskýrslan er harðlega gagnrýnd í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem Ögmundur Jónasson formaður nefndarinnar ritar líka undir. Þannig hefur stjórnskipunarnefnd kallað fyrir fjölmarga aðila sem aldrei voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina, þó full ástæða hefði verið til. Ómaklegar árásir og pólitískar dylgjur er víða að finna. Ljóst er að kostnaður tryggir ekki gæði. Vonum að sparisjóðaskýrslan verði vandaðra plagg.

Þingið hefur nú skipað rannsóknarnefnd til að rannsaka rannsóknarnefndirnar. Bíðum spennt eftir niðurstöðunni en fyrsta mál hlýtur að vera að samþykkja ekki óútfyllta tékka.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.