Sund er frábær hreyfing, nærandi fyrir bæði líkama og sál. Bað- og sundmenning landans er raunar svo sterk, að foreldrar kenna börnum sínum að umgangast vatn frá unga aldri, ýmist í ungbarnasundi eða með reglulegu busli og leik í laugum landsins. Skólakerfið gegnir einnig lykilhlutverki, því sundkennsla er hluti af íþróttakennslu öll grunnskólaárin. Undanfarið hafa hins vegar ýmsir dregið í efa þörfina á því, enda ættu unglingar frekar að læra aðra hluti á efsta stigi grunnskóla.
Á dögunum lagði hópur ungmenna, sem skipa ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, breytingatillögur fyrir ríkisstjórnina. Hópurinn lagði til, að sundkennsla yrði valfrjáls á efsta stigi í grunnskóla en aðrir þættir settir í námskrána í hennar stað. Ungmennin vilja kennslu í fjármálalæsi í aðalnámskrá grunnskóla, svo nemendur skilji allt frá launaseðli til stýrivaxta. Þau vilja vandaða umhverfisfræðslu fyrr á námsferlinum, í stað hræðslu-fræðslu eins og þau segjast fá núna. Þau vilja aukna kennslu um réttindi barna, hinsegin fræðslu og lífsleikni í aðalnámskrá grunnskólanna. Þá leggja þau til breytt einkunnakerfi, þar sem talnaeinkunn komi í stað hæfniviðmiða sem fáir nemendur og foreldrar skilji til fulls.
Hugmyndir ungmennaráðs eru góðar og ríma vel við markmið menntastefnu, sem ég lagði fyrir og Alþingi samþykkti síðastliðinn vetur. Menntastefnan tekur mið af þörfum samfélagsins á hverjum tíma, þar sem markmiðið er að tryggja öllum börnum góða menntun og jafna tækifæri þeirra til lífsgæða í framtíðinni. Skyldusund á unglingsárum er ekki endilega lykillinn að því, þótt mikilvægi góðrar hreyfingar verði seint ofmetið.
Menntastefna er einskis virði án aðgerða, sem varða leiðina að markmiðinu. Þess vegna er umfangsmikil og metnaðarfull aðgerðaáætlun í smíðum, í víðtæku samráði við lykilaðila í skólakerfinu og Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Fyrsta áfanga af þremur verður hleypt af stokkunum í september, þegar nýhafið skólastarf vetrarins verður komið vel af stað og ég hlakka til að taka utan af þeim harða pakka. Aðgerðirnar eiga að efla menntakerfið okkar, tryggja betur en áður skóla án aðgreiningar og stuðla að bættu starfsumhverfi kennara.
Efnisbreytingar á aðalnámskrá grunnskólanna koma sannarlega til greina, við innleiðingu menntastefnunnar. Þær eru vandmeðfarnar og varfærni innbyggð í grunnskólakerfið, enda leiðir aukið vægi einnar námsgreinar til minna vægis annarrar.
Unglingarnir okkar þurfa svo sannarlega að synda en allar breytingar eru mögulegar með góðum vilja og minna vægi sundkennslunnar gæti skapað svigrúm fyrir aðrar aðkallandi greinar. Skólasamfélagið þyrfti svo í sameiningu að ákveða, hvernig sá tími yrði best nýttur.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2021.