Fögur orð duga skammt ef hugur fylgir ekki með. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, kynnti uppfærð markmið Íslands í loftslagsmálum á leiðtogafundi í desember 2020. Uppfærð markmið kveða á um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 í samfloti með Noregi og ESB. Þessi markmið eru göfug og góð en svo það verði raunhæft að ná þeim verður að huga að orkuöflun með grænni orku.
Við höfum verk að vinna
Samhliða því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda bíður okkur verðugt verkefni við að byggja upp flutningskerfi raforku í landinu ásamt því að sjá til þess að orkuþörf samfélagsins sé uppfyllt. Þrátt fyrir ótal viðvaranir og áköll eru einstaklingar hér á landi sem neita að horfast í augu við sannleikann þegar kemur að stöðunni í orkumálum hér á landi. Það dugar ekki að vera tvíráð í skoðunum og vona það besta ef við ætlum okkur að ná þeim markmiðum sem við höfum sett um losun gróðurhúsalofttegunda og um orkuskipti í samgöngum. Við höfum verk að vinna og við þurfum að gera það með virku samtali og sáttarleiðum í málum sem þykja erfiðari en önnur.
Framtíð í vindorku
Mikil framþróun hefur orðið í vindorkutækni á síðustu árum, það mikil að nú fyrst er hægt fyrir alvöru að ræða um uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi. En því miður er umræða um vindorku strax komin í skotgrafirnar og farið að tala um gullgrafaraæði, lukkuriddara og áhlaup á svæði, í stað þess að taka vandaða umræðu um kosti og galla þess að framleiða endurnýjanlega orku með því að beisla vindinn. Allar hugmyndir um nýtingu vindorku eru skotnar niður áður en samtalið hefst. Það er nauðsynlegt geta tekið samtalið svo hægt sé að komast að niðurstöðu hvaða leið við getum verið sammála um að fara. Við eigum gnægð af vindi til þess að virkja hér á Íslandi og það er óskynsamlegt að taka ekki samtalið um hvernig hægt sé að nýta þá auðlind til að mæta framtíðarþörf fyrir græna orku.
Smávirkjanir gegna mikilvægu hlutverki
Þá hefur fréttaflutningur nýverið og umræður í kjölfarið um smávirkjanir snúist í sömu átt og umræðan um vindorkuna. Hugsanlega gera fæstir sér grein fyrir mikilvægi smávirkjana hér á landi þegar óveður geisar yfir landið með tilheyrandi rafmagnsleysi. Um daginn héldu smávirkjanir uppi rafmagni víða á Norðausturlandi þegar stærri raflínur slógu út. Þá eru smávirkjanir einnig mikilvægar til þess að styrkja dreifikerfi raforku um landið en allt að fimmtungur allrar raforku sem RARIK dreifir til viðskiptavina kemur frá smávirkjunum víða um land.
Raforkukerfið okkar þarf að vera áfallaþolið en góðir innviðir eru undirstaða öflugs samfélags. Mikilvægt er að hlúa að innviðum, styrkja og endurnýja þegar við á. Horfa þarf til mismunandi lausna til að efla raforkuöryggi landsins. Ljúka þarf endurnýjun meginflutningskerfisins sem liggur í kringum landið (byggðalínan) enda er hún orðin hálfrar aldar gömul og raforkunotkun hefur margfaldast frá því að hún var byggð. Fyrstu áfangar á þeirri vegferð komust í gagnið í sumar eftir tíu ára undirbúning. Þá þarf að flýta jarðstrengjavæðingu dreifikerfisins og tryggja að varaafl sé til staðar þar sem þörf krefur. Tryggja þarf nægt framboð á raforku en fjölbreytt orkuframleiðsla víða um land stuðlar að auknu orkuöryggi. Þetta er verkefni sem leysir sig ekki sjálft.
Við þurfum að tala saman
Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orkuinnviðirnir okkar eru mikilvægir fyrir heilsu, öryggi og lífsviðurværi fólks. Í aftakaveðrinu sem gekk yfir landið um daginn varð víðtækt rafmagnsleysi með tilheyrandi tjóni og óþægindum, þrátt fyrir uppbyggingu á kerfinu og umfangsmikinn undirbúning og viðbúnað þeirra sem stuðla að öryggi og velferð landsmanna. Ef við ætlum okkur að ná árangri í loftslagsmálum ásamt því að tryggja orkuöryggi allra landsmanna þá er mikilvægt að öll umræða sé hófstillt og í samræmi við það verkefni sem við okkur blasir. Við vitum hvað verkefnið er og við vitum hvað er í húfi. Tölum saman.
Ingibjörg Ólöf Isaksen, Alþingismaður og þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 21. október 2022.