Categories
Greinar

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Deila grein

07/02/2023

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Sjald­an hef­ur fæðuör­yggi skipt okk­ur Íslend­inga meira máli en nú, ófriður í Evr­ópu veg­ur þar þungt í umræðunni, víða eru menn farn­ir að finna fyr­ir vöru­skorti og hækk­andi verði á allri hrávöru.

En hvað þýðir þetta orð, fæðuör­yggi? Þegar talað er um fæðuör­yggi sam­kvæmt skil­grein­ingu mat­vælaráðuneyt­is­ins er átt við að allt fólk, á öll­um tím­um, hafi raun­veru­leg­an og efna­hags­leg­an aðgang að næg­um heil­næm­um og nær­ing­ar­rík­um mat sem full­næg­ir þörf­um þess til að lifa virku og heilsu­sam­legu lífi.

Nú­ver­andi bú­vöru­samn­ing­ar tóku gildi 1. janú­ar 2017. Þeir eru gerðir milli rík­is­ins og Bænda­sam­taka Íslands en þar er fjallað um stjórn á fram­leiðslu búvara og fram­laga til land­búnaðar­ins af hálfu rík­is­ins. Fram­lög á fjár­lög­um vegna bú­vöru­samn­ing­anna í ár hljóða upp á 17,2 milj­arða króna, naut­griparækt fær um 8,4 milj­arða, sauðfjár­rækt 6,2 milj­arða, garðyrkja rúm­an millj­arð og svo erum við með ramma­samn­ing­inn sem hljóðar upp á 1,5 millj­arða króna. Ramma­samn­ing­ur á að taka utan um jarðrækt­ar­styrki og nýliðun svo fátt eitt sé nefnt.

Bú­vöru­samn­ing­arn­ir gilda í 10 ár með tveim­ur end­ur­skoðun­ar­á­kvæðum, fyrst árið 2019 og nú stend­ur þessi síðari end­ur­skoðun fyr­ir dyr­um 2023. Staðreynd­in er sú að krefj­andi tím­ar eru fram und­an í land­búnaði með hækk­un á öll­um aðföng­um til bænda.

Einnig verðum við að horf­ast í augu við þá staðreynd að meðal­ald­ur bænda er um 60 ár og nýliðun lít­il í bænda­stétt­inni. Leggja þarf aukið fé til bú­vöru­samn­inga að mínu mati til að stuðla að til­vist bænda í ís­lensk­um land­búnaði. Einnig þarf að setja aukið fé í ramma­samn­ing­inn og vinna mark­visst að því að hvetja ungt og kraft­mikið fólk til starfa í land­búnaði.

Við vit­um það Íslend­ing­ar að okk­ar kjöt er eitt það besta í heimi; mjög lít­il notk­un sýkla­lyfja, ásamt aðgangi að hreinu og tæru vatni og fæði, trygg­ir gæðin í okk­ar mat­væla­fram­leiðslu.

Ég skora því á sam­flokks­menn mína, þing­menn og ráðherra Fram­sókn­ar­flokks­ins, að beita sér fyr­ir því að þessi end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga tryggi styrk­ari stoð und­ir fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.