Mikið mæðir á okkar framlínustarfsmönnum þessa dagana vegna Covid- faraldursins. Þá á ég fyrst og fremst við hjúkrunarfólk, lækna, sjúkraflutningafólk, slökkviliðsmenn og lögregluþjóna. Hægt væri að skrifa lýsingar um sérhverja starfsgrein en ég ætla nú að beina athygli minni að okkar frábæra fólki í lögreglunni. Undanfarna mánuði hef ég átt mörg samtöl við lögregluþjóna um hvernig þeir upplifa sig í störfum sínum.
Fjölgun lögregluþjóna
Á vef Alþingis er tilgreint að fjöldi lögregluþjóna á Íslandi hafi verið 662 þann 1. febrúar 2020. Þetta samsvarar að á Íslandi er einn lögregluþjónn á hverja 557 íbúa. Í skýrslu dómsmálaráðherra frá árinu 2001 kemur fram að fjöldi lögregluþjóna var þá hlutfallslega mestur á Íslandi af öllum Norðurlöndum eða einn á hvern 441 íbúa, en meðaltalið á Norðurlöndum var þá 573 íbúar á lögregluþjón. Í dag hefur fjöldi lögregluþjóna á Norðurlöndum haldist óbreyttur eða einn á 577 íbúa. Ljóst er að á meðan fjöldi lögregluþjóna hefur staðið í stað á Norðurlöndum þá hefur þeim hlutfallslega fækkað verulega á Íslandi. Þessar tölur eru í samræmi við þau samtöl sem ég hef átt. Jafnframt hefur nýleg ákvörðun um styttingu vinnutíma orðið til þess að vaktir eru nú mannaðar með færri lögreglumönnum, sem eykur enn meira það álag sem fyrir er. Þegar tekið er tillit til aukinna og nýrra verkefna lögreglunnar, tveggja milljóna ferðamanna, netglæpa, viðveru afbrotagengja frá Evrópu, fjármálaafbrota, mansals og aukinna verkefna varðandi fjölskyldutengd afbrot, verkefni sem flest þekktust vart hér á landi fyrir 20 árum, er ljóst að ástandið er grafalvarlegt.
Lausnin er mjög skýr. Það þarf að fara í aðgerðir til að fjölga lögregluþjónum á landinu strax.
Endurvakning lögregluskólans
Þegar lögregluskólinn var lagður niður 2016 var það gert skilyrt að verðandi lögregluþjónar þyrftu að ljúka tveggja ára skólanámi (diplóma) á háskólastigi og að starfsnámshluti yrði síðan í umsjá mennta- og starfsþróunarseturs ríkislögreglustjóra sem stofnað var í kjölfarið. Farið var í þessar aðgerðir til að ná fram sparnaði í ríkisrekstri. Það er gott og vel að reyna að spara þar sem hægt er, en það sem hefur skapast í kjölfarið er að praktísk/raunþjálfun lögreglunema hefur verið minnkuð til muna. Ekki er lengur kennt yfir heilt námsár eins og var í lögregluskólanum hér áður heldur er þetta nokkurra vikna námskeið sem kemur í kjölfar þess að nemendur ljúka sínu diplómanámi. Þetta hefur leitt til þess að lögregluþjónar eru ekki jafn vel undirbúnir til að takast á við hin daglegu vandamál sem koma upp í þeirra vinnu. Hvort lausnin sé að endurvekja starfsemi gamla lögregluskólans skal ég ekki segja en það er einróma skoðun viðmælenda minna að lengja þurfi verklega námið til muna, svo að nýliðar í lögreglunni séu betur undirbúnir til að takast á við þær áskoranir sem þeir mæta á hverjum degi.
Fyrir þjóð sem telur aðeins 360 þúsund íbúa og engan her er nauðsynlegt að efla stöðugt og styrkja löggæsluaðila ríkisins, þannig að ávallt sé vel þjálfað starfsfólk fyrir hendi í lögreglunni.
Aðalsteinn Haukur Sverrisson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2021.