Categories
Greinar

Umhverfismál í forgang í Árborg

Deila grein

02/05/2018

Umhverfismál í forgang í Árborg

Framboð Framsóknar og óháðra í Árborg leggja ríka áherslu á umhverfismál og telur tímabært að setja skýra stefnu í þessum málaflokki í samvinnu við íbúa. Lögbundið er að hvert sveitarfélag leggi fram aðalskipulag þar sem fram kemur stefna þess um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Sveitarfélög geta jafnframt sýnt frumkvæði og lagt í stefnumörkun umfram það sem lögbundið er.

Í stefnumörkun felst að greina stöðuna og setja markmið. Við leggjum til að í greiningavinnunni verði kolefnisspor sveitarfélagsins kortlagt og þættir eins og plastnotkun og matarsóun skoðaðir í því samhengi, til viðbótar við hin hefðbundnu sorphirðu- og fráveitumál. Í kjölfarið verði sett markmið um hvernig við getum bætt okkur sem samfélag.

Ganga þarf lengra í flokkun á sorpi og gefa möguleika á m.a. því að taka á móti lífrænum úrgangi, en þannig má draga úr urðun og skapa í leiðinni verðmæti. Stórbæta þarf fræðslu og kynningu á ferlinu, ekki bara á flokkuninni sjálfri heldur líka hvað verður um úrganginn. Auka þarf hvata fyrir flokkun og skoða kosti þess að koma upp grenndarstöðvum til að mæta þörfum íbúanna. Sorphirðugjald vegna urðunar á sorpi hefur hækkað verulega og eru engar líkur að sú þróun snúist við. Við viljum með þessu sporna á móti þessum hækkunum og um leið auka sjálfbærni.

Löngu er tímabært að sveitarfélagið standist kröfur í fráveitumálum, en reglugerð um fráveitur og skólp tók gildi árið 1999. X-B leggur áherslu á heildarlausn í fráveitumálum sem þjónar öllum þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins. Útfærsla með sjó sem viðtaka er ein af fjórum leiðum sem lagðar eru til í mati á umhverfisáhrifum á hreinsun skólps, sem nú er í lögbundnu ferli. Að okkar mati virðist þetta hagkvæm heildarlausn, lífríki Ölfusár, fjörunnar, og okkur íbúum til góða.

Setjum X við B í komandi sveitarstjórnarkosningum og stígum saman inn í 21. öldina í umhverfismálum.

Guðbjörg Jónsóttir, frambjóðandi í 3. sæti Framsóknar og óháðra í Árborg.