Categories
Greinar

B-lista Framsóknarkonur skrifa

Deila grein

02/05/2018

B-lista Framsóknarkonur skrifa

Nú dregur að kosningum, Heiða er að hætta sem forseti sveitarstjórnar að loknum fjórum árum og Kata leiðir B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks næstu 4 árin. Okkur stöllurnar langar til að líta saman yfir sveitarfélagið okkar á þessum tímamótum.

Það er búið að vera mjög gaman að fylgjast með vexti Dalvíkurbyggðar síðustu árin og einmitt núna er mikil framsýni og áræðni í íbúum, frumkvöðlum og fyrirtækjum. Ný atvinnutækifæri hafa orðið til á Árskógssandi, Hauganesi og Dalvík. Bændurnir í sveitunum hafa hlúð að sínum fyrirtækjum og uppfært þau til nútímans svo eftir er tekið um land allt. Ferðaþjónusta blómstrar um allt sveitarfélagið í höndum drífandi einstaklinga. Búið er að úthluta lóðum til nýbygginga í iðnaði og þá hafa risið og eru að rísa ný íbúðarhús eftir langa bið.

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár staðið í framkvæmdum og m.a. endurbótum við tónlistarskóla, leikskóla, leikhús og sundlaug, ljósleiðaravæðingu og stækkun á þjónustusvæði hitaveitu. Ráðist var í nauðsynlega uppbyggingu við Dalvíkurhöfn í kjölfar ákvörðunar Samherja um að byggja hér upp hátæknifrystihús, ákvörðun sem skiptir sköpum fyrir Dalvíkurbyggð. Nú er nýbúið að leggja fram ársreikning fyrir 2017 sem sýnir mjög góða afkomu og búið er að gera samning um uppbyggingu á íþróttasvæði við íþróttamiðstöðina.

Hinn jákvæði ríkjandi andi er ómetanlegur fyrir byggðarlagið okkar og smitar út frá sér út í þjóðfélagið. Fólk lítur á Dalvíkurbyggð sem vænlegan búsetuvalkost og eignir sem koma á sölu seljast oftast strax. Íbúum er farið að fjölga aftur eftir fækkun síðustu ára og það er afar jákvætt.

Dalvíkurbyggð er skemmtilega fjölbreytt sveitarfélag með ólíka búsetukosti og fjölbreytt atvinnulíf. Hér er mikill mannauður, drifkraftur og dugur. Að þessu öllu ber að hlúa. Takk fyrir góð ár og það er einlæg tilhlökkun að fylgja sveitarfélaginu okkar áfram til næstu framtíðar.

Gleðilegt sumar,
Katrín Sigurjónsdóttir, 1. sæti B-listans 2018 og
Heiða Hilmardóttir, fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúi B-listans.