Staða kennaranáms styrkt
Ráðist var í heildstæðar aðgerðir í víðtæku samstarfi við Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Meðal annars þurfti að bregðast við því að innritun í leik- og grunnskólakennaranám hafði dregist saman um 40% frá 2008. Í þessum aðgerðum fólst meðal annars launað starfsnám leik- og grunnskólakennaranema á lokaári. Aðgerðirnar höfðu afar jákvæð áhrif og hafa leitt til gríðarlegrar fjölgunar umsókna í kennaranám. Alls fjölgaði umsóknum um 591 milli áranna 2019 og 2020, eða um 46%. Þar af er fjölgunin mest við Háskóla Íslands en þar fjölgar umsóknum um 580 milli ára, eða um 61%.
Menntastefna til ársins 2030
Þessar aðgerðir eru hluti af nýrri menntastefnu til ársins 2030, sem verður kynnt í upphafi nýs skólaárs. Markmið stjórnvalda með stefnunni er að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært í öflugu og sveigjanlegu menntakerfi. Stefnan mun endurspegla leiðarljósið allir geta lært sem felur í sér áherslu á virka þátttöku allra í lýðræðissamfélagi sem byggist á jafnrétti og mannréttindum, heilbrigði, velferð og sjálfbærni. Menntastefnan er mótuð með aðkomu fjölmargra aðila úr skólasamfélaginu, meðal annars með fundaröð um land allt um menntun fyrir alla haustið 2018 og 2019.
Menntun eflir jöfnuð og allir eiga að hafa jöfn tækifæri til náms. Ég hef þá trú að allir geti lært og allir skipti máli. Kennarar, skólastjórnendur og aðrar starfsstéttir innan menntakerfisins eru ein mesta auðlind hvers samfélags og leggja grunn að öðrum störfum. Aðsókn í kennaranám hefur stóraukist vegna markvissra aðgerða sem hrint hefur verið í framkvæmd. Með skýrri sýn og stefnu er hægt að bæta samfélagið sitt. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa komið að því að efla stöðu kennaranáms í landinu, því það sannarlega skiptir máli fyrir komandi kynslóðir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.