Categories
Greinar

Utanríkismál varða Íslendinga miklu

Deila grein

21/10/2017

Utanríkismál varða Íslendinga miklu

Utanríkismál hefur borið lítt á góma í aðdraganda alþingiskosninganna. Það er miður, því víða eru blikur á lofti í okkar nær- og fjærumhverfi á vettvangi utanríkismála. Kjarnorkukergja á Kóreuskaga, spenna milli stórvelda, glíman við loftslagsbreytingar, viðvarandi upplausnarástand vítt um Mið-Austurlönd, áframhaldandi áskoranir í Afríku og svo mætti lengi telja. Næst okkur eru það málefni norðurslóða og þau tækifæri og áskoranir sem í þeim felast. Einnig viðvarandi deilur við suma nágranna okkar vegna flökkustofna, Evrópusamstarfið á breiðum grunni og svo er það Brexit.

Evrópa og viðskiptakjör
Árangurinn hér heima er að miklu leyti háður því að hér sé festa og skörp sýn í utanríkismálum. Viðhald og viðbætur bestu kjara í viðskiptaumhverfi okkar skipta lykilmáli í fríverslun almennt, en einkum og sér í lagi vegna aðgengis að okkar stærstu mörkuðum.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands hvort heldur sem er í efnahagslegu eða stjórnmálalegu samhengi. Íslensk stjórnvöld verða að sinna framkvæmd samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði. Eðli og umfang samningsins er í stöðugri þróun og stjórnvöld verða að vinna markvisst að því að tryggja að góð niðurstaða náist fyrir Íslands hönd á öllum sviðum, samhliða því að fullveldi Íslands verði áfram tryggt.

Vinna verður gegn einangrunarstefnu í alþjóðaviðskiptum enda hefur hún í för með sér að verðmætasköpun þjóða verður minni. Náið samstarf við félaga okkar innan EFTA mun skipta sköpum um framhaldið, enda eru frjáls og opin alþjóðaviðskipti sérstaklega til hagsbóta fyrir lítil opin hagkerfi og auka velsæld þeirra. Þannig verða hagsmunir Íslands best tryggðir, og þar með að Íslendingar séu áfram sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

Síðastliðið sumar ákvað breska þjóðin að yfirgefa sambandið og því er komin upp gjörbreytt staða innan þess. Framtíðarskipulag ESB mun því taka breytingum á næstu misserum sem við þurfum að fylgjast vel með. Brýnt er jafnframt að tryggja þá verulegu efnahags- og viðskiptalegu hagsmuni sem Ísland hefur gagnvart Bretlandi, en segja má að þar standi íslensk utanríkisstefna frammi fyrir einni sinni stærstu einstöku áskorun. Stefnumótun í utanríkismálum verður óhjákvæmilega að miðast að þessum breytta heimi.

Norðurslóðir og loftslagsmál
Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki og fylgja því bæði tækifæri og áskoranir. Hagsmunir Íslands felast einkum í því að nýta tækifærin með ábyrgum og sjálfbærum hætti, þ.m.t. auknum siglingum ásamt annarri starfsemi sem geta haft hættu í för með sér gagnvart viðkvæmu umhverfi, lífríki og lífsháttum. Þannig mun ekki allt gull glóa að teknu tilliti til heildarhagsmuna og langtímaáhrifa. Mikilvægt skref var stigið með Parísarsamkomulaginu, þegar 194 ríki sameinuðust um skuldbindingar til að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda. Úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu er því gríðarleg vonbrigði og óljóst hvað hún mun leiða af sér. Nýlega birtist skýrsla mín um efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga sem samþykkt var af þingmönnum Atlantshafsbandalagsins 7. október sl. Bandaríkin eitt aðildarríkja greiddi atkvæði gegn samþykkt hennar. Skýrslan er tímabær í umræðunni um málefni norðurslóða og glímunni við hnattræna hlýnun og loftslagsbreytingar. Ljóst er að markmiðum Parísarsamningsins verði ekki náð nema til komi nægilegt fjármagn og rík samvinna á alþjóðavettvangi.

Öryggis- og þróunarmál
Öryggismálin þurfa líka að vera í traustum skorðum, og þá skiptir miklu máli að geta vegið og metið áskoranir á þeim vettvangi. Rödd Ísland þarf að heyrast en setja þarf fram rök skynsemi og aðgátar. Þjóðaröryggisstefna Íslands byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, þ.e. lýðræði, virðingu fyrir réttarríkinu, sjálfbæra þróun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana eins og Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Framkvæmd stefnu þjóðaröryggisráðsins þarf að vera í nánu samstarfi við Alþingi hverju sinni.

Hin nýju þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna gefa okkur gott veganesti, sérstaklega þegar kemur að starfi okkar og framlögum á sviði þróunarsamvinnu, þar sem við eigum og verðum að gera betur – og getum lagt mun meira af mörkum en við höfum gert fram að þessu.

Verkefnin framundan
Framundan eru að auki mikilvæg verkefni á alþjóðavettvangi. Á árinu 2019 mun Ísland taka við formennsku innan Norðurskautsráðsins, á vettvangi Norðurlandaráðs og leiða mikilvægt samstarf og samhæfingu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna innan Alþjóðabankans. Duga þar hvergi nein vettlingatök. Utanríkismálin verða áfram lykilmálefni íslenskra stjórnmála sem íslenskur almenningur og okkar nánustu samstarfsþjóðir eiga skilið að stýrt sé af öryggi og festu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. október 2017.