Undir liðnum Störf þingsins í síðustu viku nýtti ég tækifærið og ræddi um þann læknaskort sem við búum við hér á landi miðað við þá heilbrigðisþjónustu sem við viljum veita. Á komandi árum eru áhyggjur um að skorturinn verði jafnvel alvarlegri en sá sem við stöndum frammi fyrir í dag. Mannekla á heilbrigðisstofnunum er vandamál víða og fólksfjölgun og öldrun þjóðarinnar mun, eðli málsins samkvæmt, krefjast aukinna umsvifa í heilbrigðiskerfinu.
Háskóli Íslands er eini háskólinn á Íslandi sem útskrifar lækna en hann getur einungis tekið inn 60 nema á ári. Sá fjöldi nægir hins vegar ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horfum fram á. Við bregðumst við, annars vegar með því að flytja inn sérmenntað fólk og hins vegar með því að tryggja íslenskum námsmönnum tækifæri til læknanáms og aukinnar sérhæfingar. Mikill fjöldi íslenskra námsmanna heldur út í nám og meirihluti þeirra snýr heim með haldbæra reynslu og sérþekkingu sem samfélagið nýtur góðs af. Íslenskir læknanemar sem stunda nám sitt erlendis hafa bent á að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér á landi. Stór hluti námsgjalda þeirra þarf að greiðast úr eigin vasa eða með stuðningi frá öðrum, sem veldur því að margir missa af tækifærinu til að gerast læknar eða neyðast til að hætta í miðju námi. Ávinningur samfélagsins af því að styðja betur við læknanema erlendis er mikill.
Sértækar aðgerðir menntasjóðs
Í menntasjóði námsmanna er fjallað um sérstakar ívilnanir námsgreina. Í 27. grein laganna er ráðherra gert heimilt með auglýsingu að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina. Fyrir þeim ívilnunum liggja ákveðin skilyrði eins og að upplýsingar liggi fyrir um viðvarandi skort í starfsstétt eða að skortur sé fyrirsjáanlegur og að fyrir liggi skýrsla unnin af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur um mikilvægi þess að bregðast við aðstæðum.
Þessar aðgerðir hafa ekki verið nýttar. Ráðherra hefur ekki nýtt þessar heimildir til þess að koma til móts við greinar eða byggðir sem þurfa á sértækum aðgerðum að halda. Við finnum helst fyrir þessu í heilbrigðisgeiranum.
Skortur á sérfræðingum í sveitarfélögum
Í lögunum er einnig fjallað um sérstaka ívilnun vegna námsgreina á sérstökum svæðum í 28. grein. Þar er ráðherra heimilt með auglýsingu að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun. Skilyrði fyrir ívilnunum skv. þessu eru að fyrir liggi tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum til stjórnvalda um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni og að fyrir liggi skýrsla unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi þess að bregðast við aðstæðum. Þá segir enn fremur að skilyrði sé að lánþegi hafi lokið námi og sé búsettur á skilgreindu svæði og nýti menntun sína þar að lágmarki í 50% starfshlutfalli í a.m.k. tvö ár.
Það er þörf á sérfræðimenntuðu fólki í mörg sveitarfélög og sveitarfélög þurfa að vita að þessi möguleiki sé til staðar. Ég vil því hvetja þau sveitarfélög sem telja sig uppfylla framangreind skilyrði til að óska eftir því að þessar sértæku aðgerðir séu nýttar á þeirra svæði.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á mbl.is 29. nóvember 2022.