Categories
Greinar

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Deila grein

29/11/2022

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Und­ir liðnum Störf þings­ins í síðustu viku nýtti ég tæki­færið og ræddi um þann lækna­skort sem við búum við hér á landi miðað við þá heil­brigðisþjón­ustu sem við vilj­um veita. Á kom­andi árum eru áhyggj­ur um að skort­ur­inn verði jafn­vel al­var­legri en sá sem við stönd­um frammi fyr­ir í dag. Mann­ekla á heil­brigðis­stofn­un­um er vanda­mál víða og fólks­fjölg­un og öldrun þjóðar­inn­ar mun, eðli máls­ins sam­kvæmt, krefjast auk­inna um­svifa í heil­brigðis­kerf­inu.

Há­skóli Íslands er eini há­skól­inn á Íslandi sem út­skrif­ar lækna en hann get­ur ein­ung­is tekið inn 60 nema á ári. Sá fjöldi næg­ir hins veg­ar ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horf­um fram á. Við bregðumst við, ann­ars veg­ar með því að flytja inn sér­menntað fólk og hins veg­ar með því að tryggja ís­lensk­um náms­mönn­um tæki­færi til lækna­náms og auk­inn­ar sér­hæf­ing­ar. Mik­ill fjöldi ís­lenskra náms­manna held­ur út í nám og meiri­hluti þeirra snýr heim með hald­bæra reynslu og sérþekk­ingu sem sam­fé­lagið nýt­ur góðs af. Íslensk­ir lækna­nem­ar sem stunda nám sitt er­lend­is hafa bent á að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér á landi. Stór hluti náms­gjalda þeirra þarf að greiðast úr eig­in vasa eða með stuðningi frá öðrum, sem veld­ur því að marg­ir missa af tæki­fær­inu til að ger­ast lækn­ar eða neyðast til að hætta í miðju námi. Ávinn­ing­ur sam­fé­lags­ins af því að styðja bet­ur við lækna­nema er­lend­is er mik­ill.

Sér­tæk­ar aðgerðir mennta­sjóðs

Í mennta­sjóði náms­manna er fjallað um sér­stak­ar íviln­an­ir náms­greina. Í 27. grein lag­anna er ráðherra gert heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána vegna til­tek­inna náms­greina. Fyr­ir þeim íviln­un­um liggja ákveðin skil­yrði eins og að upp­lýs­ing­ar liggi fyr­ir um viðvar­andi skort í starfs­stétt eða að skort­ur sé fyr­ir­sjá­an­leg­ur og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af stjórn­völd­um í sam­ráði við hlutaðeig­andi at­vinnu­rek­end­ur um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum.

Þess­ar aðgerðir hafa ekki verið nýtt­ar. Ráðherra hef­ur ekki nýtt þess­ar heim­ild­ir til þess að koma til móts við grein­ar eða byggðir sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Við finn­um helst fyr­ir þessu í heil­brigðis­geir­an­um.

Skort­ur á sér­fræðing­um í sveit­ar­fé­lög­um

Í lög­un­um er einnig fjallað um sér­staka íviln­un vegna náms­greina á sér­stök­um svæðum í 28. grein. Þar er ráðherra heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána til lánþega sem bú­sett­ir eru á svæðum skil­greind­um í sam­ráði við Byggðastofn­un. Skil­yrði fyr­ir íviln­un­um skv. þessu eru að fyr­ir liggi til­laga frá sveit­ar­fé­lagi eða sveit­ar­fé­lög­um til stjórn­valda um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af Byggðastofn­un í sam­ráði við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum. Þá seg­ir enn frem­ur að skil­yrði sé að lánþegi hafi lokið námi og sé bú­sett­ur á skil­greindu svæði og nýti mennt­un sína þar að lág­marki í 50% starfs­hlut­falli í a.m.k. tvö ár.

Það er þörf á sér­fræðimenntuðu fólki í mörg sveit­ar­fé­lög og sveit­ar­fé­lög þurfa að vita að þessi mögu­leiki sé til staðar. Ég vil því hvetja þau sveit­ar­fé­lög sem telja sig upp­fylla fram­an­greind skil­yrði til að óska eft­ir því að þess­ar sér­tæku aðgerðir séu nýtt­ar á þeirra svæði.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 29. nóvember 2022.