Við förum varlega af stað í opnun landsins eftir að hafa náð ótrúlegum tökum á útbreiðslu veirunnar og treystum á vísindin. Það er mikilvægt að við förum varlega og það er mikilvægt að við nýtum þekkingu okkar á veirunni til að koma hjólunum betur af stað. Það verður ekki litið fram hjá því að fjölmargar fjölskyldur um allt land eiga mikið undir því að gestir sæki landið heim að nýju þótt ekki sé hægt að búast við því að krafturinn verði jafnmikill og síðustu ár.
Ferðaþjónustan hefur á nokkrum árum orðið ein af undirstöðum íslenska efnahagskerfisins, skapað miklar útflutningstekjur og veitt miklum fjölda fólks atvinnu og þar með lífsviðurværi. Ferðaþjónustan hefur styrkt byggðir landsins og komið til viðbótar öðrum grunnstoðum: landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Hún hefur opnað augu okkar fyrir þeim fjársjóði sem náttúran er og þannig breytt gildismati margra.
Ég hef orðið var við að Íslendingar hlakka til að ferðast um landið sitt í sumar. Sólarvörnin verður kannski ekki alltaf höfð uppi við eins og á sólarströndum en eins og við vitum búa töfrar í samspili landslags og veðurs hvort heldur það blæs, skín eða úðar. Eftirminnilegustu augnablikin eru ekki endilega þau sólríku.
Þótt Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands í sumar er ljóst að það kemur ekki til með að duga til að verja þau störf sem orðið hafa til í ferðaþjónustunni síðustu árin. Því er það jákvætt skref og mikilvægt að opna landið fyrir komu erlendra gesta um miðjan júní. Áður en það gerist hefur verið tekin ákvörðun um að sóttkví B verði útvíkkuð þannig að kvikmyndagerðarmenn og aðrir afmarkaðir hópar geti komið til starfa á Íslandi.
Kvikmyndagerð hefur lengi staðið Framsókn nærri og skemmst að minnast þess að flokkurinn stóð fyrir því að tekið var upp það endurgreiðslukerfi sem enn er við lýði hér á landi. Það kerfi hefur lagt grunninn að öflugri kvikmyndagerð á Íslandi sem hefur mikið menningarlegt gildi. Þar að auki hefur kvikmyndagerðin skapað atvinnu og tekjur og fært íslenskt landslag inn í aðra menningarheima, hvort sem þeir heita Hollywood eða Bollywood.
Ég finn að fólk tekur því fagnandi að það losni um þau höft sem verið hafa á lífinu á Íslandi síðustu vikur og mánuði. Það er vor í lofti, jafnvel sumar sunnan undir vegg, og við fetum okkur varlega af stað undir leiðsögn sóttvarnayfirvalda. Áfram veginn.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. maí 2020.