Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur almennt reynst einstaklingum til góða. Kostirnir við slíka þátttöku eru ófáir, en iðkun skipulags frístundastarfs hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, bætir félagslíf, hefur sterkt forvarnargildi og bætir lífsgæði til muna. Hér á landi er mikil áhersla lögð á skipulagt frístundastarf og að allir hafi tækifæri til að taka þátt, og þá sérstaklega börn og ungmenni. Það hefur jákvæð áhrif á þroska barna og heilsu að taka þátt í slíku starfi hvort sem þau æfa knattspyrnu, karate, á píanó, rafíþróttir, taki þátt í skátunum eða hvað annað. Það er göfugt markmið að tryggja það að öll börn hafi tækifæri til að taka þátt.
Styrkjum frístundaiðkun barna
Það markmið hefur verið viðloðandi í mörg ár. Ríkið og sveitarfélög hafa unnið í nánu samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins til að tryggja gott skipulagt frístundastarf þvert yfir landið ásamt því að tryggja tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar fyrir öll börn óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Bæði ríki og sveitarfélög hafa nýtt fyrirkomulag frístundastyrks í vinnu að umræddu markmiði. Frístundastyrkur er ákveðin greiðsla sem flest sveitarfélög bjóða fjölskyldum til að niðurgreiða skipulagða íþrótta- og tómstundaiðkun. Tilvist styrks, upphæð hans og fyrirkomulag er mismunandi eftir sveitarfélögum. Einnig hefur Ásmundur Einar, félags- og barnamálaráðherra, ráðstafað fé til slíkrar styrkveitingar frá ríkinu á tímum Covid-19.
Vaxtarstyrkur
Þrátt fyrir þetta eru fjölskyldur hér á landi sem ekki ná að standa straum af kostnaði við frístundaiðkun barna sinna. Þetta þarf að laga. Það er almenn skoðun innan samfélagsins um að öll börn eiga skilið tækifæri til að njóta góðs af skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, og Framsóknarflokkurinn tekur í sama streng.
Ein stærsta áhersla Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að sjá til þess að ríkið veiti öllum fjölskyldum árlegan 60 þúsund króna vaxtarstyrk fyrir hvert barn og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Fyrir tveggja barna fjölskyldu yrði styrkurinn 120 þúsund krónur og fyrir þriggja barna fjölskyldu 180 þúsund krónur. Sýnt hefur verið fram á að skipulagt frístundastarf styrkir líkamlegan og andlegan þroska barna, ýta undir sjálfstæði þeirra og styrkja sjálfsmynd. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi svo að ekkert barn missir af.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í skessuhorn.is 2. september 2021.