Categories
Greinar

Við sjáum til lands

Deila grein

01/05/2021

Við sjáum til lands

Hún var hátíðleg og hjartnæm stundin sem við urðum vitni að í fréttum í vikunni þegar brast á með miklu lófaklappi þegar Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir mætti í Laugardalshöll í bólusetningu. Það var verðskuldað. Það er líka einstaklega ánægjulegt að fylgjast með hversu vel bólusetningar ganga og ekki síst fagmennskuna og skipulagið hjá heilbrigðisstarfsfólkinu okkar og þeim sem koma að almannavörnum.

Bólusetningarmyndir hafa leyst eldgosamyndirnar af hólmi á samfélagsmiðlum. Hvort tveggja er stórkostleg upplifun. Annars vegar er það ægikraftur náttúrunnar og hins vegar kraftur vísinda og samvinnu.

Við klárum leikinn saman

Í gær samþykkti ríkisstjórnin nýjar aðgerðir sem er ætlað að klára leikinn eins og við í Framsókn höfum orðað það. Þessar aðgerðir bætast á lista umfangsmikilla aðgerða sem hafa skipt sköpum í því að tryggja heilsu og afkomu landsmanna síðasta árið. Styrkur til þeirra sem hafa verið atvinnulausir í lengri tíma, barnabótaauki til þeirra sem lægstar tekjur hafa, tímabundin hækkun framfærslu námsmanna, aukinn stuðningur í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna um allt land, rýmkun á viðspyrnustyrkjum, styrkur til endurráðningar í fyrra starfshlutfall, ný ferðagjöf og framlenging á stuðningi við íþróttafélög. Allt eru þetta aðgerðir sem munu styrkja samfélagið síðustu mínútur leiksins.

Atvinna, atvinna, atvinna

Ríkisstjórnin brást hratt og örugglega við því frosti sem varð í ferðaþjónustu fyrir ári síðan. Stærsta og mikilvægasta aðgerðin þá var hlutabótaleið félags- og barnamálaráðherra sem gerði fólki og fyrirtækjum kleift að viðhalda ráðningarsambandinu og halda úti lágmarksstarfssemi. Stærsta aðgerðin sem kynnt var í gær er styrkur til endurráðningar í fyrra starfshlutfall. Þessi aðgerð gerir það að verkum að þeir fjölmörgu sem er á hlutabótum og vinna 50% verða ráðnir í fyrra starfshlutfall með stuðningi ríkisins, ganga í raun inn í þá stóru og merkilegu aðgerð sem kynnt var fyrir skömmu undir heitinu Hefjum störf. Þessar aðgerðir eru mikilvægur liður í viðspyrnu fyrir Ísland og því að skapa störf og hefja störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Landsýn

Við sjáum til lands. Stundin er að renna upp, stundin sem við höfum beðið eftir síðan heimsfaraldurinn skall á með öllu sínu tjóni á heilsu og hag fólks um allan heim. Allt síðasta ár hefur verið helgað baráttunni við faraldurinn, helgað því að vernda heilsu fólks og afkomu og því að tryggja hraða og markvissa viðspyrnu fyrir Ísland. Augnablikið þegar allt horfir til betri vegar er ekki síst upplifun okkar hvers og eins þegar við fáum stunguna í öxlina, þegar við sjáum fram á að losna við óttann við veiruna, ótta sem snýst ekki aðeins um okkur sjálf heldur ekki síst um ástvini okkar.

Ég er stoltur af þjóðinni okkar. Á erfiðum tímum, tímum þegar faraldurinn hefur ógnað heilsu okkar og okkar nánustu, hefur þjóðin staðið saman og mætt erfiðleikum af einurð og styrk. Sól hækkar á lofti, hópur bólusettra stækkar, atvinnulausum fækkar. Við horfum bjartsýn fram á veginn og klárum leikinn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra